Sádi-Arabía

Síðast uppfært: 21.04.2015

Sádi-Arabía er eitt af ríkustu löndum í heimi vegna þeirra miklu olíu- og gasauðlinda sem þar má finna. Þrátt fyrir að landið hafi aðlagað sig að nútímalegri borgarmenningu eru Sádi-Arabar mjög hefðbundnir, en íbúar landsins lifa samkvæmt gömlum hefðum og gildum og eru skyldugir til að fylgja íslömskum reglum.

Mynd: NTB/Shutterstock

Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 59 065 PPP$

Landafræði

Sádi-Arabía nær yfir bróðurpart Arabíuskaga og einkennist landslagið af þurrum gresjum og eyðimörk. Sumrin eru afskaplega heit, en hitinn getur farið nálægt 50°C. Veturnir eru svalari með 14-23°C hita. Við ströndina er loftslagið mildara og hitastigið jafnara á milli árstíða.

Allar ár í landinu þorna upp einhvern tímann yfir árið og því þurfa Sádi-Arabar að reiða sig á grunnvatn og salthreinsaðan sjó. Sandbylir eru tíðir, en árið 2009 varð landið fyrir barðinu á svo kröftugum sandstormi að ómögulegt var að fara út úr húsi á meðan hann gekk yfir. Sádi-Arabar eiga sök á stórum hluta kolefnislosunar í heiminum, aðallega vegna olíu- og gasiðnaðar. Sádi-Arabar glíma einnig við önnur umhverfisvandamál, svo sem jarðeyðingu, mengun meðfram strandlengjunni vegna olíuleka og ofneyslu vatns.

Saga

Búseta hefur verið á Arabíuskaga í fleiri þúsund ár, en lengst af voru þar lítil og einangruð samfélög. Íbúarnir höfðu lífsviðurværi sitt aðallega af verslun og viðskiptum meðfram strandlengjunni. Inn til landsins bjuggu hirðingjar sem sáu fyrir sér með kameldýrabúskap.

Konungsfjölskyldan á rætur að rekja til Nedsjd, þar sem Saud fjölskyldan komst til valda á 18. öld. Erfingjar þeirra hafa farið með stjórn landsins síðan. Á fyrri hluta 20. aldarinnar fór Ibn Saud í landvinninga og var konungsríkið Sádi-Arabía stofnað árið 1932. Landið er eina arabíska landið sem hvorki hefur verið ráðist inn í né gert að nýlendu, en landið hefur ætíð haft sterk tengsl við Bretland og Bandaríkin. Bandaríkjamenn settu upp herstöðvar í landinu í kringum Persaflóastríðið árið 1991, en stríðið snerist um að frelsa Kúveit undan hersetu Íraka. Bandalag þrjátíu og fjögurra landa tók þátt í stríðinu. Margir telja að Sádi-Arabar hafi einna helst tekið þátt í átökunum af ótta við að Írakar myndu fara í frekari landvinninga. Íslömsku hryðjuverkasamtökin Al-Qaida gagnrýndu Sádi-Araba fyrir að hafa leyft Bandaríkjaher að halda herstöðvum sínum í landinu þrátt fyrir að Persaflóastríðinu væri lokið. Bandaríkjamenn hafa hins vegar stutt Sádi Arabíu og tryggt öryggi landsins með veru herstöðva sinna.

Því er haldið fram að Al-Qaida njóti stuðnings í landinu og hafa Bandaríkjamenn gagnrýnt landið fyrir að hafa ekki náð að bregðast við. Fimmtán af nítján flugræningjum sem tóku þátt í hryðjuverkaárásunum þann 11. september 2001 voru frá Sádi-Arabíu. Margir hafa áhyggjur af að konungsveldið eigi eftir að falla vegna íslamskra bókstafstrúarafla. Sádi-Arabía hefur reynt að standa utan við átökin í mið-austurlöndum, með misjöfnum árangri þó. Almennt séð hefur Sádi-Arabía litið ríki þar sem Shia múslimar hafa mikil völd hornauga. Ótti við hryðjuverk og flutning vopna frá Jemen til landsins stóð að baki þeirri ákvörðun að stórauka gæslu við landamæri landsins árið 2004.

Samfélag og stjórnmál

Sádi-Arabía er íslamskt konungsríki, en þar er trúfrelsi ekki verndað með lögum. Stjórnmálaflokkar og verkalýðsfélög eru ekki leyfð. Konungurinn velur sjálfur ríkisstjórn sem er einungis ráðgefandi. Síðan 2005 hefur Abdullah ibn Abdel Aziz ibn Saud verið þjóðhöfðingi. Íslam er opinber trú landsins og engin önnur trúarbrögð eru leyfð. Um það bil 90% íbúa landsins eru Súnní múslimar, en 10% Shía múslimar. Lýðræði í vestrænum skilningi er óþekkt í landinu og fjölmiðlafrelsi er takmarkað, en mannréttindabrot í landinu skapa oft fyrirsagnir í heimspressunni.

Dauðarefsingar eru leyfðar í Sádi-Arabíu og eru opinberar aftökur framkvæmdar. Konum er kerfisbundið mismunað í landinu. Vegna fjárhagslegs styrks landsins og vegna þess að helgustu staðir múslima, Medina og Mekka eru í landinu, hefur Sádi-Arabía mikil áhrif í Mið-Austurlöndum og í hinum íslamska heimi. Sádi-Arabía er leiðandi ríki á Persaflóasvæðinu, bæði efnahagslega, stjórnmálalega og hernaðarlega.

Abdullah, konungur Sádi-Arabíu, hefur frá því ríkið fékk aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 2005 lagt til ýmsar umbætur og reynt að nútímavæða landið til þess að draga að erlenda fjárfesta. Arabíska vorið svokallaða leiddi til mótmæla, einna helst meðal Shia múslima, í landinu. Mótmælin voru stöðvuð af lögreglunni, en Abdullah konungur hækkaði þó í framhaldinu lágmarkslaun, kom á atvinnuleysisbótum og studdi við nýbyggingar. Árið 2011 tilkynnti Abdullah að konur myndu í fyrsta skipti hafa kosningarétt og geta boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum og setið í ríkisstjórn frá og með árinu 2015.

Íbúar Sádi-Arabíu eru ungir, um helmingur þjóðarinnar er yngri en 15 ára. Að auki er einn fjórði íbúa landsins erlendir farandsverkamenn, margir frá Asíu. Atvinnuleysi er töluvert meðal Sádi-Araba og hefur verið þrýst á að fækka farandsverkamönnum, sem eru taldir taka störf heimamanna.

Í Sádi-Arabíu er bæði að finna vestræna, nútímalega lifnaðarhætti og hefðbundna múslímska menningu.

Hagkerfi og viðskipti

Áður fyrr voru pílagrímsferðirnar til Mekka og Medína aðaltekjulind Sádi-Arabíu. Nú hefur olíu- og gasvinnsla tekið við því hlutverki. Heimsins stærsti olíuforði ásamt heimsins bestu getu til að vinna úr olíunni gera Sádi-Arabíu að stærsta olíuframleiðanda og útflutningsaðila olíu í heiminum. Stjórnvöld hafa þó áform um að minnka áherslu á olíu sem aðaltekjulind og hafa því hvatt til vaxtar innan orkuframleiðslu, fjarskipta, jarðgasframleiðslu og framleiðslu annarra efna sem unnin eru úr jarðoliu og jarðgasi.

Atvinnuleysi er mikið í landinu en skortur er á menntuðu starfsfólki. Því hafa stjórnvöld fjárfest mikið í menntun, þróun innviða ríkisins og hækkað laun opinberra starfsmanna. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa ekki leyft aðgang að fjárhagsáætlunum og efnahagslegri stöðu landsins. Því hafa verið sett spurningarmerki við raunverulega fjárhagsstöðu landsins, þar á meðal stærð olíu- og gasauðlindanna.