Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 21 512 PPP$

Landafræði

Mexíkó er fjórtánda stærsta land veraldar. Meira en helmingur þess liggur meira en þúsund metrum yfir sjávarmáli. Loftslagið er heitara við strandlengjuna en temprað á hálendinu. Mexíkóborg, höfuðborg landsins, er staðsett í 2300 metra hæð yfir sjávarmáli á miklu eldfjallasvæði. Miðhluti landsins samanstendur af hásléttum sem eru umkringdar fjallgörðunum Sierra Madre Occidental í vestri og Sierra Madre Oriental í austri . Þrátt fyrir að um það bil helmingur landsins sé eyðimörk má þar finna skógi vaxin fjöll, frjósama dali og stóra regnskóga. Skógeyðing er þó vandamál í landinu, ásamt loft- og vatnsmengun og útrýmingu dýrategunda. Olíulekinn í Mexíkóflóa hefur sett umhverfið í enn frekari hættu. Þann 20. apríl 2010 sprakk borpallurinn „Deepwater Horizon“ og sökk í kjölfarið. Gífurlegt magn olíu lak út í hafið í kjölfar slyssins og náði lekinn til nærliggjandi stranda. Olíulekanum hefur verið lýst sem stærsta olíumengunarslysi sögunnar. Í Mexíkóflóa má finna tæplega 1% af kóralrifum heimsins og þar búa 56 tegundir sjávarspendýra. Enn er ekki hægt að segja til um hvaða langvarandi áhrif slysið muni hafa á umhverfið og dýralífið.

Saga

Talið er að rekja megi sögu Mexíkó um það bil 20.000 ár aftur í tímann. Fyrsti þjóðflokkurinn sem setti svip sinn á sögu landsins voru Olmekar. Þeir voru frumbyggjar sem þróuðu með sér flókna byggingarlist allt frá árinu 1000 f.kr. í miðhluta landsins. Síðan þá hafa margir ættbálkar frumbyggja átt búsetu í Mexíkó, á ólíkum tímum. Á síðustu öldum hefur Mexíkó átt í ýmsum pólitískum deilum og ráðist hefur verið inn í landið frá Spáni, Norður-Ameríku og Frakklandi. Landnám Evrópumanna byrjaði árið 1519 þegar Spánverjinn Hernán Cortés gerði Mexíkó að spænskri nýlendu og var landið undir stjórn Spánverja allt til ársins 1821 þegar landið öðlaðist sjálfstæði. Árið 1845 gerðu Bandaríkin kröfu til landsvæðisins Texas, sem þá var hluti af Mexíkó. Það leiddi til átaka milli landanna sem enduðu með því að Mexíkanar misstu helming landsvæðis síns. Í kringum 1860 réðust Frakkar inn í landið og hernámu það, en drógu herafla sinn til baka fáeinum árum seinna. Stuttu eftir að Frakkar drógu her sinn úr landinu tók einræðisstjórn Porfirio Díaz við og jók það enn á spennu í landinu. Uppreisn gegn einræðistjórninni hófst árið 1910 og varði í tíu ár. Uppreisnin beindist í fyrstu gegn einræðistjórninni, en varð að lokum barátta fyrir félagslegu jafnrétti og mannréttindum. Eftir 1940 komst aukið jafnvægi á í landinu, bæði félagslega og efnahagslega.

Samfélag og stjórnmál

Mexíkó er sambandslýðveldi með 31 meðlimsríki og eitt alríkissvæði (e. federal district) sem er einnig höfuðborg landsins. Ríkisvaldið er þrískipt og er skiptingin í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Forseti landsins er handhafi framkvæmdavaldsins. Forsetinn er kosinn til sex ára í senn, en Felipe Calderón Hinojosa hefur gegnt embætti forseta síðan 2006. Calderón er meðlimur kristilega íhaldsflokksins PAN, en helstu baráttumál hans eru fríverslunarsamningur við Bandaríkin og einkavæðing opinbers reksturs. Eitt af helstu félagslegu baráttumálum Calderóns eru varnir gegn eiturlyfjatengdri glæpastarfsemi, vandamáli sem hefur stigmagnast á undanförnum árum í Mexíkó ásamt spillingu. Misskipting tekna og auðs er gífurleg í Mexíkó og býr um helmingur íbúanna við fátækt. Tjáningarfrelsið er að sama skapi takmarkað og hafa stjórnvöld í landinu átt í vandræðum með að tryggja verndun borgaralegra réttinda íbúanna.

Hagkerfi og viðskipti

Árið 1994 gekk djúp efnahagsleg lægð yfir Mexíkó og pesóinn veiktist gífurlega. Þessi efnahagslega lægð var sú versta sem landið hafði gengið í gegnum síðan á fjórða áratug seinustu aldar. Á seinni árum hefur ástandið batnað umtalsvert og er efnahagur landsins nú meðal þeirra fimmtán sterkustu í heiminum. Í Mexíkó er opið markaðshagkerfi og hefur ekkert annað land gert jafn marga fríverslunarsamninga. Efnahagur landsins er mjög viðkvæmur fyrir sveiflum í bandaríska hagkerfinu, enda eru löndin tengd sterkum böndum. Um 86% af útflutingi landsins fer til Bandaríkjanna og 66% af innflutningi þess koma frá Bandaríkjunum. Mexíkó varð því illa útí í efnahagskreppunni sem hófst árið 2008. Landið er stærsti silfurframleiðandi heims og fimmti stærsti olíuframleiðandi.