Hopp til innhold

Tsjetsjenía

Þegar Sovétríkin leystust upp árið 1991, lýsti Tsjetsjenía yfir sjálfstæði sínu. Eftir það hafa bardagar geisað á milli rússneska hersins og tsjetsjeneskra uppreisnarhópa.

Síðast uppfært 13.07.2008

Sovétríkin samanstóðu af mörgum lýðveldum, stærst þeirra var Rússneska lýðveldið. Tsjetsjenía var svokallað sjálfsstjórnarlýðveldi undir hinu rússneska. Þegar Sovétríkin leystust upp í desember árið 1991, fékk Rússland líkt og önnur lýðveldi stöðu sjálfstæðra ríkja. Það fékk hins vegar ekki Tsjetsjenía, sem með stöðu sinni sem sjálfsstjórnarlýðveldi varð hluti af Rússlandi.

 

Tsjetsjenía er á milli Evrópu og Asíu á mikilvægu svæði hernaðarpólitískt. Það er einnig efnahagslega mjög áhugavert svæði. Þar er að finna mikið af olíu og það liggur einnig nálægt olíusvæðum við Kaspíahaf. Það kemur þess vegna ekki á óvart að Rússland sé ekki spennt fyrir að gefa eftir og veita Tsjetsjeníu sjálfstæði í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna. Haustið 1991 lýsti Dzochar Dudayev yfir sjálfstæði Tsjetsjeníu og skipaði sjálfan sig forseta.

 

Fyrsta rússneska innrásin var gerð árið 1994, eftir nokkurra ára stuðning Rússa við hópa sem unnu að því að steypa Dudayev af stóli, en án árangurs. Átök stóðu yfir í tvö ár áður en Rússar töpuðu og árið 1996 undirrituðu deiluaðilar samkomulag sem gaf Tsjetsjeníu umtalsverða sjálfsstjórn. Árið 1997 var svo uppreisnarleiðtoginn Aslan Maskhadov kjörinn forseti. Rússar viðurkenndu ríkisstjórnina, en þó fannst ekki lausn á málinu um sjálfstæði Tsjetsjeníu. Maskhadov missti þó smám saman stjórnina til ýmissa uppreisnarhópa og árið 1998 lýsti hann yfir neyðarástandi í landinu. Þá höfðu uppreisnarmennirnir tekið yfir stóra hluta landsins og stóðu fyrir fjölda hryðjuverkaárása bæði í Rússlandi og nágrannaríkinu Dagestan.

 

Árið 1999 voru rússneskar hersveitir eina ferðina enn sendar inn í Tsjetsjeníu, eftir að tsjetsjenskir uppreisnarmenn höfðu farið inn í múslímska nágrannaríkið Dagestan og reynt að gera uppreisn þar án árangurs. Ferð rússneskra hermanna á tsjetsjeneskt yfirráðasvæði var álitin aðgerð gegn hryðjuverkum af rússneska hernum og ólíkt innrásinni árið 1994, naut innrásin árið 1999 mun meiri stuðnings almennings í Rússlandi. Þetta var einkum vegna þess að tsjetsjeneskir uppreisnarmenn höfðu staðið fyrir ýmsum hryðjuverkaárásum í Moskvu og öðrum stórum rússneskum borgum og Rússar vildu svara tilbaka.

 

Í október 1999 var hið svokallaða ríkisráð fyrir lýðveldið Tsjetsjeníu stofnað. Í ráðinu sat fólk sem áður hafði verið í tsjetsjeneskri stjórnsýslu þegar Tsjetsjenía var enn hluti af Sovétríkjunum. Gott samband var á milli ráðsins og rússneskra stjórnvalda, sem lýstu ráðið æðsta stjórnvald Tsjetsjeníu og neituðu að eiga frekara samstarf við Maskhadov. Ári seinna var Akmat Kadyrov skipaður næsti forseti landsins af Rússum og sat hann við völd þar til hann var drepinn af uppreisnarmönnum fjórum árum síðar.

 

Tíu prósent íbúa Tsjetsjeníu hafa látið lífið frá því að Rússar hófu árásir sínar árið 1999. 250 000 Tsjetsjenar eru á flótta. Rússneskir hermenn hafa beitt harðræði. Upp hefur komist um óhugnanlegar pyntingar og limlest lík í fjöldagröfum sanna að menn Pútíns hafa ekki farið silkihönskum um fórnarlömb sín. En uppreisnarmennirnir hafa einnig gert alvarlegar árásir. Þeir hafa staðið fyrir hryðuverkaárásum þar sem margir hafa látið lífið. Árið 2002 tóku tsjetsjenskir hryðjuverkamenn hundruð leikhúsgesta í gíslingu í leikhúsi í Moskvu og árið 2004 var barnaskóli með rússneskum nemendum í Beslan skotmark uppreisnarmannanna. Í fyrri árásinni létu 129 manns lífið en 340 í þeirri seinni.

 

Það eru margir ólíkir uppreisnarhópar starfandi í Tsjetsjeníu í dag og snýst málið ekki lengur einungis um sjálfstæði frá Rússlandi. Róttækir múslímar hafa haft sig í frammi í Tsjetsjeníu og nokkrir uppreisnarhópanna líta nú á baráttu sína sem heilagt stríð. Þeir berjast alveg eins fyrir sjálfstæðu íslömsku ríki í Norður-Kákasus eins og fyrir frelsi Tsjetsjeníu. Að hve miklu leyti þessi hópar vinna með öðrum íslömskum hópum, eins og til dæmis al-Qaida (sjá Afganistan, Írak, Kasmír), er óvíst. Það hefur þó lengi verið vitað að stríðsmenn sem áður börðust fyrir Mujahedin í Afganistan taka nú þátt í stríðsrekstri í Tsjetsjeníu. Hópurinn sem Maskhadov var leiðtogi fyrir, er einn af hófsamari hópunum. Það var þess vegna áfall fyrir marga Tsjetsjena sem óska eftir friðsamlegri lausn á átökunum þegar hann var drepinn af rússneskum sveitum í mars 2005.

 

Í dag ríkir ringulreið í Tsjetsjeníu og það lítur ekki út fyrir að friðsamleg lausn fáist fljótlega. Samningaviðræður á milli Rússa og tsjetsjeneskra uppreisnarmanna hafa ekki skilað árangri og pólitískt ofbeldi er umfangsmikið, svo fjórir síðustu forsetar landsins hafa goldið fyrir það með lífinu.

Hlutverk SÞ í átökunum

SÞ hafa ekki sent friðargæslulið til Tsjetsjeníu, einkum vegna áherslu samtakanna á að halda sig utan við átök innan ríkja. Því hefur þó oft verið haldið fram að ekki sé hægt að flokka átökin í Tsjetsjeníu sem innanríkisátök, en Rússar hafa stöðvað öryggisráð SÞ í að blanda sér í málið. UNHCR, sem vinnur að því að aðstoða hina fjölmörgu tsjetsjensku flóttamenn, hefur á tímabili neyðst til að draga sig út úr Tsjetsjeníu vegna óstöðugs öryggisástands. Oft hafa SÞ neyðst til að draga hjálparstarfsmenn burt vegna öryggisaðstæðna.

Heimildir: Uppsala conflict database, Institutt for fredsforkning (PRIO), Aschehoug og Gyldendals store norske leksikon, Involveyourself, BBC

Ríki sem eiga aðild

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi © 2017