Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Harare
Þjóðernishópar: Shona 82%, ndebele 14%, aðrir/óskilgreint 4%
Tungumál: Enska, shona, sindebele, önnur minni mál og mállýskur
Trúarnrögð: Synkretistar (kristin trú með áhrifum frá hefðbundnum trúarbrögðum) 50%, kristnir 25%, afríkönsk trúarbrögð 24%, aðrir/óskilgreint/ekkert 1%
Stjórnarform: Þingbundið lýðræði
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 2 531 PPP$

Landafræði

Í Simbabve er mjög fjölbreytt landslag. Í miðju landinu eru há fjöll og skógi klæddar hitabeltisgresjur. Í vesturhlutanum eru mýrar og votlendissvæði. Í austri vex þéttur frumskógur meðfram Inyanga-fjöllum, sem myndar náttúruleg landamæri við nágrannalandið Mósambík. Loftslagið er heittemprað og hitastigið breytist eftir hæð yfir sjávarmáli. Í Simbabve er lítil úrkoma og mörg svæði eru of þurr til landbúnaðar. Mestur hluti regnsins fellur frá nóvember til mars, en regntímabilið er breytilegt á milli ára. Mörg umhverfisvandamál eru í landinu, sérstaklega í landbúnaði. Notkun skordýraeiturs er meðal þess mesta sem gerist í heiminum. Skógareyðing og jarðvegseyðing ógna jarðveginum og í borgunum er loftmengun vegna þungaiðnaðar og umferðar. Margar dýrategundir eru í útrýmingarhættu vegna þess að veiðiþjófar fá að leika lausum hala í þjóðgörðunum.

Saga

Simbabve þýðir „stórt steinhús“, landið er nefnt eftir borginni sem var á svæðinu á 13. öld. Simbabve var rík viðskiptamiðstöð og þegar mest var bjuggu þar 20.000 manns. Á 15. öld var bærinn yfirgefinn eftir að loftslagið breyttist og jörðin varð ófrjósöm. Næstu árhundruð hófu Evrópubúar að koma til svæðisins og konungsdæmin á svæðinu misstu völd og stór landsvæði. Breska suður-afríska félagið fékk, í lok 19. aldar, völd yfir því svæði þar sem í dag er Simbabve, þar til landið varð bresk nýlenda undir nafninu Suður-Ródesía árið 1923. Árið 1962 komst fasistaflokkurinn Rhodesian front (RF) til valda eftir hreinan kosningasigur. Árið 1965 lýsti landið sig sjálfstætt frá breska samveldinu. Landið fékk nafnið Ródesía og því var stjórnað af hvítum minnihluta. Sþ samþykktu árið 1968 ályktun um viðskiptabann á landið. Andspyrnuhreyfing svartra varð til og skæruliðastríð gegn ríkisstjórninni varaði allan áttunda áratuginn. Árið 1980 fékk landið sjálfstæði undir nafninu Simbabve og hefur síðan verið stjórnað af frelsishreyfingarleiðtoganum Robert Mugabe.

Vistfræðileg fótspor

7

0,7

Jarðarkúlur Simbabve

Ef hver einasta manneskja á jörðinni ætti að hafa sömu neyslu og meðalmannfjöldi í Simbabve, þá þyrftum við 0,7 jarðar.

Vistfræðileg fótspor

Samfélag og stjórnmál

Frá sjálfstæði árið 1980 hefur stjórnarskránni verið breytt oft til að auka völd forsetans Roberts Mugabe. Landið hefur undanfarinn áratug verið hreint einsflokksríki þar sem flokkur Mugabes, ZANU-PF, stjórnar flestu. Stjórnarandstaðan er klofin og er lögð í einelti af öryggislögreglunni CIO. Tilraunir til að endurúthluta landsvæðum, frá hvítri yfirstétt til svartrar undirstéttar, hafa haft í för með sér hörmulegar afleiðingar fyrir landið. Stór landbúnaðarsvæði eru ónýt vegna þess að landeigendurnir hafa ekki þjálfun í notkun tæknivæddra landbúnaðarvéla. Árið 1990 skall á efnahagskreppa í landinu. Meira en þrjár milljónir manna hafa flúið og simbabvíski dollarinn er verðlaus. Skólar og háskólar, sem áður fyrr voru á meðal þeirra bestu í Afríku, standa nú tómir. Sjúkrahúsin eru lokuð, sem hefur gífurleg áhrif, sérstaklega á fjölmarga alnæmissjúklinga í landinu. Rafmagn er skammtað, ómögulegt er að nálgast bensín og hungursneyð er yfirvofandi í landinu. Sitjandi ríkisstjórn kennir Bretlandi og öðrum Vesturlöndum um öll vandamálin og segir þau vilja steypa forsetanum af stóli og ráðast inn í landið. Eftir kosningar árið 2008 var tekin ákvörðun um að setja á bráðabirgðaríkisstjórn, meðlimir stjórnarandstöðunnar fengu einnig sæti í henni. Bráðabirgðaríkisstjórnin átti að vera við völd þar til ný stjórnarskrá hefði verið samþykkt. Mugabe og leiðtogi stjórnarandstöðunnar komust loksins að samkomulagi um nýja stjórnarskrá landsins árið 2013. Samkvæmt henni verða haldnar kosningar í Simbabve til þess að ákveða hvort Mugabe eigi að halda áfram áratugalangri stjórnartíð sinni.

Lífskjör

11

144 / 188

HDI-lífskjör Simbabve

Simbabve er númer 144 af 188 löndum á lífskjaralista SÞ (HDI) yfir mannlega þróun.

HDI - Lífskjaralisti Sþ

Hagkerfi og viðskipti

Efnahagur Simbabves hefur verið í lægð frá því í byrjun tíunda áratugarins, þegar miklir þurrkar voru í landinu. Margir hámenntaðir íbúar fluttust burt og ríkisstjórnin neyddist til að taka stór lán til að geta flutt inn maís og aðrar matvörur. Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settu af stað áætlanir til að fá efnahagskerfið á rétt skrið, en drógu sig út þegar landið hætti að borga afborganir af hinum mörgu lánum. Stjórnmálaástand í landinu hefur leitt til þess að mörg vestræn lönd halda að sér höndum um að veita þróunaraðstoð og neita að eiga viðskipti við Simbabve. Landið er í mjög djúpri efnahagskreppu. Iðnaðurinn virkar ekki nema að hluta og skortur er á rafmagni og hæfu vinnuafli. Landbúnaðurinn er næstum eyðilagður eftir misheppnaðar jarðabætur á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar. Þar sem gjaldmiðillinn hefur misst allt virði eru sífellt fleiri íbúar háðir skiptum á vöru og þjónustu til að komast af. Efnahagur Simbabve hefur farið vaxandi frá árinu 2009 þegar samvinnustjórnin tók við völdum.

Kort af Simbabve