Forsaga

Bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn eiga rætur sínar að rekja til Mið-Austurlanda. Grundvallarspurningin í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs snýr að því hver eigi tilkall til landsvæðisins. Gyðingar voru hraktir á brott í kringum 70 e. Kr. og dreifðust þá í kjölfarið yfir alla Evrópu og Mið-Austurlönd. Í mörg ár var þeim neitað um aðgang að svæðinu en á sama tíma urðu þeir oft fyrir ofsóknum og árásum í sínum nýju heimkynnum.

Í kjölfar m.a. rannsóknarréttarins í Suður-Evrópu ákvað fjöldi Gyðinga á 16. og 17. öld að setjast aftur að í Palestínu. Þá er áætlað er að heildaríbúafjöldi í Palestínu hafi verið í kringum 200.000, þar af 15.000 Gyðingar.

Skipulagðir fólksflutningar Gyðinga til Palestínu hófust árið 1882 í kjölfar styrkingar síonismans í Evrópu. Síonismi var stjórnmálahreyfing sem barðist fyrir ríki Gyðinga í Mið-Austurlöndum. Hreyfingin náði miklum diplómatískum framförum með Balfour yfirlýsingunni í 1917. Um er að ræða yfirlýsingu þar sem breska ríkisstjórnin lofaði að vinna að stofnun ríkis Gyðinga í Palestínu.

Gyðingar flytjast til Palestínu

Í kjölfar fyrri heimsstyrjöldina leystist ríki Osmana upp, en Palestína hafði verið hluti þess. Bresk stjórn tók þá við stjórnartaumun í Palestínu sem flýtti fyrir flutningi Gyðinga á svæðið. Þróunin var Palestínumönnum ekki að skapi sem leiddi til mikilla árekstra milli Gyðinga, sem voru í minnihluta, Araba sem voru í meirihluta og bresku herstjórnarinnar.

Eftir 1933 leiddu gyðingaofsóknir í Þýskalandi til mikillar aukningar á flutningi þeirra. Arabískir leiðtogar kröfðust þá þess að fólksflutningar Gyðinga yrðu stöðvaðir. Eftir það var Gyðingum neitað um að yfirgefa Evrópu, sem varð til þess að margir þeirra urðu fórnarlömb útrýmingabúða nasista. Árið 1949 voru Gyðingar u.þ.b. þriðjungur íbúafjölda Palestínu, heildaríbúafjöldinn var 1.530.000 manns.

Ísraelsríki er stofnað

Fólksflutningar Gyðinga héldu enn áfram eftir seinni heimsstyrjöldina og slæmt samviskubit Evrópu gerði það að verkum að stofnun ísraelsks ríkis hafði enn meiri stuðning en áður. Á sama tíma gripu öfgafullir Gyðingahópar, m.a. Irgun, til vopna og hófu árásir á bæði Breta og Palestínumenn. Afleiðingin var sú að sveitir arabískra sjálfboðaliða frá fjölmörgum löndum hófu að blanda sér í deiluna og styðja málstað Palestínumanna. Þessi erfiða staða leiddi til þess að bresk stjórnvöld hurfu á braut og létu SÞ eftir deiluna um Palestínu.

SÞ mælti með því að Palestínu skyldi skipt í tvennt, Gyðingum yrði úthlutað 54% landsvæðis á meðan Palestínumenn myndu fá 46%. Gyðingar samþykktu þetta en Palestínumenn, sem voru 70% mannfjölda, vildu ekki að ríki Gyðinga yrði stofnað á landsvæði sem þeir litu á að væri sitt land. Áður en SÞ gat afgreitt málið, tilkynnti stjórn síonista í Palestínu í millitíðinni eða árið 1948, að ríkið Ísrael hefði verið stofnað.

Arabaheimurinn leit á tilmæli SÞ og stuðning alþjóðasamfélagsins við stofnun ríkis Gyðinga sem svik við Palestínumenn. Fjöldi landa hafði hótað stríði yrði þetta raunin. Egyptaland, Írak, Jórdanía, Líbanon og Sýrland fylgdu hótununum eftir og varð Ísrael því strax í kjölfar stofnunarinnar þátttakandi í tveggja ára stríði gegn sínum arabísku nágrannalöndum. Stríð sem Ísraelsmenn höfðu sigur úr bítum.

Palestína ekki lengur til sem sérstakt landsvæði

Þegar stríðinu lauk, í janúar 1949, hafði Ísrael 21% stærra landssvæði en skipulagstillaga SÞ gekk út á. Egyptaland tók yfir Gasa og Jórdanía innlimaði hinn svokallaða Vesturbakka. Palestínumenn sátu eftir án eigin landsvæðis. 700.000 Palestínumanna höfðu flúið frá svæðinu sem Ísrael hafði tekið yfir. Þeir leituðu athvarfs í flóttamannabúðum á Gaza, á Vesturbakkanum og í nágrannalöndunum, Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon.

Í hinu svokallaða Sex daga stríði árið 1967 tóku Ísraelsmenn svo Gasa og Sínaí eyðimörkina frá Egyptalandi, Vesturbakkann ásamt Austur Jerúsalem frá Jórdaníu og hluta af Gólanhæðum frá Sýrlandi. Eftir að Sex daga stríðinu lauk stjórnaði Ísrael þar með öllu því svæði sem hafði áður talist til stjórnarsvæðis Palestínu. Afleiðingin var sú að u.þ.b. ein milljón Palestínumanna á hernumdum Vesturbakka og Gaza voru nú undir ísraelskri stjórn.

Í flóttamannabúðunum Dikwaneh fyrir utan Beirút bjuggu fleiri en 5000 Palestínumenn árið 1970. Nokkrum árum síðar voru búðirnar eyðilagðar og flóttamennirnir fluttir í aðrar búðir. Mynd: UN Photo/DB

Palestínska frelsishreyfingin PLO – Yasser Arafat

Palestínska frelsishreyfingin (PLO) var stofnuð árið 1964 og leidd af Yasser Arafat frá 1969. PLO samanstóð af mörgum ólíkum palestínskum arnspyrnuhreyfingum sem börðust fyrir frjálsri Palestínu. Flóttamannabúðirnar voru mikilvægustu staðirnir til þess að afla liðs í palestínsku andspyrnubaráttuna. Hluti af andspyrnuhreyfingunni stóð fyrir hryðjuverkaárásum, m.a. flugránum, þar sem það vakti athygli á stöðu Palestínumanna.

Diplómatísk tímamót urðu hjá PLO árið 1988 þegar Arafat lagðist gegn hryðjuverkum í baráttunni um sjálfstætt ríki. Á svipuðum tíma lýsti palestínska þjóðarráðið (þing Palestínumanna í útlegð) yfir sjálfstæðu ríki Palestínu sem samanstóð af Gasa og Vesturbakkanum. Fjöldi landa viðurkenndu ríkið og krafa Palestínumanna um sjálfstjórn og stofnun ríkis styrktist eftir uppreisn á hernumdu svæðunum á Gasa og Vesturbakkanum árið 1987.

Í kjölfar Osloarsamkomulagsins varð Palestínumönnum ágengt og árið 1994 gátu þeir í fyrsta skipti kosið sín eigin stjórnvöld.

Oslóarsamkomulagið

Unnið var að Oslóarsamkomulaginu frá byrjun tíunda áratugarins og undir það var ritað árið 1993. Um var að ræða tímabundið samkomulag sem átti að leggja grunninn að endanlegu friðarsamkomulagi. Í Oslóarsamkomulaginu urðu Ísrael og PLO sammála um að palestínskt ríki yrði stofnað á fimm ára tímabili en í millitíðinni skyldi komið á fót palestínskri heimastjórn.

Vesturbakkanum var skipt upp í þrjár tegundir svæða; A, B og C svæði. Palestínska heimastjórnin áttu að stjórna A svæðinu (17% af Vesturbakkanum), sem náði nokkurn vegin yfir stóru bæina. Á B svæðinu (24%) höfðu yfirvöld í Palestínu borgaralega stjórn en Ísrael skyldi viðhalda herafla sínum. Á svæði C (59%) hafði Ísrael fulla stjórn.

Oslóarsamkomulagið fékk þó skyndilegan endi áður en 5 ára tímabilinu lauk. Forsætisráðherra Ísrael, Yitzhak Rabin, var myrtur af öfgafullum Gyðingi árið 1995 og arftaki hans var Benjamin Netanyahu. Netanyahu var mun síður tilbúin til að ganga að málamiðlunum en forveri sinn og deilan varð erfiðari. Á sama tíma byrjuðu palestínskir hópar sjálfsmorðsárásir á óbreyttum borgurum í Ísrael. Vilji til samningaviðræða var því mun minni hjá báðum aðilum.

Uppreisn, aðskilnaðarmúr og landnemabyggðir

Á fyrsta áratug 21. aldarinnar versnaði staðan mikið. Palastínumenn höfðu orðið fyrir vonbrigðum að ríkið sem þeim hafði verið lofað í Oslóarsamkomulaginu var aldrei stofnað og 2001 braust út önnur palestínsk uppreisn (á arabísku: intifada). Í þetta sinn urðu sjálfsmorðsárásir mun tíðari í Ísrael, sem leiddi til þess að ísraelski herinn herti tökin á Vesturbakkanum og Gasa verulega. Þetta kom sérstaklega fram í ferðatakmörkunum Palestínumanna sem þurftu að fara í gegnum stöðugt fleiri eftirlitsstöðvar og vegatálma til þess að geta farið sinnar leiðar. Árið 2002 hófst bygging aðskilnaðarmúrs sem nær langt inn á Vesturbakkann og gerir það að verkum að hlutar landsins eru ekki aðgengilegir fyrir Palestínumenn. Aðskilnaðarmúrinn var fordæmdur af SÞ og alþjóðadómstólinn í Haag telur byggingu múrsins ekki í samræmi við alþjóðalög.

Á sama tíma hélt Ísrael áfram að byggja landnemabyggðir Gyðinga á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem sem Palestínumenn líta á sem sína höfuðborg. Landnemabyggðir byrjuðu að skjóta upp kollinum í kjölfar Sex daga stríðsins 1967 en Gyðingar hófu að koma þeim á fót af alvöru á tíunda áratug 20. aldar. Einhverjir landnemar líta svo á að Gyðingar séu hin Guðs útvalda þjóð og þar með eigi þeir rétt til þess að búa í öllu biblíulega Ísrael. Vesturbakkinn og Austur-Jerúsalem eru mikilvægir trúarstaðir fyrir Gyðinga. Meirihluti ísraelskra landnema hafa hins vegar flutt til hernumdu svæðanna þar sem ísraelska ríkið býður efnahagslegan stuðning s.s. skattaafslátt og ódýrar íbúðir á svæðunum.

Í dag eru um hálf milljón manna búsett á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem. Landnemabyggðirnar eru ólöglegar með hliðsjón af alþjóðalögum þar sem þær eru byggðar á palestínsku landi og einnig í ljósi þess a herstjórn hefur ekki leyfi til þess að flytja almenna borgara sína á þau svæði sem eru hernuminn. Landnemabyggðirnar eru ein af stærstu hindrununum fyrir friðarferli milli Ísrael og Palestínumanna.

Aðskilnaður Hamas og Fatah

Í janúar 2006 unnu Hamas kosningarnar á palestínsku sjálfsstjórnarsvæðunum og PLO-flokkurinn, Fatah, missti völd. Hvoru tveggja Bandaríkin og Evrópusambandið eru með Hamas á lista yfir hryðjuverkasamtök og hafa hin nýju palestínsku stjórnvöld fengið kaldar móttökur á Vesturlöndum. Í ljósi þess að hin nýja lýðræðislega kjörna ríkisstjórn var ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu lét Hamas reyna á að koma á samsteypustjórn með Fatah. Efnahagsleg og stjórnmálaleg sniðganga hélt þó áfram að sama krafti og samsteypustjórnin féll.

Fatah og Hamas áttu í deilum í kjölfarið, þá sérstaklega um það hverjir ættu að hafa stjórn yfir friðarsveitunum og bera ábyrgð á að halda uppi lögum og reglu. Stöðugum bardögum lauk árið 2007 með því að Hamas tók yfir stjórnina á Gasa og forsetin Mahmoud Abbas og Fatah tók völd á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur staða mannréttinda fyrir stjórnmálaandstæðinga beggja flokka versnað mikið.

Alþjóðasamfélagið hefur valið að styðja Mahmoud Abbas og Fatah. Í millitíðinni er vandamálið þó að Abbas hefur lítinn stuðning meðal Palestínumanna og getur ekki samið fyrir hönd Gasa, þar sem Hamas er við völd. Á síðustu árum hefur verið mikilvægt að sættir milli Hamas og Fatah náist. Haustið 2012 voru haldnar sveitarstjórnarkosningar á Vesturbakkanum sem dró úr styrk Fatah. Hamas sniðgekk kosningarnar og leyfði þar að auki alls engar kosningar á Gasa.

Samningaviðræður sem mistókust og Gasa stríðið

Á fyrsta áratug 21. aldarinnar fóru fram fjöldi tilrauna til samningaviðræðna, bæði í Taba og Annapolis, án þess að nokkur lausn fengist. Ísrael hélt því fram að engir palestínskir samningsaðilar væru fyrir hendi og besta lausnin væri að reyna að enda deiluna upp á eigin spýtur. 2005 dró forsætisráðherra, Ariel Sharon, allar ísraelskar hersveitir og landnemabyggðir frá Gasa og byggði þess í stað aðskilnaðarmúr. Þar með hafði Ísrael stjórn yfir hvoru tveggja inn- og útflutningi vara og ferðum fólks ásamt því að beita hernaðaraðgerðum á Gasaströndinni með jöfnu millibili. Hamas og aðrar hersveitir á Gasa hafa svarað með því að skjóta eldflaugum á suður Ísrael. Mannfall af völdum eldflauganna hefur ekki verið mikið en skapar stöðuga ógn fyrir hluta almennra borgara í Ísrael.

Um miðjan desember 2008 var samkomulagi um vopnahlé milli Hamas og Ísrael slitið en það hafði þá verið mjög viðkvæmt. Ekki tókst að ná saman um nýtt samkomulag og báðir aðilar sökuðu hvorn annan um að hafa brotið vopnahléið fyrst. 27. desember hóf Ísrael umfangsmiklar árásir af lofti og landi þar sem 1400 Palestínumenn létu lífið og 13 ísraelskir hermenn. Stríðið á Gasa hristi upp í stórum hlutum alþjóðasamfélagsins og Ísrael var sakað um mikil og óhófleg viðbrögð. Stríðið stóð í 25 daga og lagði Gasa í rúst.

Tveimur mánuðum eftir stríðið voru kosningar í Ísrael. Benjamin Netanyahu var kosinn sem nýr forsætisráðherra. Ríkisstjórn hans samanstendur af flokkum og aðilum sem hafa verið harðlínumenn í samskiptum sínum við Palestínu, sé sagan skoðuð. Þrátt fyrir stór loforð, frá Bandaríkjunum og Obama forseta um að flýta fyrir friðarferlinu, hefur Ísrael Gasa og íbúa Vesturbakkans enn í einangrun.

Palestínska heimastjórnin hefur leitt umfangsmikið ríkisbyggingarverkefni, til að tryggja að allar nauðsynlegar stofnanir séu til staðar. 2011 var vinnan komin svo langt að fjölda aðila lýsti yfir að palestínskt ríki myndi geta lifað lengi.

Gegn palestínsku ríki í SÞ?

Þrátt fyrir þrýsting frá Ísrael og Bandaríkjunum ákvað Mahmoud Abbas í ljósi þess sem að framan greinir að leggja inn umsókn hjá öryggisráði SÞ um að gerast aðildarríki SÞ. Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu við meðferðina.

Palestínumenn vonast til þess aðild að fjölbreyttum stofnunum SÞ muni ryðja brautina svo alþjóðasamfélagið muni viðurkenni palstínska ríkið. Til þess að auka líkur sínar á því sóttu Palestínumenn um að fá stöðu sína innan SÞ uppfærða frá því að vera áheyrnarsvæði í það að vera áheyrnarríki hjá Allsherjarþingi SÞ. Þessi beiðni var samþykkt haustið 2012 (sjá eigin staðreyndardálk). Ísrael og Bandaríkin hafa gagnrýnt Palestínumenn fyrir að hafa farið út af samningabrautinni en Palenstínumenn líta svo á að af sinnu hálfu geti þeir vel samið frið við Ísrael þrátt fyrir að vera viðurkennt sem ríki hjá SÞ.

Hlutverk SÞ í deilunni

Fyrsta friðargæslusveitin sem send var af SÞ eftir að stofnunin var stofnuð í 1945 fór til Palestínu. Verkefnið var að binda enda stríðið milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Enn er friðargæsla í Ísrael og Palestínu með sömu skyldu. Um er að ræða hvoru tveggja af menn við friðareftirlit og hermenn, sem leitast við að koma í veg fyrir árekstra milli Palestínumanna og Ísraelsmanna, sjá til þess að almennir borgarar verði ekki fyrir árásum og almennt séð sjá til þess að farið sé eftir friðarsamkomulögum. Samvinna er á milli sveita SÞ í Ísrael og Palestína og sveita SÞ í Líbanon og Sýrlandi.

SÞ hefur einnig sína eigin stofnun, UNRWA, sem starfar fyrir palestínska flóttamenn. Íbúar Gasa eru algjörlega háðir aðstoð UNRWA í heilbrigðis- og menntamálum.

Tony Blair leiddi á sínum tíma vinnu fyrir Bandaríkin, Rússland, ESB og SÞ til að finna lausn á deilunni án sérstaks árangurs.

Allsherjarþing SÞ og öryggisráðið hafa samþykkt fjölda ályktana frá því Ísrael var stofnað árið 1948. Flestar hafa gagnrýnt hernám Ísraelsmanna á palestínskum svæðum. Ísrael hefur valið að láta gagnrýnina sem vind um eyru þjóta og er í dag það land sem hefur hvað oftast hunsað ályktanir SÞ. Í öryggisráði SÞ eru þó flestar ályktanir gegn Ísrael stöðvaðar með neitunarvaldi Bandaríkjanna.

Stofnun SÞ fyrir menntun, vísindi, menningu og samskipti (UNESCO) samþykkti Palestínu sem meðlim í október 2011. Það hefur styrkt ósk Palestínumanna um að verða sjálfstætt ríki í alþjóðasamfélaginu en Bandaríkin hafa lækkað framlag sitt til stofnunarinnar í mótmælaskyni.

Fyrstu friðargæslusveitirnar sem voru sendar af SÞ eftir að samtökin voru stofnuð árið 1945 voru sendar til Palestínu. Hlutverk þeirra var að binda enda á stríðið á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Sveitirnar eru enn þann dag í dag í Ísrael og Palestínu með sama hlutverk. Liðið samanstendur bæði af friðareftirlitsmönnum og hermönnum, sem reyna að hindra árekstra á milli Ísralelsmanna og Palestínumanna, sjá til þess að borgararnir verði ekki fyrir árásum og að fylgjast með því almennt hvort verið sé að fylgja friðarsamkomulaginu. SÞ sveitirnar í Ísrael og Palestínu vinna með friðargæslusveitunum í Líbanon og Sýrlandi.

SÞ eru einnig með sína eigin stofnun, UNRWA, sem vinnur með palestínskum flóttamönnum.

Heimildir: Uppsala Conflict database, Institutt for fredsforkning (PRIO), Aschehoug og Gyldendals store norske leksikon, Friðargæslusveitir SÞ, Félag Sameinuðu þjóðanna, BBC