Taívan

Síðast uppfært: 14.06.2024

Taívan er eitt af efnahags- og tæknilegum velgengnisdæmum Asíu. Landið sagði sig úr lögum við meginland Kína árið 1949 og er einungis viðurkennt af nokkrum ríkjum. Ekkert þeirra er aðildarríki SÞ.

Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Taipei
Þjóðernishópar: Taívanar 84%, kínverjar 14%, upprunalegir íbúar svæðisins 2%
Túgumál: Mandarínkínverska, tævanska
Trúarbrögð: Búddistar/taóistar 93%, kristnir 5%. aðrir/óskilgreint 2%
Stjórnarform: Þingbundið lýðræði

Landafræði

Meira en helmingur Taívans er þakið þéttum skógi. Stærstur hluti þessa skógar vex á austurhluta eyjunnar, í strjálbýlum fjöllum. Í vestri eru frjósamar sléttur þar sem stundaður er landbúnaður. Meirihluti náttúrulegra hafna landsins er á vesturströndinni, þar sem hátt í 90 prósent íbúanna býr. Taívan er mitt á milli tveggja loftslagsbelta og er mikill munur á norðri og suðri. Lengst í norðri er temprað loftslag, með mildum vetrum og heitum sumrum, en í suðri er hitabeltisloftslag með háum hita allt árið um kring. Vegna loftmengunar hefur lengi rignt súru regni í landinu, vegna úrgangs frá eigin iðnaði og frá meginlandi Kína. Súra regnið hefur eyðilagt mörg landbúnaðarsvæði. Í Taívan skortir viðunandi fráveitukerfi og mengað vatn er stórt vandamál, sérstaklega á landsbyggðinni.

Saga

Kínverjar hafa búið í Taívan frá miðöldum, en eyjan varð ekki hluti af Kína fyrr en í lok 17. aldar. Taívan var kínverskt svæði í meira en 200 ár. Árið 1895 var eyjan framseld til Japans sem hluti af uppgjörinu eftir stríðið á milli Kína og Japan. Undir stjórn Japans var Taívan nútímavætt á stuttum tíma, fékk rafmagn, ásættanlegt vegakerfi og iðnað. Eftir seinni heimsstyrjöldina var Japan þvingað til að afhenda Taívan tilbaka til Kína. Yfirtakan fór fram á sama tíma og borgarastríð á milli kommúnista og þjóðernissinna geisaði í Kína. Stríðið var mjög afdrifaríkt fyrir Taívan. Árið 1949 flúði kínverski þjóðernisflokkurinn til eyjunnar og lýsti flokkinn rétta ríkisstjórn landsins undir nafninu Lýðveldið Kína. Á tímabilinu frá 1949–1971 var Lýðveldið Kína viðurkennt af alþjóðasamfélaginu sem ríkisstjórn Kína. Frá 1971 og fram til dagsins í dag hafa SÞ og stærstur hluti ríkja heims viðurkennt Alþýðulýðveldið Kína á meginlandi Kína sem fulltrúa íbúa Kína. Taívan var einsflokksríki undir stjórn þjóðernisflokksins fram til ársins 2000 þegar stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðveldisflokkurinn (Democratic People´s Party), vann forsetakosningarnar. Í millitíðinni hafði þjóðernisflokkurinn látið af kröfu sinni um að taka yfir völdin í Kína og byrjað smám saman að leggja áherslu á Taívan í stjórnmálastefnu sinni.

Samfélag og stjórnmál

Taívanska samfélagið hefur um árabil einkennst af ágreiningnum á milli Taívana og Kínverja. Margir Taívanar börðust með Japönum í seinni heimsstyrjöldinni og voru sterklega á móti komu kínverska þjóðernisflokksins árið 1949. Vera þjóðernissinna í Taívan átti að vera tímabundin, áður en þeir sneru til baka til meginlandsins og tækju völd yfir öllu Kína. Allt þar til á miðjum níunda áratugnum var landinu stjórnað sem einræðisríki. Kínverskri menningu og kennimarki var hyglað á kostnað hinnar taívönsku. Engir aðrir stjórnmálaflokkar voru leyfðir og margir pólitískir aðgerðasinnar voru ofsóttir og teknir af lífi. Í byrjun tíunda áratugarins fór að draga úr einsflokksstjórninni og fleiri stjórnarandstöðuflokkar voru stofnaðir. Árið 2000 var Chen Shui-Bian frá Lýðveldisflokknum valinn fyrsti forseti Taívans, frá öðrum flokki en Þjóðernisflokknum. Í dag reyna Taívanar að skapa sér sitt eigið kennimark óháð Kína. Stöðugt fleiri skólar kenna á taívönsku og sögubækurnar innihalda nú bæði taívanska og kínverska sögu.

Hagkerfi og viðskipti

Eftir seinni heimsstyrjöldina var gífurlegur hagvöxtur í Taívan og er landið í dag meðal ríkustu landa Asíu. Á 50 ára tímabili meira en tífaldaðist verg landsframleiðsla og þróaður iðnaður kom í staðinn fyrir landbúnað. Mjög lítill heimamarkaður hefur þvingað landið til að leggja mikla áherslu á útflutning. Ástæður velgengninnar má rekja til þess að ríkisstjórnin lagði áherslu á að framleiða einfaldar vörur sem Taívan gat boðið ódýrari en aðrir á heimsmarkaði, til að mynda textíl og matvöru. Lega landsins gerir það tilvalið fyrir Japan og Bandaríkin að eiga í viðskiptum við Taívan. Taívan hefur tekist að halda í við þróuðu löndin í heimsviðskiptum og tók upp þyngri iðnað á áttunda áratugnum og tölvutækni á tíunda áratugnum. Efnahagur landsins hefur lengi verið miðstýrður en einkavæðing hefur aukist undanfarin ár. Í dag framleiðir Taívan fjölbreytt úrval af hátæknivörum til útflutnings, frá bílum og leikföngum til tölva og fatnaðar. Það að Taívan er svo háð útflutningi leiddi það af sér að landið varð illa úti í fjármálakrísunni árið 2008.

Kort