Upphaf deilunnar

Ísraelsríki var stofnað árið 1948 með stuðningi frá meðal annars SÞ og Bandaríkjunum, þrátt fyrir mikil mótmæli nágrannaríkjanna. Þetta leiddi til þess að Ísrael lenti í tveggja ára stríði gegn arabískum grannríkjum sínum, sem þeir höfðu betur í. Áratugirnir á eftir voru þrungnir spennu, sem náði hámarki í sex daga stríðinu 1967. Það var einnig háð milli Ísraels og grannríkja í Miðausturlöndum og enn og aftur höfðu Ísraelar betur. Að sex dögum liðnum höfðu Ísraelar hernumið Gasaströndina frá Egyptalandi, Vesturbakkann með Austur-Jerúsalem frá Jórdaníu og Gólanhæðir frá Sýrlandi.

Línur skýrast

Margir sýrlendingar sem búið höfðu á Gólanhæðum flúðu heimili sín, en ísraelskir landnemar fluttu á sama tíma inn á svæðið. Egyptar og Sýrlendingar gerðu árangurslausa tilraun til þess að ná landi sínu til baka árið 1973. Gólanhæðir, sem eru eina undantekningin frá annars flötu landslagi svæðisins, reyndust henta ágætlega sem múr gegn árásum og eftir að harðvítug átök höfðu blossað upp nokkrum sinnum gáfust Egyptar og Sýrlendingar upp. Árið eftir sendu Sameinuðu þjóðirnar eftirlitssveit og friðargæslusveit á landamærasvæði Sýrlands og Ísraels. Komið var upp herlausu landamærasvæði sem síðan hefur lotið stjórn sveita Sameinuðu þjóðanna. Þessar sveitir sinna eftirliti með hernaði beggja vegna landamæranna og hafa frá upphafi átt gott samstarf við stjórnvöld beggja ríkja.

Ísraelar hertaka Gólanhæðir

Ísraelar hertóku Gólanhæðir árið 1981 og innlimuðu í ríki sitt. Gólanhæðir eru Ísraelum mikilvægar af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi er lega þeirra hernaðarfræðilega mikilvæg á landamærum Sýrlands og Ísraels og gerir Ísraelum kleift að fylgjast með því sem fram fer í grannríkinu. Með vald yfir Gólanhæðum fengu Ísraelsmenn einnig betri yfirsýn yfir palestínska uppreisnarhópa sem héldu til á landamærasvæðunum. Með öðrum orðum voru þjóðaröryggismál Ísraelum ofarlega í huga þegar þeir ákváðu að hertaka hæðirnar. Að auki býður svæðið upp á góð vatnsból, þriðjungur vatnsnotkunar Ísraela kemur frá Gólanhæðum. Vatnsbólin eru einnig mikilvæg Sýrlendingum og fyrir þá snýst deilan einnig að miklu leyti um pólitískan orðstír.

Friðarumleitanir

Ekki hafa verið stríðsátök við landamæri Sýrlands og Ísraels síðan 1973. Ríkin tvö hafa þó barist í gegnum Líbanon. Gólanhæðir eru megingrundvöllur átaka ríkjanna og deilna sem ekki sér fyrir endann á, þrátt fyrir friðarumleitanir. Fyrir Sýrlendinga er endurheimt Gólanhæða forsenda friðarsamninga við Ísraela. Sýrlendingar hafa ítrekað minnt á yfirlýsingar fyrrum forsætisráðherra Ísraela, Yitzhak Rabin, frá því snemma á tíunda áratugnum, sem á að hafa sagst vera viljugur að láta þá fá land sitt til baka, þ.e. að landamæri færðust á sama stað og fyrir sex daga stríðið 1967. Ísraelar þyrftu þar með að láta af hendi allt fjalllendið. Ísraelar neita því á hinn bóginn að Rabin hafi nokkru sinni sagt þetta. Ísraelar hafa þó ákveðið að gefa eftir hluta hæðanna, m.a. svæði þar sem 12000 gyðingar hafa sest að. Krafa Ísraela er að Sýrlendingar dragi alla sína hermenn frá hæðunum og frá svæðinu suður af Damaskus. Einnig hafa Ísraelar sett lög sem gera kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu ef Ísraelar eigi hugsanlega að gefa Gólanhæðir eftir.

Deilan af dagskrá

Síðastliðin ár hefur ástandið á svæðinu leitt til stöðnunar í friðarviðræðum um Gólanhæðir. Samskipti Ísraels og Sýrlands við Tyrkland hafa – ýmissa hluta vegna – versnað verulega, en Tyrkir hafa reynt að miðla málum í deilunni. Sýrlensk stjórnvöld hafa hugann alfarið við borgarastyrjöldina í landinu, en Ísraelsmenn hafa mun meiri áhyggjur af ógninni frá Íran og deilu sinni við Palestínumenn.

Ísrael hefur lengi verið upptekið af Íran og möguleika þeirra til að þróa kjarnorkuvopn. Að auki, hefur bæði Sýrland og Ísrael mátt bregðast við breytingum í Írak sem hefur áhrif á valdajafnvægi á svæðinu. Þrátt fyrir að Golónhæðir hafa fengið litla athygli á undanförnum árum, eru þar enn átök. Þetta var gert ljóst þegar sýrlensk herflugvél var skotin niður yfir Gólanhæðir af ísrelska hernum þann 23. september 2014.