Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Canberra
Íbúafjöldi: 26 439 111 (2023)
Svæði: 7 741 220 km2
Gjaldmiðill: Ástralskur dollari
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 62 625 PPP$
Þjóðdagur: 26. janúar

Landafræði

Ástralía er sjötta stærsta land í heimi og bróðurhluti Eyjaálfu. Eyjaálfa er ein flatasta heimsálfan, en 95% hennar liggja lægra en sex hundruð metrum undir sjávarmáli. Í norðurhluta Ástralíu er hitabeltisloftslag og regnskógar, en er nær dregur miðjunni breytist gróðurinn í sléttur og eyðimerkur. Eyðimörkin þekur sporöskjulaga svæði í miðju landsins sem nær yfir um þriðjung Ástralíu. Í suðausturhlutanum er loftslagið temprað með reglulegri úrkomu og þar má finna regnskóga með risavöxnum tröllatrjám, en á því svæði býr stærsti hluti áströlsku þjóðarinnar. Í suðri eru árstíðabundin þurrkatímabil, en í norðurhluta landsins eru felli- og hvirfilbylir algengir. Við strandlengju landsins í norðaustri má finna stærsta kóralrif heims sem kallast „Great Barrier Reef“ og er heimili ótal dýrategunda, bæði fiska og hryggleysingja. Ástralía er þekkt fyrir fjölbreytilegt og einstakt dýralíf, sem hefur þróast þar vegna aldurs heimsálfunnar, breytilegs veðurfars og landfræðilegrar einangrunar.

Landbúnaður og innflutningur nýrra tegunda til landsins ógnar þó fjölbreytileika náttúrunnar. Ofbeit og skógeyðing hefur valdið landrofi og eyðimerkurmyndun, mengað strandlengjuna og hafið og valdið því að nýjar aðfluttar tegundir hafa dreift sér hraðar en ella. 

Saga

Fyrstu manneskjurnar komu til Ástralíu yfir landbrýr og með siglingum frá því sem í dag er kallað Suðaustur-Asía fyrir um 50.000 árum síðan. Þegar Evrópubúar uppgötvuðu landið árið 1601 lifðu ástralskir frumbyggjar í landinu. Þeir voru veiðimenn, safnarar og sjómenn og áttu flókna og margbreytilega munnlega menningu og heimsmynd. Ekki hefur náðst samstaða um hversu margir frumbyggjar voru í landinu þegar Evrópumenn komu, en það er talið vera á milli 300.000 og tvær milljónir manna. Þessi fjöldi dreifðist á um það bil 600 ættkvíslir sem töluðu um 200 tungumál, en fjórðungur þeirra er nú útdauður. Enska heitið yfir frumbyggja Ástralíu er Aboriginals.

Árið 1770 tók breski landkönnuðurinn James Cook Ástralíu og Tasmaníu yfir fyrir hönd breska kóngsins. Nýlenduvæðing Breta á landinu hófst með fangaflutningum í lok 18. aldar og á 19. öld voru sex sjálfstæðar nýlendur stofnaðar. Reynt var að aðlaga frumbyggja landsins að siðum, venjum og menningu Breta og varð það til þess að þeim fækkaði hratt. Það var til siðs að taka börn frumbyggja af foreldrum sínum og setja þau á barnaheimili eða til hvítra foreldra og var búsetu og atvinnu frumbyggja stjórnað algjörlega af ríkinu fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var ekki fyrr en árið 2008 að frumbyggjar fengu opinbera afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum vegna þeirra meðferðar sem þeir höfðu mátt þola frá landnámi Breta.

Árið 1901 sameinuðust allar sex nýlendurnar í sambandsríki sem fékk nafnið „Sambandsríkið Ástralía“, en Bretar fóru þó með völd fram til 1931. Breski þjóðhöfðinginn er enn opinber þjóðhöfðingi Ástrala, en hann fer þó ekki með nein völd.

Samfélag og stjórnmál

Landið er þingbundið konungsdæmi, en því er stjórnað sem sambandsveldi. Fylkin sex sem og svæðin hafa talsverða sjálfstjórn innan löggæslu, menntunar, lagaumhverfis og almenningssamgangna. Samveldisþingið og ríkisstjórnin hafa þó yfirstjórn í viðskiptum, samgöngum, fjármálum, bankakerfinu, gjaldmiðlinum, hernum og varnarmálum, utanríkismálum og almannatryggingum.

Í gegnum tíðina hafa þrír stjórnmálaflokkar verið við völd, Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Þjóðarflokkurinn, en Frjálslyndi flokkurinn og Þjóðarflokkurinn hafa oft starfað saman.

Í júní 2010 varð Julia Gillard fyrsti kvenforsætisráðherra landsins. Enn þann dag í dag er mikill straumur innflytjenda til Ástralíu, en manntal sem gert var árið 2001 sýndi að 22% allra íbúa landsins, eða um 4,1 milljón manna, fæddust utan landsins, sem er hæsta hlutfall í heiminum.

Fyrir seinni heimsstyrjöldina voru nánast allir innflytjendur frá Bretlandseyjum, en eftir stríðið jókst hlutfall annarra Evrópubúa, svo sem Ítala og Grikkja. Á síðustu þrjátíu árum hefur hlutfall asískra innflytjenda aukist og endurspeglast það í efnahagsmálum og viðskiptum, en samvinna Ástrala við sína asísku nágranna eykst jafnt og þétt.

Hagkerfi og viðskipti

Hagvöxtur hefur verið stöðugur í Ástralíu, en það má meðal annars rekja til mikilla náttúruauðlinda. Í dag er Ástralía í hópi tuttugu stærstu hagkerfa heimsins, miðað við verga þjóðarframleiðslu á íbúa. Ástralir hafa verið þekktir fyrir sauðfjárrækt og landbúnað og enn þann dag í dag eru Ástralir einn stærsti útflytjandi ullar, hveitis og kjöts í heiminum. Landið er auðugt af steinefnum og jarðgasi og hefur því efnahagur landsins notið góðs af því, en námugröftur og vinnsla jarðgass eru orðnar umfangsmiklar atvinnugreinar.

Í Ástralíu má finna einhverjar stærstu auðlindir heims af blýi, nikkeli, tantali, úrani og sinki og eru þar einnig miklar báxít-, kola-, kóbalt-, kopar-, demanta-, gull-, járn-, mangan-, málmgrýtis-, ilmenít-, rútíl- og sirkónauðlindir. Hinn hluti hagkerfis landsins byggir að mestu á þjónustugeiranum, en fasteignaviðskipti, fyrirtækjarekstur og ferðmennaska eru stór hluti þess.
Ástralir stunda mikinn útflutning til Kína og Japan, en einnig hafa verið gerðir fríverslunarsamningar við Bandaríkin og Chile. Frá því á 9. áratug síðustu aldar hafa Ástralir og Nýsjálendingar sífellt aukið samstarf sitt og hafa hagkerfi landana orðið samþættari. Rætt hefur verið um að stofna einhvers konar sameiginlegt markaðshagkerfi fyrir löndin tvö fyrir árið 2015.