Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Manama
Íbúar: 1 505 003 (2020)
Svæði: 760 Km2
Þjóðhátíðardagur: 16. desember
Þjóðernishópar: Barein 46%, utan Barein 54% (2010)
Tungumál: Arabíska (opinbert), enska, Farsí, Úrdú
Trúarbrögð: Múslímar (sjía og súnní) 70%, kristnir 15%, hindúar 10%, aðrir 5% (2018)
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 61 228 PPP$

Landafræði

Barein á í miklum og góðum samskiptum við Sádi-Arabíu. Við landið eru rík fiskimið sem eru mikilvæg auðlind fyrir landið. Eyðimörk þekur 92% landsins, en aðeins 2,9% eru ræktanlegt landsvæði. Þrátt fyrir að stór hluti landsins sé eyðimörk er Barein grænna en mörg nágrannalönd þess. Margar tegundir hafa aðlagað sig að eyðimerkurjarðveginum og háu saltinnihaldi hans. Jarðeyðing er samt sem áður eitt af stærstu umhvefisvandamálum landsins ásamt mengun hafsvæða vegna olíumengunar. Sandstormar verða oft á eyðimerkursvæði Barein.

Saga

Ottómanheimsveldið og Bretar viðurkenndu Barein sem sjálfstætt ríki árið 1913, en landið naut samt sem áður „verndar“ Breta. Nútímavæðing landsins hófst árið 1932, þegar olía fannst í landinu. Barein var breskt verndarsvæði þar til landið hlaut sjálfstæði 1971.

Þegar Írakar réðust inn í Kúveit 1990 stóð Barein með bandamönnum. Í Barein eru Sjítar í meirihluta, en Súnnítar fara samt sem áður með stjórnina og hefur það leitt til mótmæla og óróa í samfélaginu. Frá því á 18. öld hefur Sjeik keisaraættin al-Khalifa farið með völd í landinu, en þau eru Súnnítar. Sjeik Hamad bin Isa al- Khalifa tók við sem emír í landinu árið 1999, en hann hefur lýst yfir áhuga á því að nútímavæða landið enn frekar. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2002 varð Barein að þingbundu konungsríki. Staða kvenna batnaði mikið sama ár, en þá voru þingkosningar haldnar í fyrsta skipti þar sem að konur fengu að bjóða sig fram. Kosningarnar voru þær fyrstu í þrjá áratugi.

Samfélag og stjórnmál

Stjórnmálaflokkar eru bannaðir í Barein, en félagsleg pólitísk samtök eru þó leyfð. Samkvæmt skýrslum brjóta yfirvöld í Barein ítrekað á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi borgara, en margir vilja samt meina að ástandið hafi batnað umtalsvert á síðustu árum.

Barein er þingbundið konungsveldi og er æðsti þjóðhöfðinginn Hamad konungur. Konungsættin hefur mikið pólitískt og hernaðarlegt vald. Árið 2002 voru þingkosningar haldnar og voru fjörtíu stjórnmálamenn kosnir á þing, en kosningarnar voru þær fyrstu í landinu í þrjátíu ár. Þrátt fyrir miklar umbætur hafa konungurinn og al-Khalifa ættin öll mikið vald og oft hafa verið átök vegna langvarandi ósættis á milli Sjíta og Súnníta.

Vorið 2011 voru mikil mótmæli þar sem fólk krafðist aukins pólitísks frelsis og almennra réttinda fyrir alla. Mótmælin voru brotin á bak aftur með offorsi af öryggissveitum landsins. Barein hefur einnig átt í langvarandi deilum um landsvæði við nágrannalandið Katar, en þar snýst ágreiningurinn um yfirráð yfir eyjum.

Hagkerfi og viðskipti

Ríkið sjálft er vel stætt vegna mikilla olíu- og gasauðlinda og er enginn tekjuskattur í landinu. Olía fannst í fyrsta skipti í nægjanlegu magni þann 1. júní árið 1932. Áður en olían fannst kom stærstur partur tekna ríkisins frá viðskiptum. Nú hefur olían skapað grunn fyrir hagkerfi landsins. Olíuauðlindirnar byrjuðu að ganga til þurrðar á 8. áratug síðustu aldar og ákvað ríkið þá að byrja að reiða sig meira á annarskonar iðnað og viðskipti. Þetta hefur leitt til þess að Barein er orðið ein af helstu fjármálamiðstöðum Persaflóans.

Í landinu hófst einnig Formúlu 1 kappakstur árið 2004, sem hefur styrkt ímynd landsins á alþjóðavettvangi. Landbúnaður gefur aðeins um 1% af vergri þjóðarframleiðslu, þar sem aðeins um 2,9% landsins eru ræktanleg.