Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Brussel
Þjóðernishópar: Flæmskir 58%, vallónskir 31%, aðrir 11%
Tungumál: Flæmska (hollenska), franska, þýska
Trúarbrögð: Kaþólikkar 75%, aðrir/trúleysingjar 25%
Íbúafjöldi: 11 686 140 (2023)
Stjórnarform: Sambandsríki - Þingbundin konungsstjórn
Svæði: 30 530 Km2
Gjaldmiðill: Euro
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 65 027 PPP$
Þjóðhátíðardagur: 21. júlí

Landafræði

Belgía er um þriðjungur af flatarmáli Íslands. Hægt er að skipta landinu upp í þrjár landslagsheildir. Við ströndina í norðvestri er lágslétta; jarðvegur og gróður endurspegla þá staðreynd að þetta var eitt sinn hafsbotn. Sunnar er landið hærra með grænum frjósömum dölum þar sem bæði eru fljót og tilbúin síki. Í suðausturhluta landsins eru Ardennafjöll. Í Belgíu er dæmigert úthafsloftslag, með mildum vetrum og svölum sumrum. Landið er á meðal iðnvæddustu landa heims og mengun er víða mikil. Gæði vatns eru með því versta sem gerist í Evrópu og loftmengun frá iðnaði er mikil, sérstaklega í borgunum.

Saga

Svæðið sem í dag er Belgía var áður hluti nokkurra stærstu ríkja Evrópu. Á 16. öld var svæðið hluti af ríki Karls V. og næstu 300 ár þar á eftir var landinu stjórnað af ýmsum keisurum. Belgía var stofnuð árið 1831, mynduð úr suðurhluta Hollands og norðurhluta Frakklands. Mikil iðnvæðing leiddi til þess að landið hóf að kanna hluta af Afríku í leit að hrávöru. Í byrjun 20. aldar hafði Belgía yfirráð yfir stórum landsvæðum í Mið-Afríku.Þjóðverjar gerðu innrás inn í landið í báðum heimsstyrjöldunum. Vegna þess vék það frá stöðu sinni sem hlutlaust ríki á eftirstríðsárunum og gerðist meðlimur í varnarbandalaginu NATO. Belgía var einnig eitt þeirra landa sem tók þátt í stofnun ESB. Allur sjötti og sjöundi áratugurinn einkenndist af andstæðum trúarskoðunum íbúanna, sem jukust vegna mikils efnahagslegs ójöfnuðar í norðri og suðri. Þetta leiddi til þess að svæðin hafa fengið aukna sjálfstjórn í sínum málum.

Samfélag og stjórnmál

Í Belgíu er formlega þingbundin konungsstjórn en dregið hefur úr völdum konungs undanfarin tíu ár. Forsætisráðherrann fer með framkvæmdavaldið í samvinnu við ríkisstjórnina. Belgísk stjórnmál hafa frá sjálfstæði landsins einkennst af togstreytu milli ólíkra menningar- og tungumálahópa og ójafnri efnahagslegri stöðu mismunandi héraða landsins. Í Flæmingjalandi er töluð flæmska (hollensk mállýska), í Vallóníu franska og í Austur-Vallóníu þýska. Að auki er höfuðborgin Brussel aðskilið hérað, þar sem bæði franska og flæmska eru opinber mál. Héruðin hafa öll sitt eigið þing. Stjórnmálin hafa á eftirstríðsárunum skipst á milli hægri og vinstri afla, en undanfarin ár hefur fylgi hægrisinnaða þjóðernisflokksins Flemish Interest aukist. Á tíunda áratugnum komu upp nokkur hneykslismál, meðal annars uppræting á stórum barnaklámhring, spilling og notkun ólöglegra efna í dýrafóður. Atvinnuleysi er mjög mikið þrátt fyrir tiltölulega hátt velferðarstig. Belgía er mikilvægur gerandi í alþjóðastjórnmálum og eru höfuðstöðvar bæði NATO og ESB í höfuðborginni Brussel.

Hagkerfi og viðskipti

Efnahagur Belgíu er mjög fjölbreyttur og nútímalegur vegna hentugrar legu landsins, góðs samgöngukerfis og hversu snemma landið iðnvæddist. Mikilvægustu útflutningsvörurnar eru matvæli, bílar, bensínvörur og efnavörur. Landið er einnig þekkt fyrir framleiðslu sína á gæða súkkulaði og fjölbreyttu úrvali bjórtegunda. Meira en 80 prósent þeirra hrávara sem notaðar eru við iðnaðinn þarf að flytja inn í landið. 70 prósent af vergri landsframleiðslu kemur frá þjónustuiðnaði. Mikill munur er á efnahagnum í norðri og suðri: í hafnarborginni Antwerpen sem liggur í norðurhluta landsins er nýtísku útflutningsiðnaður, á meðan í Brussel, lengra í suðri, mótast efnahagurinn af þjónustu- og fjármálafyrirtækjum. Eftirspurn eftir útflutningsvörum landsins féll gífurlega í byrjun níunda áratugar 20. aldar og hófst þá langt krepputímabil. Miklar erlendar skuldir og úreltur iðnaður leiddu til fleiri vandamála. Ríkisstjórnin hóf endurbætur á tíunda áratugnum og í dag tekur efnahagurinn stöðugum framförum.