Írak varð til sem land í uppgjörinu eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar sigurvegararnir skiptu Mið-Austurlöndum á milli sín á ráðstefnu í San Remo. Landsvæðið var áður hluti af osmanska ríkinu, en varð breskt yfirráðasvæði. Íbúar þessa nýja lands voru af ólíkum uppruna: Kúrdar voru flestir í norðri, súnnímúslimar voru ráðandi í miðhluta Íraks og síjamúslimar héldu til í suðurhluta landsins. Bæði kúrdar (Sjá Kúrdistan) og síjar höfðu fengið ákveðin merki um það að þeir fengju sjálfstæði eftir San Remo viðræðurnar og voru þess vegna ekki sáttir við uppgjör stríðsins. Enn í dag eru sterkar raddir í þeim hópum sem vilja berjast fyrir sjálfstæði frá Írak.
Saddam Hussein tekur völdin í Írak
Árið 1932 lauk yfirráðum Breta og þeir drógu sig formlega út úr Írak, þrátt fyrir að hafa tryggt sér mikilvæga stöðu innan olíuiðnaðarins þar. Eftir það tók við tímabil pólitísks óstöðugleika: á árunum frá 1945 til 1958 voru 24 ólíkar stjórnir í landinu. Íraska konungdæminu sem stutt var af Bretum, var kollvarpað í byltingunni árið 1958 og komið á fót lýðveldi í Írak. Einn af þeim hópum sem tók þátt í byltingunni var sósíalíski flokkurinn Baath sem tíu árum seinna tók við völdum í valdaráni. Eftir kerfisbundið framapot og nær algjöra útrýmingu á pólitískum andstæðingum varð Saddam Hussein leiðtogi flokksins árið 1979 og þar með einnig leiðtogi Íraks. Hann skipaði vini og fjölskyldu í mikilvægar stjórnunarstöður innan ríkisins og hersins. Á stuttum tíma byggði hann upp mikla persónudýrkun á sjálfum sér: styttur og málverk af Saddam Hussein voru mjög sýnileg í írösku þjóðfélagi.
Baath flokkurinn
Baath-flokkurinn er ekki trúarhreyfing, heldur skilur mjög greinilega á milli ríkis og trúar. Þrátt fyrir þetta voru súnnímúslimum veittar ýmsar forgangsstöður í íröskum stjórnmálum vegna þess að Saddam Hussein og fylgismenn hans voru allir súnnímúslimar. Síjamúslimar, sem eru stærstur hluti íbúa landsins, fengu ekki ábyrgðarstöður í stjórn landsins og fjölda Kúrda í Norður-Írak var einnig haldið utan við stjórn andsins. Kúrdar og síjamúslimar stóðu því oft fyrir vopnuðum uppreisnum gegn stjórn Saddams.
Írak fer í stríð við nágrannalönd - Írak og Kuwait
Íran og Írak áttu í stríði á árunum frá 1980 til 1988. Landamærin héldust óbreytt, en samkvæmt vestrænum heimildum létu 400.000 manns lífið og kostnaðurinn varð gífurlegur. Í kjölfar stríðsins gerði Írak innrás í Kuwaít árið 1991. Löndin tvö höfðu lengi deilt um hvar landamærin ættu að liggja en Írak hélt því fram að það ætti kröfu í hluta af landsvæði Kúwaít. Að auki hafði Írak lánað Kuwaít peninga á meðan á stríðinu stóð og vildi fá lánið endurgreitt. Írösk stjórnvöld kröfðust þess einnig að fá skaðabætur vegna þess að Kúwaít hafði farið yfir OPEC-olíukvótana á stríðsárunum sem hafði skaðað Írak fjárhagslega. Þegar Kúwaít gekkst ekki við kröfunum gerðu Írakar árás.
Viðskiptaþvinganir og innrás í Írak
Innrásin var fordæmd af alþjóðasamfélaginu. SÞ báðu Íraka að draga sig út úr Kúwaít og þeir voru beittir viðskiptaþvingunum. Þegar Írak varð ekki við kröfunum innan þeirra tímamarka sem þeim voru gefnar var fjölþjóðaher undir stjórn Bandaríkjanna sendur á vettvang. Stríðinu lauk með tapi Íraka sem drógu sig út úr Kuwait. Írösk stjórnvöld skrifuðu undir vopnahlésyfirlýsingu sem gekk út á það að eyðileggja öll efnavopn undir eftirliti vopnaeftirlitsmanna frá SÞ. Ef eyðingin myndi ganga eins og samið hafði verið um átti að fella viðskiptabannið úr gildi.
Bandaríkin gera innrás í Írak árið 2003
Eyðing vopnanna gekk þó ekki eins og samið hafði verið um og samkomulagið á milli vopnaeftirlitsmanna SÞ og Saddams Husseins varð sífellt stirðara eftir því sem árin liðu. Unnið var gegn vopnaeftirlitsmönnunum og vinnuaðstæður þeirra voru heldur bágbornar. Þeir fundu heldur ekki það sem þeir leituðu að. Þrýstingurinn á stjórn Saddams Husseins jókst verulega eftir að al-Qaida gerði hryðjuverkaárás á BNA þann 11. september 2001. Frá 2002 litu bandarísk stjórnvöld á Írak sem hluta af „Öxulveldum hins illa“ og Írak var sakað um að vera í samstarfi við Osama bin Laden og al-Qaida (sjá Afganistan og al-Qaida). Bandaríkin héldu því fram að mikilvægt væri að koma Saddam Hussein frá völdum ef takast ætti að koma á stöðugleika og lýðræði á svæðinu. Þegar vopnaeftirlitsmennirnir voru reknir úr landi árið 2003 töldu Bandaríkjamenn að innrás væri óumflýjanleg. Ósamstaða var um málið í öryggisráði SÞ og gáfu bæði Frakkar og Rússar í skyn að þeir væru á móti innrás í Írak. Bandaríkin réðust því inn í Írak án stuðnings SÞ þann 20. mars 2003. Innrásin braut í bága við alþjóðalög þar sem Írak hafði ekki verið fyrri til að ráðast á Bandaríkin.
Saddan Hussein tekinn til fanga
Her Saddams Husseins hafði lítið í innrásarherinn að gera og strax 1. maí lýsti forseti Bandaríkjanna George W. Bush því yfir að stríðið væri unnið og við tók tímabil þar sem reynt var að koma á stöðugleika í landinu. Saddam Hussein var tekinn fastur í desember 2003 og réttarhöld yfir honum hófust í október 2005. Hann var sakaður um stórfelld brot á mannréttindum og var tekinn af lífi 30. desember 2006. Írösk bráðabirgðaríkisstjórn var kosin í janúar 2005. Súnníar hunsuðu kosningarnar sem gerði það að verkum að bæði kúrdar og síjamúslimar fengu marga fulltrúa í nýrri ríkisstjórn.
Áhugi Bandaríkjanna á olíu í Írak
Gagnrýnendur halda fram að það sé hvorki vegna hræðslu við hryðjuverkaárásir, gjöreyðingarvopn eða óska um lýðræðislega stjórn í Írak sem Bandaríkin séu þar. Þeir halda því þvert á móti fram að innrásin sé aðallega vegna þess að Bandaríkin hafi áhuga á gríðarlegum olíuauðlindum Íraka: tveir þriðju hlutar af olíulindum heims eru í Persaflóa og eru Írak og Sádí-Arabía langstærstu framleiðendurnir. Ekki hefur tekist að sanna það að Saddam Hussein hafi haft yfir gjöreyðingarvopnum að ráða eða að tengsl hafi verið á milli stjórnar hans og al-Qaida.
Írak í upplausn
Þrátt fyrir að ný stjórn hafi tekið við völdum bar landið lengi einkenni glundroða og rambaði á barmi borgarastyrjaldar. Raunverulegur stöðugleiki lét bíða eftir sér og andstaðan við veru Bandaríkjamanna í landinu var mikil. Það er meðal annars vegna þess að bandarískum hersveitum tókst illa að skapa öryggi í landinu og íbúar landsins fengu ekki grundvallarþörfum sínum fullnægt. Aðgangur að vatni og rafmagni eins og var fyrir innrásina hefur ekki verið tryggður. Andstaðan jókst einnig árið 2004 eftir að upp komst um að bandarískir hermenn hafi misnotað íraska fanga í Abu Ghraib-fangelsinu fyrir utan Bagdad og að konur og börn hafi orðið fyrir árásum. Auk þess hafa gamlar deilur sem hafa legið í dvala í stjórnartíð Saddams Husseins blossa upp aftur.
Haustið 2008 gerði Íraksstjórn samning við Bandaríkin um afturköllun á bandarískum hermönnum frá Írak. Afturköllunin átti sér stað í áföngum og síðustu hermennirnir fóru frá landinu í lok árs 2011. Frá þessu tímabili hefur ofbeldi í landinu magnast upp, meðal annars vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.