Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 2 517 PPP$

Landafræði

Malí er staðsett í vesturhluta Afríku og er landlukt. Landið er áttunda stærsta land Afríku að flatarmáli og er meirihluti landsins eyðimörk eða gresjur. Norðurhluti Malí tilheyrir Sahara eyðimörkinni. Sehel svæðið, sem er sléttlendi, nær yfir landið þvert og til suðvesturs eru gresjur og frjósamt land. Hitabeltisloftslag ríkir í Malí en árnar Níger og Senegal tempra loftslagið í suðurhlutanum. Þar er rigningartímabil frá júní til október. Stærsta umhverfisógn Malí eru þurrkar. Þurrkarnir leiða til jarðvegseyðingar og skógsvæði og beitilönd skerðast. Aðgangur að hreinu vatni er einnig vandamál: aðeins 74% íbúa í borgum hafa aðgang að hreinu vatni og aðeins 61% íbúa á landsbyggðinni. Þá ógna þurrkar plöntu- og dýralífi Malí, sem og veiðiþjófar og eyðilegging nátturuauðlinda. Stjórnvöld hafa komið á fót friðlýstum svæðum til að sporna við vandanum en hefur hvorki tekist að stöðva veiðiþjófana né hindra ólöglegt skógarhögg.

Saga

Umhverfis landssvæðið þar sem Malí stendur í dag voru staðsett nokkur af stærstu menningarsamfélögum Afríku á miðöldum. Í norðausturhlutanum þar sem Malí stendur í dag var hið volduga Ghanaríki sem blómstraði á árunum 700-1000. Í Ghana fór fram mikil verslun meðal annars með gull, fílabein og þræla í Sahara. Malí tekur nafn sitt frá voldugu ríki sem hámarkaði veldi sitt á 14. öld. Konungsdæmið Malí náði í þá daga yfirráðum yfir stóru landssvæði sem náði frá strönd Atlantshafsins í vestri til austurs þar sem Nígería er í dag. Frá árunum 1400-1550 réði Songhai ríkið yfir svæðinu. Eyðimerkurborgin Timbuktu var miðpunktur verslunar fyrir úlfaldalestirnar í Sahara og varð síðar mikilvæg miðstöð íslamskrar bókmenntafræði, menningar og fræða. Íslömskt trúarbrögð náðu útbreiðslu á svæðinu með tilkomu múslímsku kaupmannanna. Árið 1880 réðust Frakkar inn á svæðið til að gera það að nýlendu sinni. Þeim tókst það ekki fyrr en árið 1898 eftir nokkra andspyrnu. Gerðar voru breytingar á nýlendustjórninni á árunum 1956-1958 og ríkið, sem hét nú Franska Súdan, öðlaðist heimastjórn. Franska Súdan og Senegal mynduðu svo ríkjasambandið Malí árið 1959. Árið 1960 gekk Senegal úr sambandinu og Franska Súdan lýsti yfir sjálfstæði sínu sem lýðveldið Malí.

Samfélag og stjórnmál

Malí gerðist sjálfstætt lýðveldi árið 1960 undir stjórn Modibo Keita, fyrsta forseta lýðveldisins. Keita kom á fót sósíalísku einsflokkskerfi í landinu. Andstaðan við stjórn Keita óx hratt og árið 1968 gerði hópur ungra herforingja valdarán og útnefndi Moussa Trarore sem forseta. Upp úr 1980 óx krafan um lýðveldi og fjölflokkakerfi. Árið 1991 var Trarore vikið úr embætti í stjórnarbyltingu leiddri af Amadou Toumani Tourè sem ruddi brautina fyrir fjölflokkakerfi. Ný stjórnarskrá var samþykkt í lýðræðislegum kosningum árið 1992. Í gegnum sögu Malí má sjá hvernig mismunandi þjóðarbrot og hópar lifa saman í sátt. Það má eflaust útskýra með sterkri, sameiginlegri menningarhefð og tungumálinu bambara sem 80% íbúa tala. Eftir samþykkt stjórnarskránnar árið 1992 er Malí lýðveldi með forseta sem þjóðhöfðingja, sem kosinn er á fimm ára fresti. Forsetinn útnefnir forsetisráðherrann sem útnefnir svo ríkisstjórnina. Löggjafarvald er í höndum þjóðþings sem samanstendur af 147 meðlimum, sem eru valdir í almennum kosningum á fimm ára fresti. Í Malí ríkir fjölflokkakerfi, en samkvæmt stjórnarskránni er ekki leyfilegt að stofna stjórnmálaflokka sem byggja stefnu sína á kynþátta-, þjóðflokka- eða trúarbragðahyggju.

Hagkerfi og viðskipti

Malí er eitt af fátækustu löndum jarðar og reiðir sig á þróunaraðstoð. Atvinnulífið byggist að mestu á landbúnaði sem veitir 80% íbúa atvinnu. Helstu landbúnaðarafurðirnar eru bómull, nautakjöt og kornvörur. 10% íbúa lifa hirðingjalífi og iðnaður er á lágu stigi. Helstu útflutningsvörur Malí eru bómull, gull og nautakjöt. Einnig er selt mikið af fiski til annarra landa í Vestur-Afríku. Landið hefur að geyma ríkar auðlindir úr jarðmálmum, sem fyrst voru nýttar eftir efnahagslegar endurbætur og vegna áhuga erlendra fjárfesta á arðsamri námugerð. Malí er þriðji stærsti framleiðandi gulls á eftir Suður-Afríku og Ghana. Aukinn hagvöxtur hefur ríkt í landinu upp úr 1990 og ýmsar endurbætur hafa verið gerðar til að auka fjölbreytni í efnahag og berjast á móti fátækt.