Aðdragandi

Líbanon varð sjálfstætt ríki 1946. Fram að þeim tíma hafði landið verið frönsk nýlenda frá friðarsamningunum eftir fyrri heimsstyjöldina. Trúarleg afstaða er veigamikill þáttur í líbönskum stjórnmálum og samfélagi. Kristnir Líbanar hafa í gegnum tíðina haft mikil völd á kostnað súnní – og sjíamúslima, en í stjórnarskránni er kveðið á um að forsetinn skuli vera kristinn maroníti, forsætirsráðherrann súnníti og forseti þingsins sjíti. Þessi valddreifing byggir á mannfjölda ársins 1932, þegar kristnir voru í meirihluta í landinu. Samhliða fjölgun múslima, hefur óánægja með þessa valdaskiptingu farið vaxandi. Til átaka hefur því komið milli ólíkra trúarhópa.

Átökin í Líbanon tengjast einnig  átökum Ísraela og Palestínumanna. Eftir stríðið sem braust út við stofnun Ísraelsríkis árið 1948, flúði fjöldi Palestínumanna yfir landamærin til Líbanons og höfðust við í flóttamannabúðum þar. Frelsissamtök Palestínu (PLO) komu upp herstöðvum í suðurhluta Líbanons, sem nýttar voru við skæruliðaárásir gegn Ísrael. 1970 fluttu samtökin höfuðstöðvar sínar til höfuðborgarinnar Beirút. Með öðrum orðum var mikil viðvera Palestínumanna í Líbanon, sem leiddi frá lokum sjöunda áratugarins til vaxandi spennu milli Palestínumannanna og þjóðernissinna í Líbanon.

Aleye Al-Dor segir frá klasasprengjum sem sprungu tíu metrum frá húsi hennar. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Borgarastríðið 1975-1990

Borgarastríð braust út í Líbanon 1975. Hinir kristnu falangistar réðust á rútu með Palestínumönnum og þar á eftir á palestínskar flóttamannabúðir. PLO hefndi árásanna og átökin mögnuðust hratt. Á sama tíma börðust tugir líbanskra skæruliðahópa af ólíkum trúarbrögðum sín á milli. Ástandið var hreinasta ringulreið og glundroði.

Ísrael tók bæði beinan og óbeinan þátt í borgarastyrjöldinni í Líbanon. Í fyrsta lagi studdu þeir falangista bæði fjárhagslega og hernaðarlega. Tvenn þekktustu fjöldamorð í palestínskum flóttamannabúðum, í Sabra og Shattila, voru framin af falangistum á meðan Ísraelar vöktuðu útgönguleiðir búðanna. Ísraelar studdu einnig suður-líbanska herinn (SLA), sem barðist gegn PLO í Suður-Líbanon. Í öðru lagi sendu Ísraelar herlið til Líbanons, fyrst árið 1978. Aðgerðin var fordæmd af SÞ og Ísraelar drógu herlið sitt til baka. SÞ sendu eftirlitslið á landamærin. Ísraelar réðust aftur inn í Líbanon 1982 og hertóku landið. Hernámið olli mikilli vopnaðri mótspyrnu og í Suður-Líbanon voru sjíamúslimsku samtökin Hizbollah stofnuð til þess að berjast gegn Ísraelum. Hernámið leiddi einnig til þess að höfuðstöðvar PLO voru fluttar til Túnis. Ísraelar drógu herlið sitt til baka 1985 en höfðu þó áfram yfirráð í Suður-Líbanon.

Sýrland og Íran blönduðu sér einnig í líbönsku borgarastyrjöldina. Sýrland hafði hernaðarlegra hagsmuna að gæta í Líbanon vegna eigin deilna við Ísrael um Gólanhæðir. 1976 réðust sýrlenskar hersveitir inn í Líbanon og höfðust þar við allt til 2005. Íranar vildu styðja við bakið á sjíamúslimum í Líbanon og studdu m.a. stofnun Hizbollah samtakanna.

Borgarastríðinu lauk formlega með undirritun Taif-samkomulagsins 1990. Samkomulagið tryggði réttlátari valdaskiptingu auk þess að kveða á um afvopnun margra skæruliðahópa. Talið er að um 100 þúsund manns hafi týnt lífi í hinu 15 ára langa borgarastríði. Álíka margir hlutu varanlegan skaða af.

Hizbollah - Ísrael

Þrátt fyrir að vopnuðum átökum lyki eftir 1990 voru ýmis vandamál áfram óleyst. Þótt skæruliðahópar úr borgarastyrjöldinni hefðu lagt niður vopn voru Hizbollah menn áfram vopnum búnir. Á tíunda áratugnum kom ítrekað til átaka milli Hizbollah og Ísraelsmanna og héldu þau áfram eftir að Ísraelar kölluðu menn sína heim frá Suður-Líbanon árið 2000. Í júlí 2006 rændu Hizbollah tveimur ísraelskum hermönnum. Ísraelar hófu gagnsókn, sem sætti mikilli gagnrýni alþjóðasamfélagsins og SÞ, vegna þess að hún var talin mun umfangsmeiri en efni stóðu til. Um miðjan ágúst sendi öryggisráð SÞ frá sér ályktun 1701, sem framlengdi umboð Friðargæsluliðs SÞ í Líbanon (UNIFIL) og stríðandi fylkingar sömdu um vopnahlé.

Stríðið 2006 var ekki stríð milli Líbanons og Ísrael, heldur milli Hizbollah og Ísraels. Hins vegar var það almenningur í Líbanon sem mátti þola afleiðingar stríðsins á eigin skinni og þannig jókst óánægja margra Líbana með Hizbollah. Aftur hófst umræða um vopnahlé. Eftir 2006 hefur verið tiltölulega rólegt á landamærum Líbanons og Ísraels. En að sama skapi má lítið út af bera svo að upp úr sjóði á ný. Ísraelar eru ósáttir við náin tengsl Hizbollah, Írans og Sýrlands. Ef upp úr sýður milli Ísraels og annars þessarra ríkja er voðinn líka vís fyrir Líbanon.

Hizbollah hefur haft nokkur völd í Líbanon á síðustu árum. Eftir kosningar 2009 fengu Hizbollah tólf sæti á þingi og hernaðararmur flokksins telst í dag vera stærri en líbanski herinn. Hizbollah styðja stjórn Assads í Sýrlandi og hafa stutt Sýrlandsstjórn í átökum við stjórnarandstöðuna þar í landi.

Ungir mótmælendur í Suður-Beirút, í rústum eftir sprengjuárás haustið 2006. Mánaðarlöng átök Ísraela og Hizbollah gerðu borgir og bæi að vígvöllum. (Mynd: Manoocher Deghati/IRIN)

Á barmi borgarastyrjaldar á ný

2005 var Rafiq Hariri, forsætisráðherra Líbanons og súnnímúslimi, skotinn til bana í Beirút. Margir töldu Sýrlendinga ábyrga fyrir árásinni, vegna þess að Hariri hafði gagnrýnt aðgerðir þeirra í Líbanon. Skotárásin olli svo miklum mótmælum að Sýrlendingar ákváðu að kalla allt sitt herlið heim frá Líbanon.

Eftir morðið á Hariri skiptust stjórnmálin í Líbanon í tvær fylkingar, 14. mars fylkingin undir stjórn Saad (sonar Hariri) var hliðholl Vesturlöndum, en 8. mars fylkingin með Hizbollah í fararbroddi var hliðholl Sýrlendingum. Báðar fylkingar samanstóðu af flokkum úr ólíkum áttum trúarlega. Pólitískur órói í landinu jókst og 2008 sló í brýnu milli fólks úr ólíkum fylkingum.

Síðan þá hefur mikil spenna verið í líbönskum stjórnmálum. Sérstaklega var spenna í kringum Sérstakan dómstól fyrir Líbanon (e. Special Tribunal for Lebanon, STL), sem stofnaður var af SÞ eftir morðið á Hariri. Í upphafi töldu margir að Sýrlendingar yrðu gerðir ábyrgir fyrir árásinni, en í janúar 2011 kom fram að STL vildi lögsækja félaga úr Hizbollah. Hizbollah og 8. mars-fylkingin sökuðu dómstólinn um að vera lið í vestrænni aðför gegn sér.

Borgarastríðið í Sýrlandi hefur áhrif á Líbanon

Átökin í Sýrlandi, sem hófust 2011 og hafa þróast út í borgarastyrjöld, hafa einnig haft áhrif á gang mála í Líbanon. Líbanskir fylgjendur bæði stjórnarandstöðunnar og Assad-stjórnarinnar hafa farið til Sýrlands til þess að taka þátt í átökunum þar. Frá árinu 2012 hefur ítrekað komið til ofbeldisfullra átaka milli súnnímúslima og alavíta (grein sjíamúslimatrúar) í Líbanon, einkum í Tripoli og Beirút. Í ágúst 2013 voru gerðar sprengjuárásir á moskur í Tripoli. Árásirnar voru í raun framlenging af átökunum í Sýrlandi. 47 manns fórust og nokkur hundruð særðust. Árásirnar voru sagðar hinar banvænustu frá lokum borgarastríðsins árið 1990. Straumur flóttamanna hefur legið frá Sýrlandi til Líbanons. Í september 2013 var áætlað að 700 þúsund sýrlenskir flóttamenn væru í Líbanon, sem samsvaraði 1/7 af íbúafjölda Líbanons.

Átökin í Sýrlandi hafa einnig haft sitt að segja í harðnandi átökum líbanskra stjórnmála, þar sem flokkarnir styðja annað hvort Assad eða stjórnarandstöðuna í Sýrlandi. 14. mars fylkingin hefur að mestu leyti stutt stjórnarandstöðuna, en 8. mars fylkingin stutt stjórn Assads.

Sýrlensk kona í nýbyggðu húsi fyrir flóttamenn í grennd við borgina Aarsal í Líbanon árið 2012 (Mynd: Jodi Hilton/IRIN)