Vietnam

Síðast uppfært: 04.03.2013

Frá því að stríðinu lauk árið 1975 hefur landið verið einsflokksríki með kommúnistaflokk við stjórn. Ríkið hefur opnað sig gagnvart öðrum löndum með tímanum og á landið nú í vinsamlegum samskiptum við mörg lönd. Greinilegur áhugi er á alþjóðlegum viðskiptum og iðnaði í landinu og má segja að landið stefni í átt að markaðshagkerfi.

Mynd: Pixabay/Ho Chi Minh

Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 13 457 PPP$

Landafræði

Í Víetnam er stórbrotið landslag sem teygir sig yfir 1600 kílómetra frá norðri til suðurs. Í landinu er aðallega hitabeltisloftslag, sem er í samræmi við og fylgir Monsoon tímabilinu annars staðar í Asíu. Þrátt fyrir legu landsins er talsverður breytileiki á loftslagi og veðurfari. Í suðri er hitastigið hátt árið um kring en í norðri geta veturnir orðið mjög kaldir. Að minnsta kosti þrír fjórðuhlutar landsins eru fjöll eða hæðir og er Víetnam þekkt fyrir kalksteinsfjöll sem rísa hátt yfir hafið. Grænir hrísgrjónaakrar eru einnig einkennandi fyrir landið, sem og óshólmar Mekong-svæðisins, en þar má finna ótal ár og skurði sem renna í gegnum landið. Árnar á Mekong-svæðinu eru forsenda fyrir lífi og búsetu þar, en íbúum hefur þó einnig staðið ógn af þeim. Þær flæða ítrekað yfir bakka sína og má þá sérstaklega nefna Rauðuá í norðri í því samhengi. Talsverða mengun má finna í ánum og er hún helst rakin til notkun skordýraeiturs og áburðar í landbúnaði. Landbúnaðurinn stendur nú frammi fyrir ýmsum umhverfisvandamálum, svo sem landeyðingu vegna skógarhöggs og mikils saltmagns í óshólmunum.

Saga

Víetnam var hérað í Kína í meira en árþúsund. Á 10. öld tókst Víetnömum að brjótast undan stjórn Kínverja og stofnuðu eigið ríki í kjölfarið. Sjálfstæðisbaráttan gekk þó ekki átakalaust því Víetnam hefur oft þurft að þola árásir bæði Kínverja og Mongóla. Undir lok 19. aldar öðluðust Frakkar sífellt meiri völd á svæðinu og að lokum varð Víetnam að franskri nýlendu. Frá árinu 1946 til 1954 börðust Víetnamar við Frakka um sjálfstæði sitt. Að lokum var Víetnam deilt í tvö ríki, norðurhlutinn var gerður að sósíalistaríki og suðurhlutinn að and-kommúnísku ríki. Það síðarnefnda fékk mikinn stuðning frá Bandaríkjamönnum í því sem við þekkjum sem Víetnamstríðið en Víetnamar kalla bandaríska stríðið. Í stríðinu reyndu Bandaríkin og Suður-Víetnam að hindra Norður-Víetnam í því að sameina landið undir stjórn kommúnista, en sú tilraun mistókst. Stríðið stóð frá 1957 til 1975, en þá féll höfuðborgin Saigon og ríkin tvö sameinuðust aftur, nú undir nafninu „Sósíalíska lýðveldið Víetnam“. Víetnamstríðið og þau grimmdarverk sem þar voru framin gegn almennum borgurum höfðu áhrif á allan heiminn. Það er talið að allt að fimm milljónir almennra borgara hafi látið lífið og að minnsta kosti 1.4 milljónir hermanna, en einungis 6% af þeim voru Bandaríkjamenn.

Samfélag og stjórnmál

Í Víetnam er forsetinn kosinn af þinginu sjálfu til fimm ára í senn, en einungis þingmenn eiga kost á að verða kosnir til forsetaembættisins. Forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og æðsti yfirmaður hersins. Víetnam er einsflokksríki undir stjórn Kommúnistaflokksins, sem enn í dag er oft gagnrýndur fyrir brot á mannréttindum. Gagnrýni er þó ekki liðin í landinu og sitja margir í fangelsum vegna andstöðu sinnar við stjórnina. Árið 2006 var Mguyen Minh Triet kosinn forseti, en hann var eitt sinn óbreyttur stærðfræðikennari í Saigon og hóf hann störf sín fyrir flokkinn 1963. Síðan 1986 hefur stjórnin staðið fyrir miklum umbótum í landinu, meðal annars innan hins opinbera, einkum réttarkerfisins og menntakerfisins. Umbæturnar hafa leitt til þess að sá fjöldi fólks sem lifir undir fátæktarmörkum hefur minnkað gífurlega. Einkavæðing landbúnaðarins og stærra vægi einkageirans innan hagkerfisins hafa einnig hjálpað mikið til.

Hagkerfi og viðskipti

Meira en helmingur Víetnama starfar við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Víetnam er í grunninn landbúnaðarsamfélag þar sem mestöll starfsemin fer fram í kringum óshólmana og nærliggjandi svæði í norðri og suðri. Landbúnaðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í útflutningstekjum landsins, en svo dæmi sé tekið er Víetnam stærsti útflytjandi hrísgrjóna í heiminum. Á 10. áratug síðustu aldar varð landið einnig leiðandi í framleiðslu á kaffi og kasjúhnetum. Áður var Víetnam talið vera eitt fátækasta ríki heims en það virðist vera að breytast. Hagkerfið er að breytast úr skipulögðu hagkerfi að hætti kommúnista yfir í sósíalískt markaðshagkerfi. Hagvöxtur hefur verið um 7,5% í landinu síðustu tuttugu árin vegna umbótanna.

Kort