Á árunum 1964 til 1979 var stjórn landsins mjög hrottaleg. Landið var leitt af hinum sjálfskipaða keisara Jean Bedel Bokassa. Eftir að honum var steypt af stóli í valdaráni árið 1979 tók við 10 ára herstjórn. Undir herstjórninni kom fram sú ósk að í landinu yrði lýðræðisleg stjórn og stjórnvöld hófu að undirbúa lýðræðislega stjórnarhætti. Vegna sterks innanríkis þrýstings var fjölflokkakerfi komið á árið 1992. Árið eftir sigraði André-Félix Patassé kosningarnar og varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins. Allur tíundi áratugurinn einkenndist af pólitískum óstöðugleika.
Í lok tíunda áratugarins fór etnískur bakgrunnur og það að tilheyra einhverju að skipta mun meira máli en það hafði áður gert, jafnt í stjórnmálum sem og í samfélaginu sjálfu. Þetta hafði áhrif á herlið landsins sem var samansett af varðliði forsetans og hinu almenna herliði. Flestir í almenna herliðinu komu frá ættbálknum Yakoma. Hermennirnir í varðliði forsetans voru trúfastir aðdáendur forsetans og komu oft frá sama ættbálki og hann. Hermönnunum í almenna herliðinu fannst þeim vera mismunað og að varðliðinu væri hyglað á þeirra kostnað.
Í maí 2001 skildi hópur af Yakoma hermönnum sig frá hernum og gerði valdaránstilraun gegn Patassé forseta. Flestar árásirnar áttu sér stað í höfuðborginni Bangui. Stjórnarherinn svaraði með því að sprengja suðvesturhluta höfuðborgarinnar þar sem uppreisnarmennirnir héldu til. Eftir tveggja vikna átök hafði stjórnin aftur náð stjórn yfir allri borginni. Hafin var leit af öllum fjölskyldum í Yakoma ættbálknum sem varð til þess að meira en 80.000 óbreyttir borgarar flúðu frá höfuðborginni. Æðsti yfirmaður hersins, Francois Bozizé, var sakaður um að eiga aðild að valdaránstilrauninni. Hann var leystur frá störfum og gerð tilraun til að handtaka hann. Bozizé veitti mótspyrnu við handtökuna og um 300 hermenn yfirgáfu herinn til að styðja hann.
Þegar árið 2001 stofnaði Bozizé uppreisnarhreyfingu, með sömu hermönnum og tekið höfðu þátt í valdaránstilrauninni, sem stækkaði fljótt. Markmiðið var að koma forsetanum og ríkisstjórninni frá völdum. Þeir héldu því fram að forsetinn væri spilltur og rændi auðlindum landsins. Að auki héldu þeir því fram að of langan tíma tæki að fá valdaskipti í gegn eftir lýðræðislegum leiðum og sögðust þess vegna neyðast til að notast við aðrar aðferðir til að ná fram valdaskiptunum eins fljótt og auðið var. Nágrannaríkið Tsjad studdi uppreisnarhreyfingu Bozizés. Þeir leyfðu hreyfingunni að halda til og gera árásir frá Tsjad. Sambandið á milli Tsjad og Mið-Afríkulýðveldisins versnaði stöðugt. Önnur nágrannalönd tóku einnig þátt í átökunum. Líbía studdi ríkisstjórnina í Mið-Afríkulýðveldinu með því að láta til hermenn.
Gott samband var á milli Patassé forseta og forseta Líbíu, Muammar al-Gaddafih. Gaddafih vildi stærri her og aukin diplómatísk áhrif í álfunni, mikið til vegna lélegs sambands við nágrannaríkið Tsjad. Patassé forseti fékk einnig hernaðarlegan stuðning frá uppreisnarhreyfingunni í Austur-Kongó, vegna þess að uppreisnarmennirnir höfðu stjórn á landsvæði við landamæri Mið-Afríkylýðveldisins. Með því að styðja við Parassé gátu þeir óhindrað flutt búnað og birgðir í gegnum Mið-Afríkulýðveldið.
Í október 2002 réðust Bozizé og herlið hans á ný inn í höfuðborgina. Eftir nokkurra daga hörð átök náði stjórnarherinn yfirhöndinni, en höfuðborgin var algerlega eyðilögð. Herlið Bozizés réð enn yfir norðurhluta landsins. Bozizé gaf sig þó ekki og árið 2003 gerði hann aðra árás og tókst að ná höfuðborginni á sitt vald. Bozizé útnefndi sjálfan sig leiðtoga landsins. Hann leysti upp þingið og ógilti stjórnarskránna. Bozizé fullvissaði fólk um að þetta væri einungis tímabundin og nauðsynleg aðgerð á leið til lýðræðis og að markmiðið væri að innleiða lýðræði í landinu fyrir árið 2005.
Eftir þriggja ára tiltölulega rólegan tíma, blossuðu átök upp að nýju árið 2006. Nýr uppreisnarhópur sem kallar sig Union of Democratic Forces for Unity (UFDR) réðst gegn Bozizé. Leiðtogi UFDR hafði árið 2003 aðstoðar Bozizé í að komast til valda. Uppreisnarmennirnir vildu steypa honum af stóli og ákæra hann fyrir að nota tekjurnar frá náttúruauðlindum landsins einungis til handa sínum eigin ættbálki. Þeir héldu því einnig fram að lýðræðið væri ekki raunverulegt og að öðrum ættbálkum væri í raun alveg haldið utan við völdin, ættu ekki möguleika á að komast til valda.
Á árinu 2006 voru nokkrir bardagar á milli stjórnarhermanna og UFDR, þar sem fjöldi fólks var drepinn. Átökin áttu sér aðallega stað í norðurhluta landsins við landamæri Súdan. Ríkisstjórnin hefur sakað Súdan um að styðja við uppreisnarmennina, en því hafa súdönsk yfirvöld neitað. Óbreyttir borgarar landsins hafa orðið fyrir árásum frá stjórnarhermönnum og öðrum uppreisnarhópum. Bozizé forseti neitar því að hans herlið hafi staðið fyrir árásum. Stríð og óstöðugleiki í nágrannalöndunum; Tsjad, Súdan og Austur-Kongó hafa auðveldað uppreisnarmönnunum að komast yfir vopn. Á landamærunum sem liggja að Tsjad var greint frá því að stjórnarhermenn frá Tsjad hafi komið inn í Mið-Afríkulýðveldið og farið ránshendi um þorp þar. Um það bil hundrað þorp voru brennd til kaldra kola í átökum á milli uppreisnarmanna og stjórnarhermanna. Kynbundið ofbeldi hefur aukist og um það bil 30 prósent allra kvenna hafa orðið fyrir kynferðislegum árásum. Áætlað er að fjöldi flóttamanna í Mið-Afríkulýðveldinu sé vel yfir 150.000. Ástandið í norðurhluta landsins er mjög kaótískt, þar eru margir uppreisnarhópar, ræningjar og aðar vopnaðar klíkur.
Á árinu 2007 gerðu yfirvöld tilraun til að koma á friði á milli uppreisnarhópanna í von um að koma á stöðugu ástandi í landinu. Í apríl 2007 skrifaði forsetinn undir friðarsamkomulag við uppreisnarhópinn UFDR. Samningurinn tryggði uppreisnarhermönnunum sakaruppgjöf. Vonast er til að hann auki líkurnar á að friðsamlegt ástand náist í landinu og að flóttamennirnir geti snúið aftur til síns heima. SÞ og aðrar alþjóðastofnanir hafa miklar áhyggjur af ástandinu í landinu og leggja áherslu á þörfina fyrir að styrkja þar alþjóðlega þróunaraðstoð.
Forsetakosningar voru haldnar árið 2011 og var Bozizé kosinn með 66% atkvæða. Hluti stjórnarandstöðunnar hefur gagnrýnt kosningarnar sem telur að hafi hvorki verið frjálsar né lýðsræðislegar. Engir eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum voru í landinu á meðan á kosningunum stóð.
Valdarán Sélekas og nýjar óeirðir
Töluverð óánægja hefur verið í landinu eftir kosningarnar árið 2011. Bozizé var sakaður um að hygla eigin þjóðernishópi og að uppfylla ekki skyldur friðarsamkomulagsins frá 2008. Uppreisnarhópurinn Séleka framdi valdarán árið 2014. Forsetinn, Bozizé, flúði land og leiðtogi Séleka, Michel Djotodia, lýsti sig sem forseta. Sett var bráðabirgðaríkisstjórn sem stjórna ætti landinu þar til kosið verður næst árið 2016. Leiðtogar í Afríku lýstu því yfir í apríl að þeir viðurkenndu ekki Djotodia sem forseta landsins og lögðu til að mynduð yrði bráðabirgðaríkisstjórn sem myndi starfa þar til nýjar kosningar yrðu haldnar innan 18 mánaða. Djotodia, sem var eini frambjóðandinn, var kjörinn forseti þessarar bráðabirgðaríkisstjórnar 13. apríl 2013.
Ofbeldi jókst á haustmánuðum 2013 og það sem eftir lifði árs og urðu mikil átök á milli Séléka, sem samanstendur aðallega af múslímum, og kristna hópsins „Anti-balaka“. (Balaka er heiti á vopni sem hermenn Séleka nota.) Djotodia sagði af sér sem forseti í janúar 2014 vegna þrýstings frá Frökkum og leiðtogum nágrannaríkja og tók Catherine Samba Panza við sem forseti bráðabirgðaríkisstjórnarinnar.
Það hefur samt sem áður ekki tekist að skapa frið í landinu og hefur ofbeldi og átökum á milli ólíkra hópa fjölgað í vetur. Morð og ofsóknir á hendur múslímskum minnihluta í landinu hefur sérstaklega aukist. Sameinuðu þjóðirnar og aðrar stofnanir hafa lýst því yfir að lögleysi ríki í landinu sem sé á mörkum þess að vera stjórnlaust.
Óbreyttir borgarar
Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) er ástandið í norðurhluta landsins mjög alvarlegt. Skortur á miðlægri stjórn hefur leitt til þess að mikill fjöldi vopna er í umferð og má gera ráð fyrir fleiri óaldarflokkum og vopnuðum uppreisnarmönnum. Bág efnahagsleg kjör óbreytta borgara má tengja við aukinnar tíðni rána og morða.
Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í febrúar að um 900.000 manns væru á flótta í landinu og að um helmingur af íbúum landsins ættu í miklum erfiðleikum og þyrfti á mannúðaraðstoð að halda. Einungis á fyrstu tveimur vikunum í desember 2013 þurftu um 210.000 manns að flýja heimili sín vegna hins nýja bardaga á milli Séléka og Anti-balaka.
Tæplega fimm milljón manns búa í Mið-Afríkulýðveldinu. Þar eru einungis um 300 læknar skv. Læknum án landamæra og er litlum fjármunum varið til heilbrigðismála. HIV/AIDS, vænnæring, berklar og svefnsýki er ekki óalgeng í landinu. Íbúar hafa lítnn aðgang að heilbrigðisþjónustu og þar eru lífslíkur einna minnstar í heiminum. Barna- og mæðradauði er hár og HIV smitaðir margir. Meðallífslíkur eru aðeins 48 ár.