Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Buenos Aires
Þjódernishópar: Argentínubúar af spænskum og ítölskum uppruna 97%, mestizo, aðrir 3%
Tungumál: Spænska, enska, ítalska, þýska, franska
Trúarbrögð: Kaþólikkar 92%, mótmælendur 2%, gyðingar 2%, aðrir/óskilgreint 4%
Sjtórnarform: Lýðræði
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 26 505 PPP$

Landafræði

Argentína er stórt land og er töluverður munur á loftslagi eftir svæðum. Loftslagið er temprað, frá heittempruðu í norðri til nánast heimsskautaloftslags í suðri. Auk Andesfjalla í vestri er landslagið mikið til stórar flatar sléttur, oft kallaðar Pampas. Láglendið skiptist í þrjú höfuðsvæði: Norðursvæðið, Pampas og Patagóníu. Norðursvæðið er að mestu leyti víðáttumiklar grassléttur. Pampas nær yfir stórt svæði og er jarðvegurinn þar frjósamur og hentar til landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Patagónía er háslétta, með hæðum upp í 1500 metra yfir sjávarmáli. Hæsta fjall Argentínu, sem og Suður-Ameríku, er Aconcagúa sem nær 6962 metra yfir sjávarmál. Í norðri, á landamærum Brasilíu, liggja Igazúfossarnir. Fossarnir eru einn af mest sóttu ferðamannastöðum Suður-Ameríku og eru á minjalista UNESCO. Minnkun ræktarlands vegna mengunar frá iðnaði og notkun meindýraeiturs er stórt vandamál. Bæði skógareyðing og eyðimerkurmyndun hafa eyðilagt gæði jarðvegsins.

Saga

Evrópskir landnámsmenn komu til Argentínu árið 1516 og árið 1580 stofnaði Spánn sína fyrstu nýlendu sem í dag er Búenos Aíres. Þrælavinna og sjúkdómar sem komu með nýlenduherrunum frá Evrópu höfðu í för með sér mikla fækkun frumbyggja landsins. Árið 1816 fékk Argentína sjálfstæði frá Spáni en landið hélt áfram sterkum tengslum við Evrópu. Fram til ársins 1945 tókust á andstæð öfl í landinu, annars vegar íhaldssamir og frjálslyndir stjórnmálamenn, og hins vegar stjórnmálamenn og hermenn. Juan Perón komst til valda árið 1946, hann bætti aðstæður fátækra, veitti konum kosningarétt og þjóðnýtti iðnaðinn. Kona Peróns, Evíta, var tákn fyrir þessa stefnu. Á sama tíma stjórnaði Perón með einræði, þar sem andstæðingar voru kúgaðir og fjölmiðlunum stjórnað. Árið 1976 rændi herinn völdum. Á þeim níu árum sem einræðið varði hurfu um 30.000 manns sporlaust. Árið 1982 réðust argentískar sveitir á hinar bresku Falklandseyjar í suðurhluta Atlantshafsins, en urðu að gefast upp fyrir breskum hersveitum. Tapið leiddi til endaloka hernaðareinræðisins.

Samfélag og stjórnmál

Eftir margra ára óstöðuga herstjórn var lýðræði komið á árið 1983. Samkvæmt stjórnarskránni á forsetinn að bera aðgerðir sínar undir þingið en í reynd hefur forsetinn öll völd. Í Argentínu eru 23 héruð, auk Búenos Aíres, sem öll hafa sína eigin stjórn. Íbúar landsins hafa litla trú á stjórnmálakerfinu, sem stuðlar að aukinni spillingu í opinberu stjórnsýslunni. Í dag er lögð áhersla á að minnka bilið á milli ríkra og fátækra í landinu, berjast gegn spillingu og að auka hlutverk ríkisins í viðskiptum. Einnig er mikilvægt að stemma stigu við áhrifum Bandaríkjanna í álfunni með því að auka samstarf við nágrannalöndin. Íbúar Argentínu eru innflytjendur alls staðar að úr heiminum, og sagt er að níu af hverjum tíu Argentínumönnum eigi evrópska forfeður. Menning í Argentínu er þekktust fyrir tangóinn, en stór nöfn innan bókmennta og kvikmynda eiga einnig rætur sínar að rekja til landsins. Um það bil þriðjungur íbúa Argentínu býr í Búenos Aíres og nágrenni.

Hagkerfi og viðskipti

Árið 1945 var Argentína meðal ríkustu landa heims. Mistök í efnahagsstjórnun og spilling færðu landið samt sem áður inn í kreppu árið 2001. Gjaldmiðill Argentínu missti verðmæti sitt og fólk fékk ekki að taka sparifé sitt út úr bönkum. Þetta hafði í för með sér fjöldamótmæli og nokkur forsetaskipti á stuttum tíma. Ástandið fer þó batnandi. Stór hluti frjósamra svæða í Argentínu er notaður til landbúnaðarframleiðslu, sem er stærsta útflutningsgrein landsins, en Argentína er einn af stærstu framleiðendum nautakjöts í heiminum. Iðnaður Argentínu er að mestu byggður á landbúnaðarvörum, til dæmis verksmiðjum sem framleiða niðursuðuvörur og fata- og leðurverksmiðjum. Mikilvægustu viðskiptafélagar Argentínu eru Brasilía, Bandaríkin og Chile. Landið er einnig aðili að Mercosur, viðskiptasamningi á milli Argentínu, Brasilíu, Úrúgvæ og Paragvæ. Í Argentínu er gott vegakerfi og járnbrautakerfi sem er eitt það umfangsmesta í heimi, en vegna tíu ára viðhaldsleysis er stærstur hluti þess ekki í notkun. Stærstu fljótin eru einnig notuð sem samgönguleiðir.