Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Sarajevó
Íbúafjöldi: 3 210 847 (2023)
Svæði: 51 129 Km2
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 20 377 PPP$
Þjóðhátíðardagur: 1. mars

Landafræði

Landsvæði Bosníu og Herzegóvínu má skipta í fjalllendi og skóglendi - og liggur 92% landsins 150 metra yfir sjávarmáli. Bosníu og Herzegóvínu er auk þess hægt að skipta í þrjú landfræðileg svæði. Við landamæri Króatíu, í norðri, er mikið um hásléttur, og viðheldur Sava áin landbúnaði á svæðinu. Í miðju landsins má finna lág fjöll rík af steinefnum ásamt miklu skóglendi. Frá norðvestri til suðausturs liggja Dínar alparnir en þar er Maglić, hæsta fjall landsins - 2386 metra hæð. Meginloftslag Bosníu og Hersegóvínu einkennist af hlýjum sumrum og köldum vetrum. Vestar í landinu rignir allt að 4000 mm á ári og er landið eitt af votustu landsvæðum Evrópu en úrkomumagn er til komið vegna lágþrýstings frá Miðjarðarhafinu sem blæs inn yfir landið.

Við strandlengjuna í suðri er aftur á móti miðjarðarhafsloftslag. Eitt af helstu umhverfisvandamálum Bosníu og Hersegóvínu er loftmengun frá málmiðnaði ásamt mengun úr stórborgum. Einnig er skógeyðing í auknum mæli að verða alvarlegt umhverfisvandamál í landinu.

Saga

Rómverjar tóku stjórn yfir Illýrum Bosina (Bosnía-Hersegóvína) um miðja tíundu öld. Bosnía og Hersegóvína voru lengi undir stjórn annara landa, nema í kringum tímabilið 1100 til 1400 þegar landið öðlaðist sjálfstæði, þar til Tyrkir hertóku landið. Árið 1878, í uppgjöri þýsk-rússneska stríðsins, var svo ákveðið að austur-ungverska heimsveldið tæki við stjórn landsins. Þrjátíu árum síðar innlimuðu austur-ungversk stjórnvöld landið inn í heimsveldið. Andstaða við austur-ungverska heimsveldið óx hratt hjá Serbum og Króötum á balkansskaganum, sem lagði grunn að suður-slavnesku samstarfi (Júgóslavía).

Eftir fyrri heimstyrjöld var ríkið Júgóslavía, eða Konungsdæmi Serba, Króata og Slóvena, stofnað. Ríkið innihélt landsvæðin Bosníu-Herzegóvínu, Serbíu, Króatíu, Slóveníu, Svartfjallaland og Makedóníu. Frá árinu 1945 var Júgóslavíu stýrt af  kommúnistanum Títo, sem kynnti til sögunnar einsflokks stjórn. Eftir dauða Títo árið 1980 varð mikil fylgisaukning við þjóðernishyggju meðal ólíkra hópa í Júgóslavíu og árið 1989 lauk suður slavneska samstarfinu. Hinir ólíku hlutar Júgóslavíu lýstu á næstu árum yfir sjálfstæði sínu og Bosnía og Hersegóvína varð að sjálfstæðu ríki árið 1992. Innan hins nýja ríkis bjuggu þá Serbar, Króatar og Bosníumenn (múslimar). Serbar í landinu voru ekki ánægðir með stöðu sína og vildu frekar sameinast Serbíu en tilheyra Bosníu og Hersegóvínu. Þegar landið lýsti yfir sjálfstæði braust því út borgarastyrjöld, þar sem Serbar höfðu stuðning Serbíu og Króatar stuðning frá Króatíu.  Þessir þrír hópar börðust allir sín á milli.  Þjóðarmorð voru framin í þeim tilgangi að búa til einsleit þjóðernissvæði og voru meira en 200.000 manns myrtir í stríðinu. Bosníumenn (múslimar) komu hvað verst úr stríðinu þar sem þeir höfðu ekki stuðning nágrannaríkja og lítil sem engin tök á að verja sig gegn árásum. Nær helmingur þjóðarinnar var á flótta undan þjóðernishreinsuninni.

Samfélag og stjórnmál

Í júlí árið 1995 voru, að minnsta kosti, 8.000 bosníumenn myrtir og meira en 25.000 reknir á flótta af serbneskum hersveitum frá bænum Srebrenica, sem liggur nálægt Serbnesku landamærunum. Srebrenica var í mjög viðkvæmri stöðu þar sem Serbar stjórnuðu nærliggjandi svæðum og höfðu sýnt tilburði til að taka yfir stjórn á svæðinu öllu. Því var svæðið verndað af Friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna sem og af bosnískum hermönnum, og átti að teljast til verndaðs svæðis sem fjölmargir almennir borgarar flúðu því til. Hins vegar var bæði hjálpargögnum og hermönnum neitað um inngöngu að svæðinu og því í raun ómögulegt að tryggja öryggi bosníumanna í Srebrenica. Árásirnar sem hófust 6. júlí, og þjóðarmorðið sem framið var, eru taldar meðal verstu stríðsglæpa sem framdir hafa verið í Evrópu síðan í seinni heimstyrjöld. NATO svöruðu árásunum með því að ráðast á Serbnesk hernaðarskotmörk, sem leiddi til uppgjafar Serba.

Í friðarsamningum var ákveðið að landinu skyldi deila í tvennt – Serbneska lýðveldið Srpska og Sambandsríki undir stjórn Bosníumanna og Króata undir nafninu Bosnía og Hersegóvína. Aðalfulltrúi átti að tryggja að friðarsamningnum yrði framfylgt, og gegnir ESB því hlutverki. Valdi til að stjórna landinu er skipt á milli forsetaráðsins og ríkistjórnarinnar. Forsetaráðið samanstendur af einum Bosníumanni, einum Króata og einum Serba, sem eru kosnir á fjögurra ára fresti. Bosnía-Hersegóvína hefur verið gagnrýnd fyrir mannréttindabrot þar sem allt stjórnkerfi landsins er byggt á þátttöku Serba, Króata og Bosníumanna eiga þeir litlu minnihlutahópar sem innan landsins búa erfitt með að fá fulltrúa sína í stöður. Stjórnmálaflokkar fylgja ekki hægri-vinstri skilgreiningum. Þjóðernissinnaðir flokkar berjast fyrir réttindum eigin þjóðernishópa, á móti öðrum þjóðernisflokkum. Árið 2003 var sett sameiginleg námsskrá fyrir alla skóla í landinu til að vinna gegn mismunun á grundvelli þjóðernis. Samt sem áður er landið enn mjög aðskilið. 30% fólks í landinu lifir undir fátækramörkum og eru 35% ekki sjúkdómstryggðir.

Hagkerfi og viðskipti

Bosnía og Hersegóvína var annað fátækasta landið í fyrrum Júgóslavíu og átti erfitt með að standa á eigin fótum þegar að landið varð sjálfstætt og eyðilagði borgarastyrjöldin nærri allt hagkerfið. Landsframleiðsla minnkaði um 90% og hagvöxtur um 80%. Iðnaðurinn hvarf nánast vegna lítillar framleiðslu og beinna stríðsaðgerða. Eftir stríðið sá erlend aðstoð fyrir miklum og örum hagvexti, en um leið og aðstoðin hvarf, hvarf vöxturinn.

Alþjóða fjármálakreppan árið 2008 hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir landið. Atvinnuleysi jókst um 43% og hagvöxtur minnkaði í 3% árið 2009. Útflutningur minnkaði um 24% og varð málmiðnaðurinn sérstaklega illa úti. Bosnía og Hersegóvína einkennist af mikilli skriffinnsku, veikum innviði ríkisins, spillingu og pólitískum óstöðugleika sem hræðir erlenda fjárfesta. Efnahagsástandið hefur þó batnað á síðustu árum, en frá árinu 1995 þrefaldaðist landsframleiðslan, ásamt að útflutningur tífaldaðist og jókst fjöldi starfa í þjónustugeiranum. Kolaframleiðsla er núna komin aftur á sama stig og fyrir stríð.

Helstu viðskiptalönd landsins eru Króatía, Slóvenía og Ítalía. Bosnía og Hersegóvína flytur inn matvæli, vélar og eldsneyti, en flytur út málma, tré og vefnaðarvörur.