Tyrkland

Síðast uppfært: 28.06.2024

Tyrkland er á mörkum Evrópu og Asíu. Vegna legu sinnar hefur landið gegnt lykilhlutverki í samskiptum þessara tveggja heimsálfa.

Fáni

Helstu tölur og staðreyndir

Höfuðborg: Ankara
Þjóðernishópar: Tyrkir 70-75%, kúrdar 18%, aðrir minnihlutahópar 7-12%. (2008)
Túngumál: Tyrkneska, kúrdíska, dimli, azeri, kabardian
Trúarbrögð: Múslímar 99,8%, aðrir 2%
Stjórnarform: Lýðveldi
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa: 37 274 PPP$

Landafræði

Í suður- og norðurhluta Tyrklands, við Miðjarðarhaf og Svartahaf, eru vinsælir áfangastaðir evrópskra ferðamanna. Í austri mynda fjöll náttúruleg landamæri við nágrannalöndin Írak og Íran. Í miðju landsins er hálendi, þar sem meðalhæð er 1000 metrar yfir sjávarmáli. Vesturhluti landsins er að mestu láglendar sléttur sem henta vel til landbúnaðar. Tyrkland liggur á mörkum jarðskorpufleka sem hefur leitt til tíðra jarðskjálfta, oft með hörmulegum afleiðingum. Loftslagið er mjög breytilegt, temprað miðjarðarhafsloftslag í suðvestri og kalt meginlandsloftslag í fjöllunum í norðaustri. Tyrkland stendur frammi fyrir miklum umhverfisvandamálum – jarðvegseyðing hefur skemmt meira en helming ræktanlegs lands og loftmengun í borgunum hefur aukist gífurlega undanfarin ár. Vegna lélegrar stjórnunar hafa mörg fyrirtæki komist upp með að losa sig við eiturefnaúrgang í árnar. Stjórnun landsins hefur batnað eftir að ríkið hóf aðildarviðræður við ESB árið 1999, en enn er þó langt í land.

Saga

Í Tyrklandi eru í dag síðustu leifar Ottóman-keisaradæmisins, sem frá 1300–1550 var eitt af valdamestu ríkjum heims. Keisaradæmið var stofnað í lok 13. aldar, þegar Mongólar höfðu hrakið flesta múslíma þaðan sem í dag er Írak og Íran inn í Tyrkland þar sem þeir sameinuðust undir Óman hinum fyrsta. Á hátindi sínum náði Ottóman-keisaradæmið yfir alla Norður-Afríku, mestan hluta Suðaustur-Evrópu og stóra hluta Asíu. Á 19. öld fór að halla undan fæti og keisaradæmið missti stöðugt meira landsvæði. Eftir að hafa tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni og tapað (1914-1918) hrundi keisaradæmið og árið 1924 var því sem eftir var af ríkinu breytt í tyrkneska lýðveldið, stofnað af Mustafa Kemal – Atatürk („faðir tyrkja“). Allt sem tengdi saman trú og ríki var fjarlægt og kveðið var á um algeran aðskilnað á milli ríkis og trúar í stjórnarskránni. Atatürk dó árið 1938 en flokkurinn sem hann stofnaði var við völd fram til ársins 1950, þegar Lýðveldisflokkurinn komst til valda. Næstu þrír áratugir einkenndust af pólitískum óstöðugleika, með valdaránum hersins árin 1960, 1971 og 1980, af mismunandi ástæðum. Á tveimur síðustu áratugum síðustu aldar barðist herinn gegn kúrdísku skæruliðahreyfingunni PKK í austurhluta landsins.

Samfélag og stjórnmál

Tyrklandi er stjórnað af kjörnum forseta og ríkisstjórn sem er tilnefnd af þinginu. Tyrknesk stjórnmál einkennast af spennu á milli stjórnmálamanna og stofnana í ríkiseigu, eins og dómskerfisins og hersins. Dómstólarnir líta á það sem sína ábyrgð að viðhalda hinni andtrúarlegu stefnu sem er arfleifð „föður“ landsins, Kemal Atatürk. Þeir hafa nokkrum sinnum bannað stjórnmálaflokka sem gefa í skyn að þeir hyggist blanda saman trúmálum og stjórnmálum. Herinn hefur mjög mikil áhrif á Þjóðarráðið, sem er æðsta stofnun Tyrklands í öryggismálum. Þrátt fyrir mörg valdarán hefur herinn oftast afsalað sér völdum til nýkjörinna ríkisstjórna eftir stuttan tíma. Undanfarin ár hefur hinn íslamski jafnréttis- og þróunarflokkur notið mests fylgis og myndað nokkrar ríkisstjórnir. Tyrkland er félagslega skipt land með gífurlegum mun á menntunarstigi og tekjum íbúa borganna í vestri og minni þorpa í austri. Kúrdíski minnihlutinn í austri, sem er um það bil 20 prósent af íbúum landsins, hefur verið kúgaður í áraraðir. Á tímabilinu frá 1984-1999 var stríð á milli kúrdísku skæruliðahreyfingarinnar PKK og tyrkneska hersins. Landið hefur um árabil verið sakað um gróf mannréttindabrot, sérstaklega gegn kúrdíska minnihlutanum og pólitískum föngum. Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin stuðlað að breytingum til að bæta ástandið svo að landið uppfylli skilyrði aðildar að ESB.

Hagkerfi og viðskipti

Grundvallarþáttur í hugmyndafræði Atatürk, stofnanda Tyrklands nútímans, var að ríkið skyldi stjórna stærstum hluta efnahagsins. Á níunda áratugnum var hafist handa við að einkavæða hluta fyrirtækja í ríkiseigu, ríkið gegnir þó enn mikilvægu efnahagslegu hlutverki í landinu. Einkavæðingunni var ekki fylgt eftir með viðeigandi reglugerðum, sem hefur haft í för með sér umfangsmikla spillingu og ýmislegt bendir til þess að svarti markaðurinn samsvari um það bil 50 prósent af vergri landsframleiðslu landsins. Undanfarin ár hefur fjöldaframleiðsla á bílum og rafmagnsvörum orðið sífellt stærri hluti af efnahagnum á meðan hlutur landbúnaðar hefur minnkað. Landið er þó enn eitt af stærstu landbúnaðarlöndum heims og er sjálfbært um mat. Tyrkland hefur búið við stöðugan efnahagslegan vöxt frá árinu 2000, undantekning varð þó á þegar alþjóðlega fjármálakreppan reið yfir heiminn árið 2009.

Kort