Sómalía

Síðast uppfært: 13.07.2024

Í Sómalíu hafa mikil innanríkisátök reglulega átt sér stað og borgarastyrjaldir valdið miklum skaða.

Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Mogadishu
Þjóðernishópar: Sómalar 85%, bantú og arabar 15%
Túngumál: Sómalska, arabíska, ítalska, enska
Trúarbrögð: Súnnímúslímar
Stjórnarform: BRÁÐABIRGÐASTJÓRN - Þingbundið ríkjasamband
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 1 364 PPP$

Landafræði

Sómalía hefur lengstu strandlengju af löndum í Afríku. Stór hluti landsins er þurrar sléttur. Loftslagið er þurrt með óreglulegri úrkomu og miklum þurrkum. Frjósömu og ræktanlegu svæðin eru í sunnanverðu landinu. Eyðing skóga og ofbeit eru alvarleg umhverfisvandamál, sem gera lífsskilyrði margra bænda erfið. Tsunami-flóðbylgjan, sem skall á Indlandsströnd árið 2004, lenti einnig á Sómalíu og 300 manns misstu lífið. Skortur á hreinu vatni er einnig mikið heilsufarslegt vandamál.

Saga

Sómalar hafa búið í Sómalíu í yfir 2500 ár. Frá því á tíundu öld, þegar höfuðborgin Mogadishu varð til, hafa íbúar landsins að mestu verið múslímar. Átök eru á milli íbúa landsins vegna skiptingar þeirra í sex aðskilda ættbálka: Darod, Dir, Digili, Ishak, Hawiya og Rahanwin. Undir þessum ættbálkum er svo fjöldi undirflokka sem er síðan aftur skipt upp í hundruð smáflokka. Ættbálkakerfið í Sómalíu einkennist af valdabaráttu og ofbeldisfullum átökum. Á nýlendutímanum var Sómalía bæði undir breskri og franskri stjórn. Árið 1977 fór Sómalía í stríð á móti Eþíópíu og reyndi að ná til baka Ogaden-héraði sem fyrir nýlendutímann var hluti af sómölsku yfirráðasvæði. Sómalía varð sjálfstætt ríki árið 1960 og litlu seinna tók Siad Barre völdin í valdaráni studdu af Sovétríkjunum. Árið 1991 var einræðisherranum Barre steypt af stóli og út braust borgarastyrjöld á milli nokkurra ættbálka. Sama ár lýsti norðvesturhluti landsins, Sómalíland, yfir sjálfstæði sínu. Árið 1998 fylgdi norðausturhluti landsins, Puntland, í kjölfarið og lýsti yfir sjálfstæði. Suðurhluta landsins er stjórnað af ólíkum hópum erkifjenda.

Samfélag og stjórnmál

Ofbeldi og lögleysa hefur ríkt í Sómalíu frá því að Siad Barre var steypt af stóli árið 1991. Í dag er ekki starfandi ríkisstjórn, lögreglulið eða réttarkerfi í landinu. Íbúar landsins eru háðir ættbálkakerfinu og meira eða minna opinberu, íslömsku dómstólakerfi um verndun. Stig verndunar fer eftir stærð og styrk ættbálksins. Umbreytingaríkisstjórn sem komið var á í Kenía árið 2004 hefur tiltölulega lítil völd. Múslímska samsteypustjórnin ICU (Islamic Courts Union) tók árið 2006 völd í stórum hluta suður Sómalíu, þar með talið höfuðborginni Mogadishu. ICU vonaðist meðal annars til þess að innleiða múslímsk sjaríalög í landinu. Í byrjun árs 2007 tók herlið ríkisstjórnarinnar, ásamt eþíópísku herliði, svæðið til baka frá ICU. Meðlimir ICU hafa síðan skipst í ólíkar fylkingar. ICU hafa meðal annars lýst yfir heilögu stríði gegn Eþíópíu og hafa verið ásakaðir, af Bandaríkjunum, um að vera í samstarfi við al-Qaida – ICU neitar þessu.

Hagkerfi og viðskipti

Sómalískt hagkerfi einkennist mjög af pólitískum aðstæðum í landinu og skorti á uppbyggingu grunngerðar samfélagsins. Landbúnaður í formi húsdýrahalds er atvinna stærsta hluta íbúanna og koma útflutningstekjur að mestu leyti frá nautgriparækt. Undanfarið hafa tekjur af nautgripaviðskiptum lækkað vegna þess að mörg Persaflóaríki hafa bannað innflutning á sómölsku nautakjöti. Ástæðan er að óttast er að nautgripirnir geti verið smitaðir af sjúkdómi sem kenndur er við Afríkusigdalinn, sem getur smitast frá dýrum til manna. Sómalskt hagkerfi er háð peningasendingum frá Sómölum sem búa í öðrum löndum. Árlega millifæra brottfluttir Sómalar um það bil 12 milljónir dollara til ættingja í heimalandinu. Þrátt fyrir skort á miðstýringu er vöxtur innan ýmissa greina atvinnulífsins. Samt sem áður eru litlar líkur á framförum í efnahagskerfinu og aðgangur að þróunaraðstoð erfiður vegna innanríkisátaka í landinu.


Kort