Hopp til innhold

Eþíópía og Erítrea

Ósamkomulagið um landamærin á milli Eþíópíu og Erítreu kostuðu 80.000 manns lífið á árunum 1998 til 2000 og ekki er enn búið að leysa deiluna. Þetta læsta ástand er vegna þess að bæði löndin gera kröfu um lítið fjallasvæði.

Síðast uppfært 13.07.2008

Eþíópía og Erítrea

Árið 1991 felldu erítreska frelsishreyfingin EPLF og eþíópíska uppreisnarhreyfingin hina hötuðu stjórn einræðisherrans Mengistu Hail Mariam. EPLF hafði barist fyrir sjálfstæði Erítreu frá Eþíópíu í 30 ár og átt í stríði við margar kynslóðir af eþíópískum valdhöfum. En það var ekki fyrr en EPRDM bandamenn EPLF tóku við völdum í Eþíópíu að Erítrea fékk sjálfstæði.

 

Fyrstu árin eftir fall Mengistus var sambandið á milli fyrrum bandamannanna EPLF og EPRDM tiltölulega gott. Nýir valdhafar voru á Vesturlöndum álitnir hin nýja tegund samstarfsfúsra afrískra leiðtoga og mikil bjartsýni ríkti um þróun álfunnar. Samvinnan versnaði þó fljótt í takt við óskir Erítreu að leggja áherslu á hlutleysi sitt. Ástandið varð enn flóknara þegar Erítrea tók upp sinn eigin gjaldmiðil árið 1997, sem gerði viðskipti við Eþíópíu erfiðari.

 

Friðurinn stóð einungis í sjö ár, 6. maí 1998 réðust erítreskar hersveitir inn á Badme svæðið sem frá árinu 1991 hafði verið undir yfirráðum Eþíópíu. Þetta er landamærasvæði sem hefur alla tíð verið miðpunktur átakanna. Á stuttum tíma braust út stríð. Samið var um bráðabirgða vopnahlé með milligöngu Bandaríkjanna, Rúanda og Afríkusambandsins, en það var einungis notað sem tækifæri til endurvopnunuar af báðum aðilum og í febrúar 1999 brutust átök út að nýju. Stríðið snerist að því er virðist um yfirráð yfir landsvæðum sem voru að hluta tilvalin til landbúnaðar og að hluta talin vera rík af náttúruauðlindum. Orsakir átakanna má þó einnig rekja til þeirrar staðreyndar að Eþíópía missti aðgang að sjó með sjálfstæði Erítreu. Jafnvel þó að þessu sé vísað á bug af eþíópískum stjórnvöldum, halda margir því fram að Eþíópía sé að gera tilraun til að fá aftur yfirráð yfir hafnarbænum Assab. Í sjónum fyrir utan Assab er mögulega olía, sem Eþíópía vill án efa gera tilkall til. Afríkusambandið gerði aðra tilraun sem sáttasemjari og Erítrea samþykkti skilyrðin. Það stöðvaði þó ekki Eþíópíu sem hafði lítinn áhuga á friði eftir að hafa tekist vel til í nokkrum stórum innrásum og náði að hertaka stóran hluta Erítreu. Það var ekki fyrr en Erítrea samþykkti að draga herafla sinn út úr hinu umdeilda landamærasvæði sem löndin tvö undirrituðu friðarsamkomulag í Alsír í júní 2000.

 

Eþíópía kom betur út úr friðarsamningnum og eþíópískar hersveitir héldu kyrru fyrir í í þeim hlutum Erítreu sem voru undir stjórn Eþíópíu við undirritun samkomulagsins. SÞ sveitir tóku við stjórn svæðisins í júlí árið 2000 og vakta nú 25 kílómetra breitt hlutlaust svæði Erítreu-megin við landamærin. Deiluaðilarnir tveir undirrituðu einnig að óháð nefnd skyldi ákvarða um niðurstöðu landamæradeilunnar. En þegar landamæranefndin lagði fram úrskurð sinn árið 2002 neitaði Eþíópía að viðurkenna úrskurðinn – að landamærasvæðið Irob og bærinn Badme tilheyrði Erítreu. Þetta tafði frekari viðræður, eitthvað sem Erítrea hafnaði.

 

Endurteknar friðarumleitanir hafa farið fram eftir að samkomulagið versnaði árið 2002, en ekki hefur tekist að finna lausn á að sinni. Fyrir jólin 2005 vöruðu SÞ við því að átökin gætu versnað. Þá sendu bæði Eþíópía og Erítrea hersveitir inn á landamærasvæðið sem SÞ stjórnuðu. Þetta læsta ástand hefur gert það að verkum að Erítrea hefur misst þolinmæðina gagnvart SÞ. Þeir halda því fram að það sé ekki verið að gera nóg til að fá Eþíópíu til að draga sig tilbaka og hafa ekki lengur áhuga á samstarfi við friðargæslusveitir SÞ. Yfirvöld í Erítreu hafa bannað SÞ að fljúga þyrlum í erítreskri lofthelgi, eitthvað sem gerir þeim erfitt fyrir að fylgjast með hreyfingu á landamærasvæðinu. Að tilstilli Erítreu voru allar vestrænar friðargæslusveitir SÞ dregnar út úr landinu í janúar 2006.

 

Auk stríðsins við Erítreu eru einnig mikil innanríkisátök í Eþíópíu. Stærstu átökin eru á milli ríkisstjórnarinnar og Oromo, sem er ættbálkur sem um það bil 30 prósent íbúa landsins tilheyrir. Oromoar hafa frá árinu 1974 barist fyrir því að fá eigið landsvæði og fyrir sjálfstæði suður og vesturhluta landsins frá Eþíópíu. Oromoar unnu með EPLF og EPRDF við að steypa Mengistu af stóli, en voru ekki ánægðir þegar EPRDF myndaði nýja eþíópíska ríkisstjórn með fáum Oromoum. Í mörg ár börðust þeir fyrir réttindum sínum í stjórnkerfinu, en ákváðu svo árið 1997 að fara í skæruliðastríð gegn eþíópískum yfirvöldum. Átökin standa enn yfir.

Hlutverk SÞ í átökunum

SÞ hvöttu árið 2000 til vopnasölubanns gegn bæði Erítreu og Eþíópíu, sama ár voru sendar inn friðargæslusveitir. Þeir starfa á landamærasvæðinu á milli landanna tveggja og fylgjast náið með þróun átakanna. Aðgerðin hefur farið langt fram úr kostnaðaráætlunum og mjög líklega er langt þangað til sveitirnar geti yfirgefið svæðið. Þrátt fyrir að ekki hafi verið beinn stríðsrekstur á svæðinu síðan um aldamótin, eru mörg dæmi þess að hlutlausa svæðið sem SÞ-sveitirnar halda til á sé ekki viðurkennt sem slíkt.

 

Átökin á milli Erítreu og Eþíópíu urðu enn flóknari þegar Eþíópía gerði innrás í Sómalíu árið 2006. Eþíópía réðst inn til að styðja bráðabirgðaríkisstjórnina í Sómalíu gegn íslamistum sem höfðu tekið yfir stjórn höfuðborgarinnar Mogadishu, á meðan var Erítrea sökuð um að styðja við íslamista með vopnum.

Heimildir: Uppsala Conflict Database, Institutt for fredsforskning (PRIO), Aschehoug og Gyldendals store leksikon, SÞ, Félag Sameinuðu þjóðanna í Noregi, BBC

Ríki sem eiga aðild

Lesa meira um átökin í Uppsala Conflict Database (enska)

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi © 2017