Upptök átakanna: Valdarán og hernám

Afganistan á sér sögu sem sjálfstætt konungsríki allt aftur til átjándu aldar. Landið var lengi vel stórveldi í sínum heimshluta, en á nítjándu öld var það bitbein í valdabaráttu Breta og Sovétmanna. Núverandi átök eiga rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins þegar konungi var steypt af stóli.

Átökin í Afganistan á áttunda áratugnum voru svipaðs eðlis og þau sem eiga sér stað í dag. Stjórnmálaelítan í Kabúl vildi umbætur og nútímavæðingu landsins, en hinum íhaldssama meirihluta til sveita stóð á sama eða var efins um umbæturnar. Hin pólitíska spenna leiddi á sex árum til tveggja valdarána og einnar innrásar. Árið 1973 var konungi fyrst steypt af stóli og hinn tiltölulega frjálslyndi Mohamed Daoud Khan tók við völdum sem forseti. Opinber stefna hans var að hraða þeim umbótum sem kóngi hafði mistekist að koma í verk og að nútímavæða landið. Á valdatíma Daoud Khan jókst hins vegar spennan milli hinnar borgaralegu stjórnmálaelítu og afganska Kommúnistaflokksins (PDPA). Með því að steypa konunginum af stóli hafði Khan einnig fjarlægt síðasta lögmæta og virta valdið í Kabúl. Hins vegar hafði hann þá einnig rutt veginn fyrir annað valdarán á fimm árum, þegar kommúnistar drápu Daoud Khan árið 1978.

Kommúnistaflokkurinn hafði líkt og Daoud Khan lítinn stuðning almennings. Umbæturnar sem flokksmenn hrintu í framkvæmd voru af mörgum álitnar and-trúarlegar og lítt afganskar og kommúnistastjórnin var ekki talin lögmæt stjórn landsins. Kommúnistarnir brugðust við með því að handtaka og pynta þúsundir stjórnarandstæðinga. Óróinn leiddi til innri sundrungar innan PDPA. Fyrst var framkvæmdastjóri flokksins myrtur, að skipun forsætisráðherrans og samflokksmanns hans. Forsætisráðherrann var síðan sjálfur myrtur af Sovétmönnum, með stuðningi sumra samflokksmanna sinna. Lengi leit út fyrir að PDPA ríkisstjórnin félli, áður en Sovétmenn ákváðu að íhlutast í landinu. Árið 1979 réðust Sovétmenn inn í Afganistan með meira en 100 þúsund manna herlið. 

Ungir íbúar í Maslakh flóttamannabúðunum. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Uppgangur Islamista

Innrás Sovétmanna átti sinn þátt í að koma jafnvægi á kommúnistastjórnina, en naut lítils stuðnings meðal fjöldans. Ríkisstjórnin var ekki bara álitin ólýðræðisleg, heldur einnig ógn við menningarlega og trúarlega ímynd Afganistans. Nokkrir uppreisnarhópar hófu að skipuleggja sig til sveita og berjast gegn hersetu Sovétmanna. Margir uppreisnarmanna voru bókstafstrúarmenn, aðrir voru lýðræðislega þenkjandi. En í öðrum heimshlutum voru þessir hópar álitnir vera ein breiðfylking, þekkt undir nafninumujahideen.

Innrás Sovétmanna vakti ugg og reiði í heiminum. Sérstaklega fór hún fyrir brjóstið á Bandaríkjamönnum, sem vildu hindra framgang kommúnismans og studdu því uppreisnarmenn í landinu. Bandaríkjamenn og Sádi-Arabar lögðu til nærri 40 milljarða dollara í reiðufé og vopnakaup til handa uppreisnarmönnun landsins. Þar með var grunnurinn lagður að löngu stríði milli kommúnista og mujahideen uppreisnarmannanna.

Að baki mujahideen varð til breiðfylking íhaldssamra bókstafstrúarmanna, þekkt sem Hizb-e Islami, undir forystu Gulbuddin Hekmatyar. Fylkingin var vel vopnum búin að undirlagi Bandaríkjamanna og fylgjenda þeirra í þeirri viðleitni að hafa Sovétmenn undir. Úr urðu hatrömm átök gegn hersetuliðinu, en jafnframt gegn öðrum hópum innan mujahideen. Átökin urðu blóðugri með hverjum deginum. Á þeim tíu árum sem stríðið stóð yfir, voru yfir 600 þúsund Afganar drepnir og meira en sex milljónir Afgana flúðu til nágrannaríkjanna Írans og Pakistans.

Borgarastríð

Árið 1989 drógu Sovétríkin sig endanlega frá Afganistan. Eftir stóð land í algjörri upplausn. Hinum ólíku uppreisnarhópum tókst á endanum að hafa betur gegn kommúnistunum í Kabúl, en gátu hins vegar ekki komið sér saman um skiptingu valda að því loknu. Við svo búið hélt stríðið áfram.

Soviet soldiers in Afghanistan
Sovéskir hermenn héldu heim frá Afganistan í maí 1988. Mynd: V. Kiselev/Creative Commons

Gulbuddin Hekmatyar og hreyfing hans, Hizb-e Islami, voru sérstaklega óbilgjörn í þessum efnum og sóttu fast að taka einir við stjórnartaumum. Í slagtogi með öðrum hópum Islamista og stuðningi Sádi-Arabíu og Pakistans, hófu þeir stórskotahríð á höfuðborgina Kabúl, þar sem aðrir uppreisnarhópar freistuðu þess að koma á nýrri ríkisstjórn. Afleiðingin varð nýtt borgarastríð, sem varði allt þar til Talibanar náðu völdum í landinu árin 1996-1997. Stuðningur pakistönsku leyniþjónustunnar, ISI, skipti þar sköpum. Þeir vonuðust eftir stuðningi Afganistan í framtíðinni í deilum sínum við Indverja og óttuðust hugsanlegan stuðning Afgana við vestræn ríki og Indland. Þess vegna studdu þeir mismunandi hópa í stríðinu og þegar Talibanar höfðu náð yfirhöndinni í valdabaráttunni innanlands um miðjan 10.áratuginn, þá nutu þeir einnig stuðnings ISI.

Talibanar eiga rætur sínar að rekja til ungra mujahideen skæruliða frá Kandahar, sem leiddir voru af bóndasyninum og Pastúnanum Mullah Mohammed Omar. Með fulltingi pakistönsku leyniþjónustunnar náðu Talibanar smám saman völdum, Kabúl náðu þeir á sitt vald árið 1996. Þegar mest lét, stýrðu Talibanar upp undir 90% landsins. Aðeins smár hluti þess var undir yfirráðum Norðurbandalagsins, sem sameinaðist í andstöðu sinni við Talibana. Alls staðar annars staðar í landinu minntu stjórnhættir Talibana á miðaldir, konum var neitað um skólagöngu, fyrir þjófnaði gátu menn reiknað með aflimun, og stjórnaranstæðingar voru kerfisbundið hundeltir og drepnir. Talibanastjórnin var aldrei viðurkennd utanfrá, nema af Sádi-Arabíu, Pakistan og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en hélt þó völdum í landinu í hátt í fimm ár. Þrátt fyrir harða framgöngu þeirra, þótti mörgum Afgönum valdatími þeirra einkennast af kærkomnum friði og stöðugleika. Á valdatíma Talibananna hvarf spilling nánast, glæpatíðni og ópíumræktun drógust einnig verulega saman. En gjaldið fyrir þessa jákvæðu þætti var pólitískt og menningarlegt einræðisvald. Stjórnin hélt velli allt fram í október 2001, þegar Norðurbandalagið, með hjálp Bandaríkjamanna og NATO, endurheimti hervald yfir stærstum hluta landsins.

Fall Talibana

Á stjórnartíma Talibana höfðu hryðjuverkasamtök Al-Quaida bæði æfingabúðir og höfuðstöðvar í Afganistan. Frá höfuðstöðvunum stýrði leiðtogi samtakanna, Osama bin Laden, m.a. sprengjuárás á sendiráð Bandaríkjanna í Nairobi árið 1998. Al-Quaida reyndust Bandaríkjamönnum erfiðir viðureignar undir verndarvæng Talibana á stjórnartímanum. Leynilegar viðræður Talibana og Bandaríkjamanna um framsal bin Laden til þeirra síðarnefndu reyndust árangurslausar. Bandaríkjamenn kröfðust þess að fá bin Laden fyrir dóm í Bandaríkjunum, en Talibanar voru í mesta lagi tilbúnir að framselja hann til annars múslimaríkis.

Þegar Al-Quaida stóðu fyrir hryðjuverkaárásunum á New York og Washington 11.september 2001 var Bandaríkjamönnum nóg boðið. Þeir kröfðust tafarlauss framsals bin Laden, ellegar skyldur þeir ráðast inn í Afganistan. Talibanastjórnin varð ekki við kröfunni og 7. október hóf Bandaríkjaher innrás sína. Nokkrum vikum síðar létu Norðurbandalagið og bandarískar hersveitir til skarar skríða gegn stjórninni í Kabúl, sem markaði upphafið að falli hennar nokkrum mánuðum síðar.

Nýir valdhafar í Kabúl komu úr röðum fyrrum stríðsherra og Mujahideen skæruliða. Með fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi frá NATO, Bandaríkjunum og mörgum vestrænum ríkjum, komu þeir á fót tímabundinni stjórn undir forsæti Hamid Karzai, þekkts andkommúnista.

Árið 2004 voru í fyrsta sinn haldnar frjálsar kosningar í Afganistan, þar sem Karzai náði kjöri sem forseti með rúmum helmingi atkvæða. Meira en 2/3 atkvæðisbærra landsmanna kusu, en við sama tækifæri var einnig kjörið nýtt þing og samið um nýja stjórnarskrá.

Áframhaldandi átök við Talibana

Þrátt fyrir fall Talibanastjórnarinnar var stríðinu ekki lokið. Eftir að hafa komist hjá algjörum ósigri árið 2002, söfnuðu Talibanar liði á ný nærri landamærum Pakistans. Þaðan hófu þeir að nýju viðamiklar skæruliðaárásir gegn ríkisstjórninni og erlendum hersveitum árið 2005. Árásunum fjölgaði ár frá ári og á árunum 2007-2008 höfðu Talibanar náð völdum á ný í suður- og austurhluta Afganistans.

Nýfætt barn á leið heim af sjúkrahúsi. Átökin í Afganistan eru ein helsta orsök þess að læknisþjónusta við ófrískar konur er afar bágborin í Afganistan. Mynd: Salma Zulfiqar/IRIN

Í því skyni að ná hernaðarlegum ítökum á ný í landinu, ákvað Barack Obama Bandaríkjaforseti að fjölga mikið bandarískum hermönnum í Afganistan. 2009-2010 var fjöldi hermanna aukinn úr tæplega 50 þúsund í rúmlega 130 þúsund. Á sama tíma studdu Bandaríkjamenn uppbyggingu afganska ríkishersins, með opinbert markmið um að draga eigin herlið út úr landinu árið 2014.

Hersveitir Bandaríkjamanna héldu Talibönum í skefjum á ýmsum svæðum, en tókst þó engan veginn að endurheimta stjórnina á landsbyggðinni. Um leið og hersveitir Bandaríkjamanna voru kallaðar heim frá tilteknum svæðum, tóku Talibanar þar völdin á ný. Forsetakosningar voru haldnar 2009, þar sem Hamid Karzai var endurkjörinn forseti. Kosningarnar voru þó ekki eins frjálsar og óháðar eins og best verður á kosið. Kosningaþátttaka var dræm vegna óstöðugleika og ótta meðal þjóðarinnar og margt benti til svika og spillingar við framkvæmd þeirra. Helsti mótframbjóðandi Karzais, Abdullah Abdullah, dró framboð sitt til baka í mótmælaskyni, sem tryggði sigur Karzai.

Talibanar hófu árásir í suðri á ný árið 2010, m.a. á Kandahar. Stjórn Karzais gerði margar tilraunir til friðarumleitana við Talibana, en Talibanar voru ekki til viðræðu um friðarsamninga á meðan erlendar hersveitir væru í landinu.

Í september 2011 var aðalsamningamaður Karzais, Burhanuddin Rabbani, drepinn í sjálfsmorðsárás, þegar til stóð að hann hitti talsmenn Talibana vegna viðræðna. Abdullah Abdullah taldi árásina sýna að Talibanar vildu ekki semja um frið.

Samskipti við grannríkið Pakistan versnuðu eftir að NATO stýrði árás á landamærasvæðið í október 2011, þar sem pakistanskir hermenn féllu. Í nóvember 2011 var haldin alþjóðleg ráðstefna um málefni Afganistans í Bonn. Þar voru saman komnir þátttakendur frá 85 löndum, Sameinuðu þjóðunum og 15 alþjóðastofnunum. Þema ráðstefnunnar var yfirfærsla valds frá hersveitum NATO til afganska hersins, hlutverk alþjóðasamfélagsins í Afganistan eftir valdaskiptin og hvernig pólitískum afskiptum skyldi háttað til þess að koma á stöðugleika í landinu. Talibanar og Pakistanar hundsuðu ráðstefnuna, þeir síðarnefndu vegna árása NATO í október sama ár.

Yfirfærsla valds og erlendir hermenn kallaðir heim

Afturköllun bandarískra hermanna hófst 2011. Í maí 2012 undirrituðu Karzai forseti og Obama Bandaríkjaforseti samkomulag um hvernig samstarfi ríkjanna skyldi háttað eftir að bandarískar hersveitir væru með öllu farnar úr landi. Eftir undirritunina kynnti Obama áætlun um stríðslok og yfirfærslu valds til Afganistan. Fyrir lok árs 2014 stendur til að þorri bandaríksra hermanna yfirgefi landið. Þeir fáu sem eftir verða eiga að þjálfa og styðja afganska herinn. Að auki verður fámenn sveit bandarískra hermanna sem taka skal þátt í sértækum aðgerðum gegn Al-Qaida. Ekki er ljóst þegar þetta er skrifað hve stórt herlið Bandaríkjanna verður eftir 2014.

Í maí 2012 funduðu leiðtogar NATO ríkja um áform um að kalla hersveitir bandalagsins heim. Eftir að hafa smátt og smátt yfirfært ábyrgð á örryggisgæslu og átökum til afganska hersins, voru síðustu svæðin látin í hendur honum 18.júní 2013. Frá þeim degi tekur afganski herinn ábyrgð á öryggi alls landsins. Hlutverk alþjóðlegra hersveita á að vera stuðningur við afganska herinn í aðgerðum hans, að stýra þjálfun hermanna og lögreglumanna og að veita ráðgjöf. Aðildarríki NATO sem átt hafa hermenn í Afganistan stýra upp a vissu marki sjálf hvenær þau kalla menn sína heim. Frakkar og Kanadamenn hafa nú þegar kallað alla sína hermenn heim.

Staða öryggismála í Afganistan verður seint talin stöðug. Talibanar halda enn velli og ráða nýja skæruliða og gera árásir á svæði sem varin eru af NATO. Enn er óljóst hvort afganski herinn er í stakk búinn til þess að taka ábyrgð á öryggismálum landsins þegar erlendar hersveitir hafa yfirgefið landið.

Samskiptin við grannríkið Pakistan fara batnandi. Í febrúar 2013 sömdu Karzai og forseti Pakistans, Asif Ali Zardari, um samstarf í friðarumleitunum við Talibana, stuðning við afganska sendiskrifstofu í borginni Doha í Katar og hvöttu Talibana til slíks hins sama, svo koma mætti á formlegum friðarviðræðum. Karzai óskar sjálfur eftir að leiða slíkar viðræður og hefur hafnað tillögum um að Bandaríkjamenn leiði viðræðurnar við Talibana. Talibanar vilja á hinn bóginn ræða við Bandaríkjamenn, sem þeir segja í raun ráða ríkjum í Afganistan.

Átökin halda áfram

Afgönsku ríkisstjórninni og alþjóðlegum bandamönnum hennar hefur ekki tekist að koma á friði og jafnvægi í Afganistan. Skýrsla sendisveitar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan (UNAMA) sem kom út á þessu ári sýnir að heildarfjöldi látinna og særðra óbreyttra borgara hefur aukist á hverju ári frá árinu 2012. Í skýrslunni kemur fram að uppreisnarhópar, með Talíbana í broddi fylkingar, báru ábyrgð á yfir 60% látinna og særðra árið 2016. Í þokkabót hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) einnig dregist inn í átökin. Skýrsluhöfundar hafa áhyggjur af því að þetta geti leitt til meiri átaka milli Súnní- og Sjía-múslima í landinu, enda herjar Íslamska ríkið markvisst á Sjía-múslima.

2021 - Lok stríðsátakanna?

Haustið 2021 lýsti Joe Biden Bandaríkjaforseti yfir að hersetu Bandaríkjamanna væri lokið og að allur herstyrkur myndi vera farinn frá Afganistan 11. september sama ár. Dagsetning aðgerðanna var engin tilviljun, en þann 11. September 2021 voru 20 ár liðin frá hryðjuverkaárásunum í New York sem markaði upphaf stríðsins í Afganistan.

En að koma öryggismálum í hendur afganskra stjórnvalda gekk ekki sem skildi. Í byrjun ágúst 2021 voru Talibanar fljótir að ná yfirtökum á sífellt stærri landsvæðum og lauk því með flótta Ashraf Ghani forseta Afganistan og yfirtöku stjórnarráðsins í Kabúl. Snögg stjórnarskipti Talibana komu mikið á óvart en í kjölfarið fylgdi gríðarleg ringulreið þar sem óbreyttir borgarar og erlent starfsfólk börðust fyrir lífi sínu við að komast af landi brott. Margir óttast stöðu kvenna og stúlkna sem eiga í hættu á að tapa þeim réttindum sem náðst hafa síðustu 20 ár.

Staða mannúðarmála

  • Að sögn norska flóttamanna ráðsins eru um 2,8 milljónir afganskra borgara á flótta til viðbótar við þá 3,5 milljóna sem eru á vergangi í Afganistan.
  • Áriið 2012 lifði 34% Afgana undir fátækramörkum. Alþjóðabankinn áætlar að hlutfallið sé um 72%.
  • Óbreyttir borgarar eru í sífellt aukinni hættu í Afganistan. SÞ hafa greint frá því að á fyrri hluta ársins 2021 hafa aldrei fleiri konur og börn verið drepin allt frá árinu 2009.

SÞ áætlar að u.þ.b. helmingur Afgana muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda árið 2021. Það eru tvöfalt fleiri en árið 2020, og sexfalt fleiri en árið 2017, að sögn NRK, norska ríkisútvarpsins.

Bandaríkin höfðu ekki umboð frá SÞ þegar þau hófu hernaðaraðgerðir gegn Afganistan í október 2001, en skírskotuðu í 51. grein stofnsáttmála SÞ um réttinn til sjálfsvarnar.

Sumir sérfræðingar í alþjóðalögum túlka grein 51 á annan hátt. Ágreiningur er um hvort ætti að túlka beri ályktunina sem barst frá öryggisráði SÞ í kjölfar innrásar Bandaríkjanna (nr. 1368) sem staðfestingu á því að Bandaríkin hefðu haft rétt til að beita hervaldi gegn Afganistan í nafni sjálfsvarnar.

Ståle Eskeland sérfræðingur í alþjóðarétti er meðal þeirra sem héldu því fram um að sjálfsvarnar hugtakið hafi ekki átt við og ekki hafi legið fyrir umboð frá öryggisráðinu þannig að innrás Bandaríkjamanna hafi því í raun verið í trássi við alþjóðalög.

Þann 20. desember 2001 ákvað Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að heimila alþjóðlegu herliði í Afganistan til að tryggja öryggi í Kabúl og nærliggjandi svæðum.

Herstyrkurinn kallaðist International Security Assistance Force (ISAF). ISAF var fyrst stýrt af Bretum en síðar tók NATO við keflinu í ágúst 2003. Aðgerðum ISAF var hætt 2014.

NATO fylgdi eftir lokum aðgerða ISAF með nýrri aðgerð í Afganistan, svokallaðri “Resolute Support Mission”, frá 1. janúar 2015. Sú aðgerð var falið að veita afgönskum hersveitum þjálfun og stuðning. NATO lauk verkefninu árið 2021.

Tímalína

Svæði við þekkjum nú sem Tyrkland, Sýrland og Írak voru lengi hluti af miklu stærri pólitísku, félagslegu og trúarlegu veldi, sem hét Ottómanveldið eða Tyrkjaveldi. Ottómanveldinu var stjórnað af Súnni-múslima Tyrkjum sem réðu ríkjum yfir Aröbum, Kúrdum og öðrum frá árinu 1299 allt að lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Tyrkland var stofnað árið 1924, byggt á því sem eftir stóð af Ottómanveldinu. Svæði við þekkjum í dag sem Íran og Afganistan voru ekki hluti af Ottómanveldinu.

Fyrri heimstyrjöldin tók sinn toll á Ottómanveldinu sem þá þegar var orðið veikburða. Evrópuríki gripu tækifærið og tóku yfir stór landsvæði fyrrum Ottómanveldisins. Þegar Evrópuríkin samþykktu ný landamæri yfirráðasvæða sinna í Mið-Austurlöndum lentu Kúrdar í fjórum mismunandi löndum: Tyrklandi, Sýrlandi, Írak og Íran. Þetta varð upphafið á kúrdískri sjálfstæðisbaráttu. Kortið sýnir svæði þar sem fjölmennir hópar Kúrda búa. Það nær yfir nokkur landamæri og er oft kallað Kúrdistan.

Frakkland og Bretland stofnuðu nýlendur á mikilvægum svæðum í Mið-Austurlöndum. Ríkin teiknuðu upp ný landamæri og skiptu svæðinu sín á milli. Egyptaland hafði þá þegar verið fleiri áratugi undir breskri stjórn.

Seinni heimstyrjöldin varð til þess að Frakklandi og Bretlandi var ómögulegt að varðveita heimsveldi sín. Nokkur af núverandi ríkjum í Mið-Austurlöndum voru stofnuð eða hlutu sjálfstæði á þessu tímabili:

- Líbanon árið 1943

- Sýrland árið 1944

- Jórdanía árið 1946

- Ísrael árið 1948

- Egyptaland árið 1952

Árið 1951 varð Mohammad Mossadeq fyrsti lýðræðislega kjörni leiðtogi Írans. Lýðræðisþróun landsins ógnaði vestrænum olíuhagsmunum í Íran. Árið 1953 tóku Bretland og Bandaríkin því þátt í að koma Mossadeq af stóli og gáfu svo einræðisherranun Shah Palaví, sem var hliðhollur vesturríkjum, völdin. Valdaránið árið 1953 hafði slæm áhrif á viðhorf Írana til vesturvelda og stuðlaði óbeint að íslömsku byltingunni í Íran árið 1979. Myndin sýnir stuðningsmenn Mossadeq koma saman í Teheran árið 1952. Mynd: Wikimedia Commons.

Mótmæli sem eru hlynnt Mossadeq í Teheran, höfuðborg Íran, árið 1952, árið áður en Mossadeq var steypt af stóli í valdaráni sem studd var af Bandaríkjunum og Stóra-Bretlandi. Mynd: Wikimedia Commons.

Árið 1958 tókst Írökum það sem Írönum hafði mistekist fimm árum áður, þ.e. að losa sig við konungsveldið sem hafði verið stutt af Bretum og Bandaríkjamönnum. Írak varð nú sjálfstætt ríki. Írakar höfðu orðið fyrir miklum áhrifum af byltingu í Egyptalandi árið 1952, þar sem hugmyndafræðin var Arabísk þjóðernishyggja og and-heimsvaldastefna. Ein helsta ástæða byltingarinnar árið 1958 var að tveimur árum áður hafði Írak verið neytt til þess að styðja Bagdad-sáttmálann og breska innrás í Egyptalandi árið 1956.

Að undanskildu Tyrklandi reyndu Miðausturlönd að mestu að vera hlutlaus á tímum kalda stríðsins (1947-1991). Þrýstingur frá stórveldum reyndist svo mikill að í raun þurftu ríkin að velja sér hlið. Sambandið gat þó breyst með tímanum. Mörg landanna fóru frá því að styðja vesturveldi til Sovétríkjanna. Kortið sýnir hvaða hlið hin ýmsu ríki studdu árið 1970.

Sýrland fékk sjálfstæði frá Frakklandi árið 1944. Árið 1970 stóð Hafez al-Assad (hann situr á stól á myndinni) fyrir valdaráni í Sýrlandi með aðstoð hersins og sýrlenska Ba'ath stjórnmálaflokksins. Sonur hans, Bashar al-Assad (annar frá vinstri á myndinni), tók yfir árið 2000 og er enn forseti Sýrlands.

Photo: Wikimedia Commons

PKK eru pólitísk og hernaðarleg samtök Kúrda, aðgerðir samtakanna eru aðallega í Tyrklandi. PKK hafa verið helstu samtök Kúrda í baráttunni gegn Tyrklandi. Hægt er að lesa meira um baráttu Kúrda.

1) Íslömsk bylting í Íran.

2) Sovétríkin ráðast inn í og hertaka Afganistan.

3) Saddam Hussein verður forseti Írak, þetta leiðir til stríðs milli Íraks og Íran ári síðar.

Valdatíma Shah Pahlavi í Íran lauk við byltingu Íslamista árið 1979. Nýjir valdhafar, með trúarleiðtogann Ayatollah Khomeini í fararbroddi, lögðu áherslu á trúarbrögð í stjórnmálastefnu sinni. Nýtt einræðistímabil tók við, nú óháð vestrænum áhrifum. Hægt er að lesa meira um Íran.

Myndin sýnir málverk af Khomeini á vegg í Teheran. Mynd: Kamyar Adl / Flickr.

Sovétríkin réðust inn í Afganistan til að reyna að bjarga einræði kommúnista í landinu. Andstaða við innrás Sovétríkjanna, þekkt sem Mujahedin, fékk mikinn alþjóðlegan stuðning, þ.m.t. frá Bandaríkjunum, Pakistan og Kína. Osama bin Laden (sjá mynd) var meðal erlendra bardagamanna sem ferðuðust til Afganistan til að leiða hið svokallaða heilaga stríð gegn kommúnisma. Þetta var upphafið á stofnun al-Qaida. 

Mynd: Hamid Mir/Canada Free Press

Ári eftir að Saddam Hussein varð forseti Íraks réðist ríkið á Íran. Um 30 lönd studdu hernaðinn, oft í formi aðstoðar við bæði ríkin samtímis. Helstu áhrifavaldar voru Sovétríkin, Bandaríkin, Frakkland og Kína. Írakar fengu meirihluta aðstoðarinnar en hluti hennar var fyrir þróun gereyðingarvopna. Stuðningur Bandaríkjanna við Írak í stríðinu hafði neikvæð áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Íran.

Írak-Íran stríðinu gerðu Írakar einnig árásir á Kúrda í Norður-Írak. Ofbeldið gegn Kúrdum (og öðrum minnihlutahópum í Írak), sem hefur kallast Anfal-herferðin, stóð í nokkur ár og náði hámarki árið 1988. Noregur, ásamt fleiri ríkjum og alþjóðasamtökum, hafa viðurkennt grimmdarverkin gegn Kúrdum sem þjóðarmorð. Milli 50.000 og 100.000 manns voru drepnir, meðal annars með notkun efnavopna.

Við innrás Íraks inn í Kúveit í ágústmánuði árið 1990 þótti Sádi-Aröbum sér ógnað. Osama bin Laden bauðst til þess að verja Sádi-Arabíu og heilögu borgirnar Mekka og Medínu með "heilögum hermönnum" sínum. En Sádi-Arabía hafnaði tilboði bin Laden og bauð í staðinn herafla Bandaríkjanna inn í landið. Þetta hafði áhrif á pólitískar skoðanir bin Laden og varð síðar til þess að al-Qaida beindi sóknarleik sínum að Bandaríkjunum. Persaflóastríðið endaði með því að alþjóðaher undir forystu Bandaríkjanna, með umboði Sameinuðu þjóðanna, hrakti Íraka aftur til Bagdad í byrjun árs 1991.

Eftir Persaflóastríðið samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna viðskiptabann gegn Írak. Bandaríkin og Bretland tryggðu að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna var í gildi fram til ársins 2003. Á þessu tímabili voru einnig gerðar loftárásir á Írak. Viðurlög Sameinuðu þjóðanna höfðu alvarleg áhrif á líf óbreyttra borgara og voru harðlega gagnrýnd af fjölda landa. UNICEF áætlar að nokkur hundruð þúsund börn hafi látist vegna þessara viðurlaga.

Myndin sýnir fastafulltrúa Íraks hjá Sameinuðu þjóðunum gagnrýna Bandaríkin og Bretland í öryggisráðinu. Mynd: UN Photo / Evan Schneider.

Við fall Sovétríkjanna misstu sovésk stjórnvöld í Afganistan völdin árið 1992. Við tók borgarastyrjöld þar sem ólíkir stríðsherrar kepptu sín á milli um völdin. Íslamistahópurinn Talíbanar sigruðu og réðu Afganistan frá 1996 til 2001. Afganistan var á þessu tímabili starfsstöð Osama bin Laden og al-Qaida. Í herbúðum al-Qaida voru hermenn þjálfaðir til þess að vera framlína Talibana (hægt er að lesa meira um al-Qaeda).

Myndin sýnir bók eftir Malala Yousafzais, stúlku sem var skotinn af talíbönum fyrir að hafa krafist skólagöngu fyrir stelpur. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2014. Mynd: Flickr / Jabiz Rais Dana.

Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 urðu upphafið á utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem hefur verið nefnd stríð gegn hryðjuverkum (e. war on terror). Markmiðið var að uppræta hryðjuverkanet al-Qaeda, ásamt öllum þeim sem studdu samtökin. Stjórn talibana í Afganistan var fyrst á lista Bandaríkjanna yfir al-Qaeda stuðningsmenn og gerðu því Bandaríkin og Bretar innrás í landið í októbermánuði árið 2001 (hægt er að lesa meira um stríðið í Afganistan).

Írak var næsta skotmarkið í stríðinu gegn hryðjuverkum. Bandaríkin, ásamt bandamönnum þeirra, réðust inn landið, sem er ríkt af olíulindum, án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin héldu því fram að í Írak væri að finna gereyðingarvopn og að ríkisstjórnin styddi al-Qaeda, en náðu ekki að sannreyna ásakanirnar. Stjórn Saddams Husseins í Írak féll í kjölfar ólöglegrar innrásarinnar. Eftir innrásina hefur ekki tekist að koma á langvarandi friði í landinu (hægt er að lesa meira um stríðið í Írak).

Myndin sýnir bandarískan hermann við yfirtöku Bagdad árið 2003 að hylja höfuð styttu af Saddam Hussein með bandarískum fána. Mynd: Laurent Rebours / Flickr.

Vorið 2011 brutust út miklar uppreisnir í nokkrum löndum arabaheimsins. Mótmælahreyfingar sem miðuðu að því að breyta stjórnkerfinu í hverju landi, oft með áherslu á mannréttindi, stóðu fyrir þeim. Fyrstu mótmælin gegn einræðisvöldum veittu almenningi í nágrannalöndum innblástur, en niðurstöður hreyfinganna urðu ólíkar. Í Sýrlandi urðu friðsöm mótmæli að lokum að upphafi ofbeldisfullrar borgarastyrjaldar (hægt er að lesa meira um arabíska vorið).

Myndin sýnir mótmæli á Tahrir-torginu í Egyptalandi árið 2011. Mynd: Lilian Wagdy / Wikimedia Commons.

Sýrland á í mikilvægum samskiptum á ólíkum sviðum við fjöldamörg lönd. Því hafa bæði ríkisstjórn Assad og uppreisnarmenn hlotið virkan stuðning annarra ríkja. Assad stjórn hefur til að mynda fengið stuðning frá Rússlandi, Íran og Hezbollah samtökunum í Líbanon. Uppreisnarmenn hafa fengið stuðning frá Bandaríkjunum, Tyrklandi, Katar og Sádi Arabíu (hægt er að lesa meira um borgarastyrjöldina í Sýrlandi). Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur styrkt samtökin IS.

IS, sem stendur fyrir Íslamska ríkið, er hryðjuverkahópur íslamista sem ræður stórum svæðum í Írak og Sýrlandi. Í júní árið 2014 lýstu samtökin yfir stofnun ríkis á þessu landsvæði. Ríkið er ekki viðurkennd á alþjóðavettvangi, en heldur völdum með hervaldi. Tilkomu IS, sem eru sunni múslimar, má að hluta til útskýra með mismunun sem sunni múslimar í Írak hafa orðið fyrir eftir að ríkisstjórn Saddam Hussein féll árið 2003 (hægt er að lesa meira um IS).