Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 6 757 PPP$

Landafræði

Gazasvæðið er strandslétta. Svæðið er þurrt og sandur þekur meirihluta sléttlendisins. Vesturbakkinn samanstendur af vesturbakka Jórdan-ár auk gróðursæls hálendis með tiltölulega góðum ræktunarskilyrðum. Skortur á vatni og vatnsmengun eru stærstu umhverfisvandamál Palestínu, sérstaklega á Gazasvæðinu. Auk þess er skóg- og jarðvegseyðing vandamál vegna mikils þéttbýlis.

Saga

Segja má að átökin í Palestínu hafi hafist þegar Ottómanheimsveldið riðaði til falls, en landsvæðið sem í dag er þekkt sem Ísrael og Palestína var undir stjórn þess. Búferlaflutningar Gyðinga til svæðisins byrjuðu seint á 19. öld, en gögn gefa til kynna að fyrir þann tíma hafi um 95% íbúa á svæðinu verið af öðrum uppruna (Harms, 2008:60). Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk skiptu Bretar og Frakkar Mið-Austurlöndum á milli sín og Palestína fell í hlut Breta. Þrátt fyrir að vera undir stjórn Breta höfðu Palestínumenn sjálfsákvörðunarrétt og áttu að hafa óskorðuð tækifæri til sjálfstæðrar þróunar (Harms, 2008:73).

Árið 1917 gáfu Bretar hinsvegar út Balfour-yfirlýsinguna, en í henni lofuðu þeir að stofna þjóðarheimili fyrir Gyðinga í Palestínu (Harms, 2008:69). Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk færðust búferlaflutningar Gyðinga til Palestínu í aukana eða allt þar til að þeir náðu hámarki við lok seinni heimsstyrjaldar. Palestínumenn voru misánægðir með þessa þróun mála, ofbeldi og uppþot færðust í aukana og loks lentu Palestínumenn í átökum við bæði Gyðinga og Breta.

Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk lýstu bresk stjórnvöld því yfir að þau hefðu áform um að láta af hendi margar af nýlendum sínum. Því tóku hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir yfir stjórn Palestínu árið 1947. Sameinuðu þjóðirnar stofnuðu sérstaka nefnd um málefni Palestínu (UNSCOP) sem gaf út skýrslu þar sem lagt var til að Palestínu yrði skipt upp í tvö aðskild ríki, eitt ríki Gyðinga og eitt ríki Araba. Þessi tillaga var samþykkt af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna seinna sama ár og landinu var skipt upp í tvo hluta. Rúmlega helmingur, það er 56% þess, fór til Gyðinga og 44% til Araba, þrátt fyrir að Arabar væru um það bil 70% af heildarfólksfjölda landsins þá. Ákvörðunin um skiptingu landsins vakti gríðarlega óánægju meðal Araba í landinu og endaði það að lokum með átökum og stríði, fyrst á milli Gyðinga og Araba, og svo alþjóðlegum átökum þar sem önnur lönd í Mið-Austurlöndum tóku einnig þátt (Harms, 2008). Seinustu bresku ráða- og hermennirnir fóru úr landinu í apríl 1948 og stuttu eftir það lýsti leiðtogi Gyðinga, David Ben Gurion, því yfir að Gyðingar hefðu stofnað nýtt ríki á því landsvæði sem þeim hefði verið úthlutað og skyldi það kallast Medinath Yisrael eða Ísraelsríki (Harms, 2008:95). Síðan Ísraelsríki var stofnað hafa átök verið nánast stanslaus.

Í gegnum tvö stór stríð, fyrst strax eftir stofnun Ísraels árið 1948 og síðan árið 1967, stækkuðu Ísraelsmenn landsvæði sín. Árið 1948 tóku þeir yfir mikið landsvæði sem var ætlað ríki Palestínu. Margir Palestínumenn flúðu undan stríðsátökunum til nágrannalanda, þar sem þeir síðan hafa búið í flóttamannabúðum. Árið 1967 hernumu Ísraelar svo einnig Vesturbakkann og Gasaströndina.

Margir hafa týnt lífi og hafa Palestínumenn beðið ósigur í nánast öllum bardögum sem háðir hafa verið. Nú er svo komið að Palestínumenn búa á 13% landsins, en Ísraelar hafa tekið yfir 87% þess (Finkelstein). Þrátt fyrir þetta eru Palestínumenn ekki enn hættir að berjast fyrir réttindum sínum, svo sem endurheimtun landsvæða og stofnun alþjóðlega viðurkennds sjálfstæðs ríkis.

Hver á rétt á landsvæðinu? Það er grundvallaratriðið í átökunum milli Ísraels og Palestínu og eru svörin mörg. Hingað til hefur ekki tekist að fastsetja landamæri þessara tveggja landa. Árið 1994 var ákveðið að palestínsk sjálfstjórnarsvæði skyldu stofnuð og að þau ættu að samanstanda af Gasaströndinni og Vesturbakkanum. Ætlunin var til lengri tíma litið að stofna palestínskt sjálfstætt ríki á þessum svæðum en ofbeldisverk frá báðum aðilum og árangurslausar samningaviðræður hafa valdið því að það hefur enn ekki gerst.

Samfélag og stjórnmál

Palestínsku svæðunum er stjórnað af palestínsku þjóðþingi með kjörnum fulltrúum sem valdir eru í kosningum sem haldnar eru reglulega. Hernám Ísraela er helsta þemað í palestínskum stjórnmálum. Árið 2007 varð hins vegar skipting á milli tveggja helstu flokkanna sem leiddi til þess að Fatah tók við stjórn á Vesturbakkanum en Hamas við stjórn á Gaza. Alþjóðasamfélagið samþykkir Fatah en lítur á Hamas sem hryðjuverkasamtök. Palestínsk yfirvöld á Vesturbakkanum hafa í mörg ár verið að vinna að því að byggja upp stofnanir ríkisins og telja nú að landið sé nægilega vel undirbúið til að verða sjálfstætt ríki. Hins vegar hefur spilling og klíkuskapur leitt til þess að fáir Palestínumenn treysta Fatah. Pólitísk réttindi Palestínumanna bæði á Vesturbakkanum og Gaza hafa verið verulega skert á undanförnum árum.

Yfirvöld í Palestínu hafa lengi unnið að uppbyggingu innviða ríkisins, svo sem ríkisrekinna stofnana, og telja þau nú að landið sé tilbúið til að verða sjálfstætt ríki. Meðal annars sóttu þau um aðild að UNESCO, sem samþykkt var í lok árs 2011. Palestínsk stjórnvöld lögðu einnig fram umsókn um aðild að Sameinuðu þjóðunum sama ár, en henni var vísað til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Hagkerfi og viðskipti

Á palestínsku sjálfsstjórnarsvæðunum eru meðal annars ræktaðar ólívur, sítrónur og grænmeti en bæði framleiðslan og viðskipti eru sködduð vegna átakanna við Ísraelsmenn. Ólöglegir ísraelskir landtökumenn nota meirihlutann af takmörkuðum vatnsbirgðum landsins sem hindrar frekari framþróun landbúnaðar í Palestínu. Landamæravarsla Ísraela við herteknu svæðin hindra einnig aðgang Palestínumanna að ísraelskum og alþjóðlegum markaði. Árið 2007 settu Ísraelar upp tálma á Gaza til að koma í veg fyrir að hægt væri að fara með vörur út af svæðinu. Á Vesturbakkanum hafa biblísku staðirnir Betlehem og Jeriko mikla trúarlega þýðingu og eru mjög vinsælir áfangastaðir fyrir ferðamenn.

Palestína er í 107.sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna.