Hopp til innhold

Afganistan

Stríðið í Afganistan hefur staðið yfir í meira en þrjátíu ár og gert landið að einu því fátækasta í heiminum. Langvarandi hernámi Sovétmanna fylgdi tíu ára borgarastyrjöld og stjórn íslamskra bókstafstrúarmanna. Árið 2001 réðust Bandaríkjamenn inn í landið og í dag standa átökin á milli stjórnvalda í Kabúl (sem njóta stuðnings vestrænna ríkja) og Talibana.

Síðast uppfært 20.03.2017

Afganistan

Upptök átakanna: Valdarán og hernám

Afganistan á sér sögu sem sjálfstætt konungsríki allt aftur til átjándu aldar. Landið var lengi vel stórveldi í sínum heimshluta, en á nítjándu öld var það bitbein í valdabaráttu Breta og Sovétmanna. Núverandi átök eiga rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins þegar konungi var steypt af stóli.

Átökin í Afganistan á áttunda áratugnum voru svipaðs eðlis og þau sem eiga sér stað í dag. Stjórnmálaelítan í Kabúl vildi umbætur og nútímavæðingu landsins, en hinum íhaldssama meirihluta til sveita stóð á sama eða var efins um umbæturnar. Hin pólitíska spenna leiddi á sex árum til tveggja valdarána og einnar innrásar. Árið 1973 var konungi fyrst steypt af stóli og hinn tiltölulega frjálslyndi Mohamed Daoud Khan tók við völdum sem forseti. Opinber stefna hans var að hraða þeim umbótum sem kóngi hafði mistekist að koma í verk og að nútímavæða landið. Á valdatíma Daoud Khan jókst hins vegar spennan milli hinnar borgaralegu stjórnmálaelítu og afganska Kommúnistaflokksins (PDPA). Með því að steypa konunginum af stóli hafði Khan einnig fjarlægt síðasta lögmæta og virta valdið í Kabúl. Hins vegar hafði hann þá einnig rutt veginn fyrir annað valdarán á fimm árum, þegar kommúnistar drápu Daoud Khan árið 1978.

Kommúnistaflokkurinn hafði líkt og Daoud Khan lítinn stuðning almennings. Umbæturnar sem flokksmenn hrintu í framkvæmd voru af mörgum álitnar and-trúarlegar og lítt afganskar og kommúnistastjórnin var ekki talin lögmæt stjórn landsins. Kommúnistarnir brugðust við með því að handtaka og pynta þúsundir stjórnarandstæðinga. Óróinn leiddi til innri sundrungar innan PDPA. Fyrst var framkvæmdastjóri flokksins myrtur, að skipun forsætisráðherrans og samflokksmanns hans. Forsætisráðherrann var síðan sjálfur myrtur af Sovétmönnum, með stuðningi sumra samflokksmanna sinna. Lengi leit út fyrir að PDPA ríkisstjórnin félli, áður en Sovétmenn ákváðu að íhlutast í landinu. Árið 1979 réðust Sovétmenn inn í Afganistan með meira en 100 þúsund manna herlið. 

Ungir íbúar í Maslakh flóttamannabúðunum. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Uppgangur Islamista

Innrás Sovétmanna átti sinn þátt í að koma jafnvægi á kommúnistastjórnina, en naut lítils stuðnings meðal fjöldans. Ríkisstjórnin var ekki bara álitin ólýðræðisleg, heldur einnig ógn við menningarlega og trúarlega ímynd Afganistans. Nokkrir uppreisnarhópar hófu að skipuleggja sig til sveita og berjast gegn hersetu Sovétmanna. Margir uppreisnarmanna voru bókstafstrúarmenn, aðrir voru lýðræðislega þenkjandi. En í öðrum heimshlutum voru þessir hópar álitnir vera ein breiðfylking, þekkt undir nafninumujahideen.

Innrás Sovétmanna vakti ugg og reiði í heiminum. Sérstaklega fór hún fyrir brjóstið á Bandaríkjamönnum, sem vildu hindra framgang kommúnismans og studdu því uppreisnarmenn í landinu. Bandaríkjamenn og Sádi-Arabar lögðu til nærri 40 milljarða dollara í reiðufé og vopnakaup til handa uppreisnarmönnun landsins. Þar með var grunnurinn lagður að löngu stríði milli kommúnista og mujahideen uppreisnarmannanna.

Að baki mujahideen varð til breiðfylking íhaldssamra bókstafstrúarmanna, þekkt sem Hizb-e Islami, undir forystu Gulbuddin Hekmatyar. Fylkingin var vel vopnum búin að undirlagi Bandaríkjamanna og fylgjenda þeirra í þeirri viðleitni að hafa Sovétmenn undir. Úr urðu hatrömm átök gegn hersetuliðinu, en jafnframt gegn öðrum hópum innan mujahideen. Átökin urðu blóðugri með hverjum deginum. Á þeim tíu árum sem stríðið stóð yfir, voru yfir 600 þúsund Afganar drepnir og meira en sex milljónir Afgana flúðu til nágrannaríkjanna Írans og Pakistans.

Borgarastríð

Árið 1989 drógu Sovétríkin sig endanlega frá Afganistan. Eftir stóð land í algjörri upplausn. Hinum ólíku uppreisnarhópum tókst á endanum að hafa betur gegn kommúnistunum í Kabúl, en gátu hins vegar ekki komið sér saman um skiptingu valda að því loknu. Við svo búið hélt stríðið áfram.

Soviet soldiers in Afghanistan

Sovéskir hermenn héldu heim frá Afganistan í maí 1988. Mynd: V. Kiselev/Creative Commons

Gulbuddin Hekmatyar og hreyfing hans, Hizb-e Islami, voru sérstaklega óbilgjörn í þessum efnum og sóttu fast að taka einir við stjórnartaumum. Í slagtogi með öðrum hópum Islamista og stuðningi Sádi-Arabíu og Pakistans, hófu þeir stórskotahríð á höfuðborgina Kabúl, þar sem aðrir uppreisnarhópar freistuðu þess að koma á nýrri ríkisstjórn. Afleiðingin varð nýtt borgarastríð, sem varði allt þar til Talibanar náðu völdum í landinu árin 1996-1997. Stuðningur pakistönsku leyniþjónustunnar, ISI, skipti þar sköpum. Þeir vonuðust eftir stuðningi Afganistan í framtíðinni í deilum sínum við Indverja og óttuðust hugsanlegan stuðning Afgana við vestræn ríki og Indland. Þess vegna studdu þeir mismunandi hópa í stríðinu og þegar Talibanar höfðu náð yfirhöndinni í valdabaráttunni innanlands um miðjan 10.áratuginn, þá nutu þeir einnig stuðnings ISI.

Talibanar eiga rætur sínar að rekja til ungra mujahideen skæruliða frá Kandahar, sem leiddir voru af bóndasyninum og Pastúnanum Mullah Mohammed Omar. Með fulltingi pakistönsku leyniþjónustunnar náðu Talibanar smám saman völdum, Kabúl náðu þeir á sitt vald árið 1996. Þegar mest lét, stýrðu Talibanar upp undir 90% landsins. Aðeins smár hluti þess var undir yfirráðum Norðurbandalagsins, sem sameinaðist í andstöðu sinni við Talibana. Alls staðar annars staðar í landinu minntu stjórnhættir Talibana á miðaldir, konum var neitað um skólagöngu, fyrir þjófnaði gátu menn reiknað með aflimun, og stjórnaranstæðingar voru kerfisbundið hundeltir og drepnir. Talibanastjórnin var aldrei viðurkennd utanfrá, nema af Sádi-Arabíu, Pakistan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en hélt þó völdum í landinu í hátt í fimm ár. Þrátt fyrir harða framgöngu þeirra, þótti mörgum Afgönum valdatími þeirra einkennast af kærkomnum friði og stöðugleika. Á valdatíma Talibananna hvarf spilling nánast, glæpatíðni og ópíumræktun drógust einnig verulega saman. En gjaldið fyrir þessa jákvæðu þætti var pólitískt og menningarlegt einræðisvald. Stjórnin hélt velli allt fram í október 2001, þegar Norðurbandalagið, með hjálp Bandaríkjamanna og NATO, endurheimti hervald yfir stærstum hluta landsins. 

Fall Talibana

Á stjórnartíma Talibana höfðu hryðjuverkasamtök Al-Quaida bæði æfingabúðir og höfuðstöðvar í Afganistan. Frá höfuðstöðvunum stýrði leiðtogi samtakanna, Osama bin Laden, m.a. sprengjuárás á sendiráð Bandaríkjanna í Nairobi árið 1998. Al-Quaida reyndust Bandaríkjamönnum erfiðir viðureignar undir verndarvæng Talibana á stjórnartímanum. Leynilegar viðræður Talibana og Bandaríkjamanna um framsal bin Laden til þeirra síðarnefndu reyndust árangurslausar. Bandaríkjamenn kröfðust þess að fá bin Laden fyrir dóm í Bandaríkjunum, en Talibanar voru í mesta lagi tilbúnir að framselja hann til annars múslimaríkis.

Þegar Al-Quaida stóðu fyrir hryðjuverkaárásunum á New York og Washington 11.september 2001 var Bandaríkjamönnum nóg boðið. Þeir kröfðust tafarlauss framsals bin Laden, ellegar skyldur þeir ráðast inn í Afganistan. Talibanastjórnin varð ekki við kröfunni og 7. október hóf Bandaríkjaher innrás sína. Nokkrum vikum síðar létu Norðurbandalagið og bandarískar hersveitir til skarar skríða gegn stjórninni í Kabúl, sem markaði upphafið að falli hennar nokkrum mánuðum síðar.

Nýir valdhafar í Kabúl komu úr röðum fyrrum stríðsherra og Mujahideen skæruliða. Með fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi frá NATO, Bandaríkjunum og mörgum vestrænum ríkjum, komu þeir á fót tímabundinni stjórn undir forsæti Hamid Karzai, þekkts andkommúnista.

Árið 2004 voru í fyrsta sinn haldnar frjálsar kosningar í Afganistan, þar sem Karzai náði kjöri sem forseti með rúmum helmingi atkvæða. Meira en 2/3 atkvæðisbærra landsmanna kusu, en við sama tækifæri var einnig kjörið nýtt þing og samið um nýja stjórnarskrá.

Áframhaldandi átök við Talibana

Þrátt fyrir fall Talibanastjórnarinnar var stríðinu ekki lokið. Eftir að hafa komist hjá algjörum ósigri árið 2002, söfnuðu Talibanar liði á ný nærri landamærum Pakistans. Þaðan hófu þeir að nýju viðamiklar skæruliðaárásir gegn ríkisstjórninni og erlendum hersveitum árið 2005. Árásunum fjölgaði ár frá ári og á árunum 2007-2008 höfðu Talibanar náð völdum á ný í suður- og austurhluta Afganistans.

Nýfætt barn á leið heim af sjúkrahúsi. Átökin í Afganistan eru ein helsta orsök þess að læknisþjónusta við ófrískar konur er afar bágborin í Afganistan. Mynd: Salma Zulfiqar/IRIN

Í því skyni að ná hernaðarlegum ítökum á ný í landinu, ákvað Barack Obama Bandaríkjaforseti að fjölga mikið bandarískum hermönnum í Afganistan. 2009-2010 var fjöldi hermanna aukinn úr tæplega 50 þúsund í rúmlega 130 þúsund. Á sama tíma studdu Bandaríkjamenn uppbyggingu afganska ríkishersins, með opinbert markmið um að draga eigin herlið út úr landinu árið 2014.

Hersveitir Bandaríkjamanna héldu Talibönum í skefjum á ýmsum svæðum, en tókst þó engan veginn að endurheimta stjórnina á landsbyggðinni. Um leið og hersveitir Bandaríkjamanna voru kallaðar heim frá tilteknum svæðum, tóku Talibanar þar völdin á ný. Forsetakosningar voru haldnar 2009, þar sem Hamid Karzai var endurkjörinn forseti. Kosningarnar voru þó ekki eins frjálsar og óháðar eins og best verður á kosið. Kosningaþátttaka var dræm vegna óstöðugleika og ótta meðal þjóðarinnar og margt benti til svika og spillingar við framkvæmd þeirra. Helsti mótframbjóðandi Karzais, Abdullah Abdullah, dró framboð sitt til baka í mótmælaskyni, sem tryggði sigur Karzai.

Talibanar hófu árásir í suðri á ný árið 2010, m.a. á Kandahar. Stjórn Karzais gerði margar tilraunir til friðarumleitana við Talibana, en Talibanar voru ekki til viðræðu um friðarsamninga á meðan erlendar hersveitir væru í landinu.

Í september 2011 var aðalsamningamaður Karzais, Burhanuddin Rabbani, drepinn í sjálfsmorðsárás, þegar til stóð að hann hitti talsmenn Talibana vegna viðræðna. Abdullah Abdullah taldi árásina sýna að Talibanar vildu ekki semja um frið.

Samskipti við grannríkið Pakistan versnuðu eftir að NATO stýrði árás á landamærasvæðið í október 2011, þar sem pakistanskir hermenn féllu. Í nóvember 2011 var haldin alþjóðleg ráðstefna um málefni Afganistans í Bonn. Þar voru saman komnir þátttakendur frá 85 löndum, Sameinuðu þjóðunum og 15 alþjóðastofnunum. Þema ráðstefnunnar var yfirfærsla valds frá hersveitum NATO til afganska hersins, hlutverk alþjóðasamfélagsins í Afganistan eftir valdaskiptin og hvernig pólitískum afskiptum skyldi háttað til þess að koma á stöðugleika í landinu. Talibanar og Pakistanar hundsuðu ráðstefnuna, þeir síðarnefndu vegna árása NATO í október sama ár.

Yfirfærsla valds og erlendir hermenn kallaðir heim

Afturköllun bandarískra hermanna hófst 2011. Í maí 2012 undirrituðu Karzai forseti og Obama Bandaríkjaforseti samkomulag um hvernig samstarfi ríkjanna skyldi háttað eftir að bandarískar hersveitir væru með öllu farnar úr landi. Eftir undirritunina kynnti Obama áætlun um stríðslok og yfirfærslu valds til Afganistan. Fyrir lok árs 2014 stendur til að þorri bandaríksra hermanna yfirgefi landið. Þeir fáu sem eftir verða eiga að þjálfa og styðja afganska herinn. Að auki verður fámenn sveit bandarískra hermanna sem taka skal þátt í sértækum aðgerðum gegn Al-Qaida. Ekki er ljóst þegar þetta er skrifað hve stórt herlið Bandaríkjanna verður eftir 2014.

Í maí 2012 funduðu leiðtogar NATO ríkja um áform um að kalla hersveitir bandalagsins heim. Eftir að hafa smátt og smátt yfirfært ábyrgð á örryggisgæslu og átökum til afganska hersins, voru síðustu svæðin látin í hendur honum 18.júní 2013. Frá þeim degi tekur afganski herinn ábyrgð á öryggi alls landsins. Hlutverk alþjóðlegra hersveita á að vera stuðningur við afganska herinn í aðgerðum hans, að stýra þjálfun hermanna og lögreglumanna og að veita ráðgjöf. Aðildarríki NATO sem átt hafa hermenn í Afganistan stýra upp a vissu marki sjálf hvenær þau kalla menn sína heim. Frakkar og Kanadamenn hafa nú þegar kallað alla sína hermenn heim.

Staða öryggismála í Afganistan verður seint talin stöðug. Talibanar halda enn velli og ráða nýja skæruliða og gera árásir á svæði sem varin eru af NATO. Enn er óljóst hvort afganski herinn er í stakk búinn til þess að taka ábyrgð á öryggismálum landsins þegar erlendar hersveitir hafa yfirgefið landið.

Samskiptin við grannríkið Pakistan fara batnandi. Í febrúar 2013 sömdu Karzai og forseti Pakistans, Asif Ali Zardari,  um samstarf í friðarumleitunum við Talibana, stuðning við afganska sendiskrifstofu í borginni Doha í Katar og hvöttu Talibana til slíks hins sama, svo koma mætti á formlegum friðarviðræðum. Karzai óskar sjálfur eftir að leiða slíkar viðræður og hefur hafnað tillögum um að Bandaríkjamenn leiði viðræðurnar við Talibana. Talibanar vilja á hinn bóginn ræða við Bandaríkjamenn, sem þeir segja í raun ráða ríkjum í Afganistan.

Átökin halda áfram

Afgönsku ríkisstjórninni og alþjóðlegum bandamönnum hennar hefur ekki tekist að koma á friði og jafnvægi í Afganistan. Skýrsla sendisveitar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan (UNAMA) sem kom út á þessu ári sýnir að heildarfjöldi látinna og særðra óbreyttra borgara hefur aukist á hverju ári frá árinu 2012. Í skýrslunni kemur fram að uppreisnarhópar, með Talíbana í broddi fylkingar, báru ábyrgð á yfir 60% látinna og særðra árið 2016. Í þokkabót hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) einnig dregist inn í átökin. Skýrsluhöfundar hafa áhyggjur af því að þetta geti leitt til meiri átaka milli Súnní- og Sjía-múslima í landinu, enda herjar Íslamska ríkið markvisst á Sjía-múslima.

Hlutverk SÞ í átökunum

Bandaríkin höfðu ekkert umboð fengið frá Sameinuðu þjóðunum þegar þau hófu hernaðaraðgerðir gegn Afganistan í október 2001. Þau tóku sér réttinn til sjálfsvarnar, sem tryggður er í 51. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Margir sérfræðingar í þjóðarétti eru hins vegar ósammála túlkun Bandaríkjamanna á sjálfsvarnarréttinum. Þá er umdeilt hvort ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kjölfar innrásar Bandaríkjanna (ályktun 1368) eigi að túlka sem staðfestingu á rétti Bandaríkjanna til að beita sjálfsvörn gegn Afganistan.
Ståle Eskeland er einn þeirra sérfræðinga í þjóðarrétti sem vilja meina að innrásin hafi hvorki verið í sjálfsvörn né í umboði Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, og að innrásin hafi því verið ólöglegt árásarstríð samkvæmt þjóðarétti.

20. desember 2001 veitti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heimild fyrir alþjóðlegu herliði í Afganistan til að tryggja öryggi í Kabul og nærliggjandi svæðum. Þetta herlið hét International Security Assistance Force (ISAF) og var undir forystu Breta áður en Atlantshafsbandalagið (NATO) tók yfir í ágúst 2003. Sama ár var svæðið sem heyrði undir herliðið víkkað út til að ná utan um allt Afganistan. ISAF-aðgerðinni lauk árið 2014.

Frá árinu 2002 hafa Sameinuðu þjóðirnar starfrækt sendisveit í Afganistan, UN Assistance Mission in Afghanistan (UNAMA), þar sem starfa um 1500 óbreyttir starfsmenn og 14 hernaðarráðgjafar. Sum verkefna sendisveitarinnar felast í aðstoð við kosningar og eftirliti með þeim yfir 30 stofnunum og verkefnum sem Sameinuðu þjóðirnar starfrækja í Afganistan. Meðal þeirra eru Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO), Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Sameinuðu þjóðirnar hafa starfrækt verkefni í Afganistan frá sjötta áratug síðustu aldar. Á meðan á hernámi Sovétríkjanna stóð starfrækti Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna flóttamannabúðir fyrir Afgana bæði í Pakistan og Íran. Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig lagt mikla áherslu á að fjarlægja jarðsprengjur, sem er stórt vandamál í landbúnaðarríkinu Afganistan.

Heimildir: Uppsala Conflict database, Institutt for fredsforskning (PRIO), FN-sambandet, Aschehoug og Gyldendals store norske leksikon, Wikipedia, BBC

Ríki sem eiga aðild

Lesa meira um átökin í Uppsala Conflict Database (enska)

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi © 2017